Þriggja barna móðir vill minnka rómantíkina

Kamilla Einarsdóttir segir að rómantíkin sé stórlega ofmetin.
Kamilla Einarsdóttir segir að rómantíkin sé stórlega ofmetin. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Kamilla Einarsdóttir rithöfundur er einhleyp þriggja barna móðir. Hún segir að sumir sniðgangi plast og kjöt en mælir miklu frekar með því að fólk minnki rómantíkina. Í fyrra gaf hún út sína fyrstu skáldsögu, Kópavogskróníkuna, sem fjallar um stóðlíf einhleyprar konu í Kópavogi á kómískan hátt. Í vetur verður Kópavogskróníkan sett á svið Þjóðleikhússins og er það Ilmur Kristjánsdóttir sem leikur aðalpersónuna. 

Þegar Kamilla er spurð hvenig lífi hún lifi sjálf og hvað drífi hana áfram í lífinu segist hún eiga erfitt með að svara því.

„Ég held ég lifi nú bara frekar tíðindalitlu bókavarðarlífi. Fer í vinnuna á bókasafninu mínu. Reyni að lesa sem mest af bókum sem eru góðar, eða svo lélegar að mér finnst þær fyndnar.

Mér finnst mjög gaman að fara á tónleika og uppistand, reyni að gera það sem oftast. Það sem drífur mig áfram í lífinu þessa dagana er aðallega bara að skrifa meira. Þó ég skrifi eiginlega bara um bömmer og að þvælast um Smiðjuhverfið þá finnst mér það mjög gaman og skemmti sjálfri mér við það. Þess utan reyni ég bara að vera sem fæstum til ama, borða sem mest af heitum brauðréttum og komast oft á Catalinu,“ segir hún og hlær. 

Þessi mynd var tekin á Catalinu síðasta vetur en þetta …
Þessi mynd var tekin á Catalinu síðasta vetur en þetta er einn af uppáhaldsstöðum Kamillu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Catalina er í Kópavogi eins og sögusvið Kópavogskróníkurinnar. Hún segir að viðbrögðin við bókinni hafi verið góð og hún hafi grætt fullt af partíum á bókarskrifunum. 

„Ég get ekki kvartað, hún fékk góða dóma og margt fólk var bara ánægt með hana. Alla vega allir sem hafa haft fyrir því að segja mér frá því að þeir hafi lesið hana. Kannski var eitthvert fólk úti í bæ alveg brjálað eða hundfúlt með bókina, en ég hef verið svo heppin að það fólk hefur að mestu verið svo elskulegt við mig að halda því bara alveg fyrir sig sjálft hingað til.

Áður en ég fór út í þetta hafði ég heyrt hryllingssögur af því hvað þetta gæti verið blóðugt og erfitt allt saman, þetta jólabókaflóð með öllu sem því fylgir, en ég hef ekki lent í neinu hrikalegu ennþá. Ég reyni líka að velta mér ekkert of mikið upp úr hvernig aðrir taka þessu. Ég hef út á þessa bók grætt boð í nokkur partí þar sem hefur verið boðið upp á uppáhaldsbjórtegundina mína; ókeypis bjór, og það eru nógu góð viðbrögð fyrir mig,“ segir hún og hlær og bætir við: 

„Það góða við að vera að gefa út mína fyrstu bók var að öll viðbögð gátu aldrei orðið annað en bestu viðbrögð sem ég hef nokkurn tímann fengið. Fyrirfram reyndi ég alveg að búa mig undir það versta en ég er meira en sátt. Þetta hefur verið skemmtilegt og án þess að ætla mér að hljóma eins og fegurðardrottning þá hef ég kynnst góðu fólki í gegnum þetta og það er það sem mér hefur þótt vænst um.“

Er önnur bók á leiðinni? 

„Já, ég vona að hún komi út fyrir jólin 2020 en er samt að reyna að stressa mig ekkert of mikið á því strax. Það getur verið snúið að skrifa skáldsögu með öðru fullu starfi og ég verð bara rugluð ef ég reyni að sleppa því að sofa stundum.“

Í Kópavogskróníkunni fær lesandinn innsýn í frekar skrautlegt deitlíf. Er íslenskt deitlíf svona slæmt eins og því er lýst í bókinni?

„Hahaha. Það er nú örugglega alla vega og mjög mismunandi hvernig fólk upplifir það og lendir í því. Ég vona að einhverjum þyki það reglulega skemmtilegt þótt ég sjái ekki alveg aðrdráttaraflið.“

Ertu sjálf í sambandi? 

„Ég held að eitt það besta og ljúfasta sem ég get gert til að gera heiminn að betri stað sé að sleppa öllu slíku. Mér finnst mjög gott hvað margir sniðganga plast og kjöt, ég held að næsta skref sé að minnka rómantíkina. Hún hefur farið illa með allt of marga.
Ég skil alveg að folk vilji stundum skreppa upp á vini sína ef því leiðist. En að ana út í sambönd og þaðan af verra, mér finnst fólk óþarflega æst í allt svoleiðis.“

Fékkstu einhver sérstök viðbrögð frá Kópavogsbúum eftir útkomu bókarinnar? 

„Allir Kópavogsbúar sem ég þekki eru svo skemmtilegir að ég hef bara fengið góð viðbrögð. Serstaklega frá öðrum aðdáendum stóra rússalerkisins í Kópavogsdal sem var útnefnt tré ársins 2005. Þeir eru allir mjög ánægðir með þessa bók.

Svo hafa Anna og Binni vinir mínir í Kópavogi boðið mér oftar í mat eftir að bókin kom út. En það tengist held ég frekar því að þau voru að eignast grill en eitthvað endilega útgáfu bókarinnar.“

Eftir áramót fer Kópavogskróníkan á svið Þjóðleikhússins. Kamilla segist hafa orðið mjög hissa þegar hún fékk símtal frá Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur. 

„Ég varð mjög hissa þegar Ilmur Kristjáns og Silja Hauks höfðu samaband við mig en það er auðvitað mikill heiður fyrir mig að fá svona svala og klára listamenn á borð við þær tvær til að búa til nýtt verk úr skáldsögunni minni svo ég er mjög spennt að sjá hvernig þetta kemur út og hlakka mikið til að fara í Þjóðleikhúsið eftir jól.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál