„Fyrst á eftir sá maður ekki fyrir sér að maður myndi finna gleðina“

Guðrún Jóna segir að það hafi skipt hana máli að …
Guðrún Jóna segir að það hafi skipt hana máli að komast í rútínu og að tala við aðrar konur og mæður sem voru búnar að ganga sama veg og hún. Ljósmynd/Samsett

Árið 2010 missti Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir son sinn Orra Ómarsson þegar hann féll fyrir eigin hendi 16 ára gamall. Samkvæmt lýsingum Guðrúnar var Orri bráðgerður og kraftmikill drengur. Hann var fljótur að læra og gekk vel í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var íþróttamaður og spilaði bæði handbolta og fótbolta. 

Eftir andlát Orra stofnuðu Guðrún og eiginmaður hennar, Ómar Ingi Bragason, minningarsjóð sem vinnur meðal annars að forvörnum gegn sjálfsvígum. Þau reka vefinn sjalfsvig.is en þar er að finna gagnlegur upplýsingar fyrir aðstandendur í sömu sporum. Guðrún Jóna er verkefnastjóri hjá embætti landlæknis og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar. Hún er gestur Karólínu Helgu Símonardóttur í hlaðvarpi Sorgarmiðstöðvar, Sorg og missir. 

Hér er Guðrún Jóna með Orra og Braga sumarið 2009. …
Hér er Guðrún Jóna með Orra og Braga sumarið 2009. Myndin var tekin sumarið áður en Orri lést.

Guðrún segir að heimurinn hafi hrunið þegar Orri lést og trúði því ekki fyrst um sinn að lífið gæti orðið gott aftur.

„Fyrst á eftir sá maður ekki fyrir sér að maður myndi finna gleðina. Þegar maður á erfitt með að vera til, borða og klæða sig og sinna svona einföldum athöfnum daglegs lífs. Þá á þeim tíma var alls ekki hægt að sjá fyrir sér að maður gæti fundið gleðina,“ segir Guðrún Jóna.

Þegar hún er spurð að því hvað hafi hjálpað henni segir hún að hennar bjargráð í sorginni hafi verið fólkið hennar. Það að fá að tala um Orra og kynnast öðru fólki sem bjó yfir svipaðri lífsreynslu. Hún segir líka að það hafi hjálpað henni að halda rútínu og hreyfa sig. 

„Hreyfinguna setti ég mjög fljótt inn. Orri lést í janúar svo það var kalt og dimmt. Ég fann það strax hvað það gerði mikið fyrir mig að fara út og hreyfa mig. Hreyfingin og útiveran er eitt mitt helsta bjargráð og gerir mjög mikið fyrir mig í dag,“ segir hún. 

Guðrún sökkti sér ofan í bækur og efni á netinu á þessum tíma og komst fljótt að því að það var ekki til mikið efni á Íslensku sem varðaði sjálfsvíg. Hún fann að það hjálpaði henni að lesa viðtöl við aðra sem voru í sömu sporum og hún. Hún segist hafa eignast sínar fyrirmyndir í sorginni. Konur og mæður sem misst höfðu barn og komist í gegnum sorgina. 

„Ég hugsaði oft til þeirra. Fyrst þær gátu þetta þá get ég þetta líka,“ segir Guðrún Jóna sem hitti sína fyrstu fyrirmynd í sorginni í stuðningshóp. 

„Hún hafði misst strákinn sinn skyndilega og var þarna komin. Hún var máluð, bæði með masara og varalit. Og hún var bæði að vinna og að hlaupa,“ segir Guðrún Jóna og rifjar upp að á þessum tíma hafi hún ekki séð fyrir sér að hún gæti einhvern tímann komist á þann stað að halda áfram með líf sitt.

„Þetta var mér mjög mikilvægt. Að horfa á aðrar konur sem höfðu gengið í gegnum þetta á undan mér,“ segir hún. 

Bjargráð í sorg

Í þættinum fer Guðrún einnig yfir bjargráð í sorg sem Sorgarmiðstöð hefur gefið út bæði fyrir syrgjendur og aðstandendur. 

„Eftir missi er maður staddur fyrir framan risa stóran skafl sem að sorgin er. Hvort sem maður áttar sig á því eða ekki. Og maður þarf að moka sig í gegnum hann. Og maður þarf að átta sig á því hvað það er sem hjálpar. Og með því að nýta sér bjargráðin sín þá er auðveldara að moka sig í gegnum skaflinn,“ segir Guðrún Jóna. 

Bjargráðin eru ráð eða tillögur sem syrgjendur hafa sjálfir sett saman. Þetta er listi yfir það sem hefur hjálpað fólki sem hefur misst.

Bjargráðunum er skipt upp í þrjá flokka.

  1. Að leita sér hjálpar. Það er misjafnt hvernig fólk vill leita sér hjálpar. Fyrir einhverja getur hjálpað að tala við ættingja og vini á meðan öðrum finnst betra að tala við fagaðila. Hver og einn verður að finna sinn takt.  
  2. Að hlúa að sér. Þar gæti rútínan átt vel við hver sem hún er. Hreyfing, að sýna sér mildi, leyfa sér að gráta eða hvað það er sem hentar hverjum og einum.
  3. Að fá hvíld frá sorginni. 

Guðrún Jóna ítrekar að bjargráðin séu eingöngu til stuðnings eða sem leiðbeiningar. Hver og einn verði að finna sín bjargráð. Sumum finnst kannski gott að fara út að hlaupa á meðan öðrum líður betur að vera í rólegheitum með góða bók.

„Það er engin ein uppskrift sem hentar öllum. Sorgin er eins og fingrafar manns. Sú leið sem við veljum er bara einstök fyrir okkur sjálf, eins og fingrafarið okkar er. Það er enginn sem getur tekið nákvæmlega mína uppskrift og ætlar að fara sömu leið og ég. Því að tengingar við þann sem við misstum eru ólíkar. Systkini geta ekki einu sinni farið sömu leið sem missa foreldri, sorgin er einstaklingsbundin,“ segir hún.  

Guðrún Jóna bendir á  að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða netspjallið 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218.

Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má m.a leita stuðnings hjá Sorgarmiðstöð í síma 551-4141 og á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar.

Hægt er að hlusta á hlaðvarp Sorgarmiðstöðvar í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Þessi mynd var tekin af bræðrunum Orra og Braga í …
Þessi mynd var tekin af bræðrunum Orra og Braga í Englandi sumarið 2005.
Guðrún Jóna lagði mikla áherslu á að hreyfa sig eftir …
Guðrún Jóna lagði mikla áherslu á að hreyfa sig eftir að hún missti son sinn. Þessi mynd var tekin síðasta sumar í Frakklandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál