Sporðdrekinn: Tækifærið býr í þér

Elsku Sporðdrekinn minn,

það er allt að snúast í rétta átt fyrir þig. Júpíter hættir í því ömurlega ferli að snúast afturábak í júní. Þetta hefur sérstaklega mikil áhrif á þrjú stjörnumerki, þar á meðal þitt. Flækjur leysast og gleðin hækkar. Það sem er best fyrir þig að gera í þessari stöðu er að gefa frá þér tíma og hjálpa öðrum eins mikið og þú getur. Að hringja í þá sem eru einmana og þú hefur jafnvel gleymt að hafa samband við. Þá hefur þetta meira en tvöföld áhrif á það tímabil sem þú ert að skoppa inn í.

Það er eins og þú lærir betur að þekkja sjálfan þig, að vita hver þú ert og hvað þú vilt og þá kemur friður yfir hjartastöðina þína. Þú getur tekið töluverða áhættu með því að horfast í augu við það fólk sem hefur ekki haft þor til þess að tala við og að láta bara vaða. Ef þú hugsar hvað er það versta sem getur komið fyrir, þá segi ég barasta ekki neitt. Þú átt það til að detta í oggulitla þráhyggjuvitleysu en með því að sýna hugrekki þá brýturðu þær hömlur niður.

Það er að rætast úr svo mörgu í lífinu þínu, svo mundu að gleðjast og að hafa alltaf eins mikið fyrir stafni og þú mögulega getur. Það er harðbannað að hanga í ömurlegum hugsunum. Þú ert eins og mannlegur segull sem dregur að þér fólk með sömu eiginleika og þú.

Þú hefur verið að leita að gullnu tækifæri í kringum þig, en þetta tækifæri býr hjá og í sjálfum þér. Slakaðu á huganum, þá sérðu þetta ekki tala um skort á peningum, heilsu þinni eða hverju því sem er að ergja þig. Ef þetta er svo skaltu finna þér ný umræðuefni, þá er breytingin innsigluð.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is