Sporðdrekinn: Teygðu þig eftir tækifærunum

Elsku Sporðdrekinn minn,

ég lendi oft í því að fólk spyrji mig: „Veistu í hvaða merki ég er“? En meirihlutinn af því fólki eru nefnilega Sporðdrekar. Ég nenni oft ekki að pæla mikið í því hvaða merki fólk er tengt, en Sporðdrekarnir skera sig úr og það sést á augunum þeirra. Því að þegar þú hefur öll ljós kveikt og hefur ekki lamað þig í leiðindi, þá snýr maður sig næstum úr hálslið þegar þú gengur framhjá, því það er ekkert merki sem massar þig í útgeislun á góðum degi. Og dagarnir sem þú ert að fara í eru góðir, en ef ekki hefurðu bara stungið sjálfan þig með þínum eigin eiturbroddi.

Láttu vaða að teygja þig eftir tækifærum þó að sjálfstraustið segi annað. Farðu bara og gerðu það sem þú þarft og þú færð tuttugu já á móti einu neii. Slepptu því að horfa mikið á sjónvarp eða á eitthvað sem slævir huga þinn. Spáðu frekar í það sem þú getur gert til þess að græða nýjar hugmyndir af krafti fyrir þig. Farðu að trúa því að þó að hugurinn geti gert þig veikan og getur hann alveg eins gert þig heilan. Þú þarft að sjá að þú ert mátturinn og dýrðin. Næstu þrír mánuðir marka miklar breytingar því að þú munt skilja það af öllu afli að hamingjan býr í þér, en ekki í heimsins óförum.

Þú í raun og veru elskar að hafa allt skipulagt, því þú lamast af þreytu ef allt er í hrúgu heima hjá þér. Þá er gott fyrir þig að henda bara inn í þvottahús, eða að gera, mála og græja.  Ég vil líka segja við þig að það er opinn farvegur í ástinni. Og eins og með tækifærin sem ég talaði um áðan, þá geturðu og þú SKALT taka áhættu og hrífa persónu sem þú heldur þú hafir engan séns í til þín, þú  átt að ganga skrefi lengra en þú hefur þorað. Sigursetningin þín er: „Að lifa er að þora“.

Frá níunda til 27. september er eins og eldingum hafi lostið niður allt í kringum þig. Þú keyrir það áfram sem hefur verið kyrrt og sleppur frá því sem þú hefur hræðst. Því að engin af þessum af þessum eldingum mun lenda á þér.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is