Bogmaðurinn: Styrkur og bjartsýni umvefja þig

Elsku Bogmaðurinn minn,

lífið er búið að líða svo hratt, en þú átt eftir að sjá hvað í raun og veru hefur hægst mikið um. Þú verður beðinn um marga greiða en veist ekki alveg hvort þú getur gert það sem þú ert beðinn um. Sýndu eins mikla góðsemi og hægt er því það er lykillinn að því að lífið muni redda þér og þínum. Þú getur og munt koma þér út úr þeirri stöðu sem þér fannst þú vera kominn í og færð mikið hreyfiafl til þess að breyta, færa, laga og verður sterkari við hverja þraut sem mætir þér.

Þú hefur verið að setja hjúp í kringum þig tengt ástinni og þú þarft að leyfa örlögunum að leiða þig í réttan farveg. Svo taktu áhættu þó að þú haldir að þú brennir þig því annars muntu alltaf efast um hvort þú gerðir rétt eða ekki, en þeir sem eru í sambandi skulu halda sér þar með auðmýkt og alúð.

Það verður svo mikill kraftur í þér og þótt þér finnist það ólíklegt þá áttu eftir að eyða hinni miklu orku sem þú býrð yfir í eitthvað líkamlegt sem þú hefur ekki haft áhuga á áður að prófa.

Flutningar eru í kortunum, gæti verið eitthvað sem er komið og þú veist af, en allavega verðurðu mjög ánægður með útkomuna. Það á eftir að koma þér á óvart hversu margir eru í fjölskyldunni þinni, en fjölskylda er ekki endilega þeir sem eru þér blóðtengdir, heldur þeir sem þú velur í þitt líf.

Stundum hittirðu einhvern og þið smellið saman við fyrsta orð. Þarna eru sálirnar úr fyrra lífi að koma inn og þér finnst um marga sem eru að koma inn í líf þitt núna að þú hafir þekkt þá áður. Styrkur, kraftur og blessun felst í tengslanetinu þínu, svo virkjaðu það og breiddu út góðan boðskap, og láttu húmorinn fylgja það er svo mikið þú og dreifðu bjartsýni allt í kringum þig.

Kossar & knús,

Sigga Kling

mbl.is