Hrúturinn: Þú færð mikla umbun í vor

Elsku, Hrúturinn minn,

þú ert búinn að ganga í gegnum merkilegt ár sem hefur haft allskonar áhrif á tilfinningar þínar og þroska. Þegar þetta ár er að byrja, geturðu að mörgu leyti verið þakklátur fyrir það sem yfir þig dundi. Þú ert harðákveðinn í því að skipta um gír í þessum merkilega janúarmánuði sem þú ert að fara inn í. Og þó þú leyfir þér dag og dag að vera í hlutlausum gír, skaltu bara gera það með gleði.

Þú ert að líta í kringum þig til að skoða margar áskoranir sem þú vilt færa þér og takast á við. Ein áskorun í einu er alveg nóg, því annars getur blaðran sprungið. Þetta tilfinningamikla og einlæga ár er sérstaklega að klappa fyrir þér þegar mars kemur. Þá finnurðu í öllum frumunum í blóði þínu að þú ert sá sem þú vilt vera. Á þessu tímabili eflast tengingar við fjölskyldu, gamla og nýja vini og ýmislegt fólk sem auðgar anda þinn.

Þú ert tilbúinn með faðminn útréttan og knúsar og gefur fólki styrk af innlifun. Eitt barnabarnið mitt sagði við mig þegar ég hélt í höndina á henni og var að hugga hana: „Amma ég finn að höndin á mér hitnar alveg upp í höfuðið þar sem hugsanirnar mínar eru, þá byrja þær að verða fallegri og betri. Ég fékk sting í hjartað því börnin eru á þessari Jörð til að kenna okkur hinum. Talan níu trónir yfir þér á þessu ári. Hún hjálpar þér við það að skilja hvað þú átt ekki að vera með í eftirdragi og gefur þér einnig að þú ert að byrja á nýju og öðruvísi tímabili til 10 ára þegar þessu blessaða ári 2021 líkur. Þú færð meiri áhuga á hinu andlega en hinu veraldlega þegar líður tekur á þetta ár, en samt er þetta vinnuárið mikla og þú átt ekki eftir að skafa af því.

Þú færð mikla umbun eða verðlaun í vor, í hvaða formi skal ég ósagt látið, en þetta er samt eitthvað sem þú ert búinn að bíða eftir í langan tíma. Þú þroskast eins hratt og íslensku blómin vaxa að vori, enn það er mjög mikilvægt fyrir þig að skoða hvaða blóm þú vilt vera? Viltu vera litríkt blóm,  eða blóm sem enginn sér? Þú ræður þessu nefnilega, svo taktu ákvörðun og sjáðu fyrir þér hvernig þú vilt að blóm þitt springi út. Sumarið gefur þér frið og vellíðan og verður eitt það streitulausasta tímabil sem þú hefur mætt. Þú skipuleggur þig svo ógnarvel fyrir haustið að allt sem þú planar fellur í rétta röð. Mörg ykkar stefna á lærdóm eða bæta við sig í námskeiðum eða þvíumlíku. Þú gefur þér svo sannarlega tíma til þess og tíminn er það eina sem þú átt. Ástin er í góðum gróðurvegi á þessu ári, réttu fram hönd og önnur hönd grípur í þína.

Kossar og knús, Sigga Kling

mbl.is