Bogmaðurinn: Þú elskar að uppgötva nýjar hliðar

Elsku Bogmaðurinn minn,

það er í raun ekkert sem þér er óviðkomandi. Þú elskar að uppgötva nýjar hliðar á lífinu, búa til ævintýri og njóta þín. En þegar einhver annar stjórnar hvernig þú átt að vera eða hvað þú átt að gera, hvort sem það tengist verkefnum, vinum eða ástinni, þá verðurðu geðstirður. Þegar þú verður geðstirður verður allt leiðinlegt. Stundum heldurðu pirringnum of lengi inni í þér og þá áttu það til að hvæsa hærra en tírisdýr þegar þú hefur fengið nóg.

Þú hefur dýpri og gleggri skilning á furðuverkum lífsins en flestir og í þér býr leiðtogi. Sá leiðtogi sem hentar því að þú stjórnir sjálfum þér og skapir verkefni eða vinnu sem þú getur verið sjálfstæður og í ró. Þú hefur tælandi takta og getur verið mjög krefjandi og þá sérstaklega við sjálfan þig.

Þú gefur þig af öllum lífs og sálarkröftum þegar þú elskar eða þegar þú ert að skapa eitthvað skemmtilegt. Þegar þú skynjar betur þitt barnslega eðli, þá sérðu hvað þú ert með frjótt ímyndunarafl og það er þinn sterkasti og besti hæfileiki.

Miðað við afstöðu tunglanna er trúlegt að þú gætir keypt þér húsnæði eða fengið upp í hendurnar einhverskonar íverustað sem gleður svo sannarlega hjarta þitt. Margir í þínu merki eiga eftir að fara að stunda allskyns hreyfingu og þá sérstaklega hlaupa, klifra og gera eitthvað í náttúrunni sem gefur þér orku úr súrefninu sem þú færð.

Hugrekki verður einkennandi og einhver ósigur er á leiðinni til þín, en í því ferli er persóna sem hjálpar þér að fá það sem þú óskar þér eftir. Jafnvægi, friður og traust myndast í framhaldi af þessu, svo sigurinn verður meiri en þú átt von á. Vertu áræðinn og hugdjarfur því hugdirfskan borgar sig í þetta sinn.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is