Lífið umturnaðist þegar ég varð mamma

Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir á tvær dætur.
Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir á tvær dætur.

Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir lögfræðingur er nýorðin tveggja barna móðir. Hún á tvær dætur, fjögurra ára og rúmlega tveggja mánaða. Hún segir að líf sitt hafi tekið miklum breytingum eftir að hún varð mamma. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vil fyrst og fremst vera góð mamma og gefa stelpunum mínum alla þá ást og umhyggju sem ég get gefið þeim. Ég vil einnig byggja þær upp með sterka sjálfsmynd svo þær standi vel að vígi í þessum stóra heimi,“ segir hún. 

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Ég legg áherslu á kærleiksríkt uppeldi. Börn þurfa einnig aga og legg ég líka áherslu á það. Mér finnst mikilvægt að tala við börnin sín og leggja sig fram við að skilja þarfir þeirra hverju sinni.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Lífið umturnaðist þegar ég varð fyrst mamma fyrir fjórum árum síðan. Maður fær allt í einu líf í hendurnar sem maður ber fulla ábyrgð á, maður er ekki lengur með sjálfan sig og maka sinn í fyrsta sæti. Mér finnst ekkert meira og stærra í lífinu en móðurhlutverkið og ég er svo endalaust þakklát fyrir það. Auðvitað er þetta mjög krefjandi og ekki alltaf dans á rósum, ég tala nú ekki um allar svefnlausu næturnar, hvað þá þegar litlu krílin veikjast, þegar maður situr bjargarlaus á hliðarlínunni. Þetta tekur mikið á sálarlífið og þessi litlu kríli láta mann átta sig á því hvað það er sem skiptir máli í þessu lífi,“ segir Hrafntinna. 

Hvað kom þér á óvart við móðurhlutverkið?

„Það sem kom mér mest á óvart var þessi óendanlega mikla og skilyrðislausa ást.“

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum sem móðir?

„Ég hef aldrei miðað mig við neina staðalímynd samfélagsmiðla sem móðir. Auðvitað setja samfélagsmiðlar oft upp glansmynd af móðurhlutverkinu og þá er ég að tala um þessa veraldlegu hluti eins og að klæða barnið sitt í nýjasta og flottasta merkið, vera með flottan vagn eða fullkomið barnaherbergi sem er eins og klippt út úr glanstímariti. Ég viðurkenni það að ég vil hafa fallegt í kringum mig og börnin mín en þegar á botninn er hvolft er það eina sem skiptir máli að koma börnunum sínum vel á legg og gera það sem manni þykir vera barninu sínu fyrir bestu og hlusta á móðurhjartað.“

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungbarn?

„Fyrstu mánuðirnir eru mjög krefjandi, allt er svo nýtt fyrir manni. Ég finn samt mikinn mun á því að vera með ungabarn í annað sinn, maður er fljótur að rifja handtökin upp.“

Ertu í mömmuklúbbi?

„Þegar ég átti eldri dóttur mína fyrir um fjórum árum var í frábærum litlum mömmuhópi og er enn. Við vorum duglegar að hittast með börnin og kasta vangaveltum okkar um börnin inn á lokaða hópinn okkar á facebook. Ég er einnig í öðrum litlum hópi núna með nýjasta fjölskyldumeðliminn en við erum ekki enn farnar að hittast þar sem krílin okkar eru enn svo lítil. Mér finnst æðislegt að vera í svona litlum mömmuhópi þar sem maður getur deilt öllum sínum vangaveltum með mömmum í sömu sporum.“

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

Yngri dóttir mín er rúmlega tveggja mánaðargömul svo ég er ekki mikið farin að spá í að koma mér í form strax, annars tekur þetta bara sinn tíma. Léttir göngutúrar með vagninn er góð hreyfing til að byrja með. Ég man að ég hugsaði ekkert út í þetta eftir fyrri meðgönguna, en ég fór að hreyfa mig reglulega þegar mér fannst ég tilbúin til þess.“


Fannstu fyrir fæðingarþunglyndi?

„Nei, ég fann ekki fyrir því. En á þriðja degi eftir fæðinguna í bæði skiptin fann ég fyrir smá niðursveiflu sem jafnaði sig jafn fljótt og það byrjaði. Þegar að eldri dóttir mín fæddist þurfti maðurinn minn að fara erlendis í vinnu í nokkra mánuði þegar hún var aðeins nokkra klukkutíma gömul, það tók vissulega mikið á og kom svolítið í bakið á mér eftirá en ég tengi það ekki við fæðingarþunglyndi, aðeins krefjandi og erfiðan tíma.“

Hvernig eru fæðingarsögur þínar?

„Fyrri fæðingin var mjög harkaleg og mér satt best að segja leið eins og ég myndi ekki lifa hana af. En um leið og ég fékk hana í fangið á mér leið mér eins og ég gæti gert þetta 100 sinnum aftur. Seinni fæðingin fyrir um tveimur mánuðum síðan gekk eins og í sögu. Fæðingin byrjaði að malla í gang þegar við vorum með eldri dóttur okkar í húsdýra- og fjölskyldugarðinum. Ég fann fyrir nokkrum hríðum þar og við ákváðum að fara að rölta af stað heim. Við kláruðum að setja í tösku og koma eldri stelpunni í pössun. Við vorum komin upp á deild um kl. 18.30 og hún var komin í heiminn um 23.30. Það sem að toppaði þetta var að góðvinkona okkar sem er ljósmóðir tók á móti henni þar sem hún var akkúrat á vakt þetta kvöld. Þetta var frábær upplifun í alla staði.“

mbl.is