Sporðdrekinn: Febrúar eflir þig andlega

Elsku Sporðdrekinn minn,

það er búið að vera ýmislegt að gerast í kringum þig sem þú ert ekki alveg viss um hvernig þú átt að leysa eða hvernig þú átt að haga þér. Vertu alveg rólegur, notaðu þrjóskuna þér til hjálpar og þetta gengur allt saman framar öllum vonum.

Erfiðleikar eða álag innan fjölskyldunnar hjálpar ykkur að þéttast saman og eiga betri stundir, það er svo skrýtið að af erfiðleikunum verður útkoman oftast meiri kærleikur og þó að það sé streita í kringum þig í starfinu, er það eitthvað sem þú átt að leiða hjá þér.  Þú ert með svo yndislega orku og hefur svo góð áhrif í kringum þig, þó þér líði ekki alltaf sem best.

Þessi mánuður sem er að koma núna eflir þig andlega, fær þig til að taka eftir hinu merkilega í lífinu, gefur heiðarleika, betri samskipti og stútfyllir hjarta þitt af hamingju. Ekki deyfa huga þinn með misómerkilegum efnum, því það seinkar hamingjunni og þú verður svo ósáttur við sjálfan þig.

Þú nærð svoleiðis framúrskarandi árangri ef þú kærir þig um það, en það koma stundum tímabil þar sem þú vilt láta fara lítið fyrir þér og vera ósýnilegur, en það fer þér bara illa hjartað mitt. Leyfðu orkunni að umfaðma þig þó ekki sé nema klukkutíma í einu og gerðu eitthvað nýtt í hverri viku sem breytir mynstrinu þínu, því þegar þú niðurnjörfar þig og skrúfar þig fastan færðu ekkert súrefni úr orkunni. Svo hér er tákn um að endurskipuleggja margt í kringum þig og leyfa þér að vera óhefðbundinn.

Það er svo sem ekkert merkilegt nýtt að gerast í ástamálunum og það verður ekki fyrr en líða tekur á árið, en þið sem hafið fundið sálufélaga, reynið þá ekki að breyta honum eða hafa nokkur áhrif, þá gengur allt miklu betur hjá þér.

Peningar koma inn, ekki bara tengt vinnu, svo það verður sko aldeilis fjör hjá þér í febrúar, settu eitthvað í þinn persónulega sjóð og láttu engan vita af því. Orka þín og kraftur rís með hverjum mánuði sem kemur, svo þetta er allt saman bara rétt að byrja.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is