Hrúturinn: Haltu áfram á fullri ferð

Elsku Hrúturinn minn,

það er ekkert annað í boði í stöðunni en að halda áfram á fullri ferð og til þess að breyta lífinu þarf oft bara eina ákvörðun, en það þarf að taka hana og standa við hana, og þú verður svo aldeilis feginn þegar þú sérð þetta og hversu auðvelt allt verður þegar ákvörðunin hefur verið tekin. Það er eins og létti og birti til, veðrið í lífi þínu verður eins og best verður á kosið og þér líður vel.

Þú átt eftir að leika þér mikið á næstunni og leyfa þér kæruleysi, já ég sagði leyfa þér það, því það er ekki algengt að þú sért kærulaus. En þegar þú meðvitað leyfir þér og sleppir tökunum, þá skemmtir sér enginn eins vel og þú.

Það er mikill „rythmi“ í lífinu þínu og svo margt sem þú ert að takast á við í augnablikinu, en það sem þú ert að opna fyrir og gera er líka lykillinn að því að láta drauma rætast. Þú getur heldur ekki látið öllum í fjölskyldunni líka svo ofur vel við þig, því það  veldur of miklu stressi og streitu hjá þér að halda öllu og öllum góðum.

Þú stormar áfram svo eftir þér verður tekið, en þú fattar sjálfan þig eiginlega ekki og sérð ekki hvaða glæsikraft þú hefur upp á að bjóða, en nýttu þér sjarmann sem skín frá þér og daðraðu þig í gegnum vitleysurnar sem eru í kringum okkur öll, því það er enginn snjallari en þú að finna leiðir til þess að laga hlutina.

Það hringdi Hrútur í mig um daginn sem sagði: „Mér finnst ekkert hafa verið að gerast hjá mér undanfarin ár, ég les alltaf stjörnuspána þína og hún færir mér von.“ Ég svaraði henni að það væri nefnilega oft þannig að við hefðum svo lága tíðni og orku að ekkert hreyfðist.

Þú þarft þess vegna að standa upp og hreyfa meira alheiminn og þá muntu skilja hversu sterkur Hrútur þú í raun og veru ert. Það hefur mikið breyst hjá þessari konu síðan hún talaði við mig, en þið hafið alltaf valið, hvort þið takið þátt í lífinu eða ekki því það er ákvörðun og ástin er alltaf mest í kringum þig á vorin, svo hún mun eflast hvort sem þú trúir á hana eða ekki.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is