„Upp úr fertugu breytist svo margt hjá konum“

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. Ljósmynd/Árni Sæberg

Guðrún Bergmann, rithöfundur og heilsu- og lífsstílsráðgjafi, slær ekki slöku við. Hún hefur nýlokið við að skrifa nítjándu bók sína, þar sem hún fjallar um náttúrulegar leiðir til að bæta heilsuna og auka lífsgæðin. Hún telur mikilvægt að huga að því hvernig við viljum eldast og hvaða lífsgæða við viljum njóta eftir að miðri leið eða fimmtugsaldrinum er náð.

Hvers vegna fannst þér nauðsynlegt að skrifa þessa bók?

„Ég hef komist að því á HREINT MATARÆÐI námskeiðum mínum að margar konur þyrstir í frekari fróðleik um náttúrulegar leiðir til að bæta heilsu sína og auka lífsgæðin. Þótt ég sé með mikla fræðslu á námskeiðunum, sem nú eru orðin fimmtíu og átta, eru margar sem segja við lok þess: „Og hvað svo?“ Ég ákvað því að fjalla í þessari bók um tíu leiðir sem konur á besta aldri geta farið á eigin vegum til að bæta lífsgæði sín.

Upp úr fertugu breytist svo margt hjá konum. Þá byrjar að hægja á ýmissi líkamsstarfsemi, framleiðsla á meltingarhvötum minnkar og við förum að finna fyrir fyrstu einkennum tíðahvarfa, þótt hin eiginlegu tíðahvörf eigi sér ekki stað hjá flestum fyrr en eftir fimmtugt.

Þegar ég lít til baka vildi ég óska að ég hefði sjálf haft þá þekkingu sem í bókinni er að finna, þegar ég var í kringum fertugt. Sem betur hefur hefur þekking á starfsemi líkamans aukist mjög hratt á síðasta áratug eða svo og við njótum góðs af því. Jafnframt hefur komið í ljós svo margt sem við konur getum gert með lífsstíl okkar til að viðhalda góðri heilsu og lífsgæðum sem lengst. Þetta eru ekki flóknir hlutir, en eitthvað sem við þurfum að temja okkur að gera reglulega, því góðir hluti sem endurteknir eru aftur og aftur leiða til frábærs árangurs.

Eftir algeran útbruna árið 2010 fór ég í gegnum nokkuð magnað bataferli, meðal annars með því að nýta mér margar af þeim leiðum sem ég greini frá í bókinni. Eftir þá reynslu setti ég mér það markmið að hvetja sem flestar konur til að hugsa vel um heilsuna og huga að forvörnum, meðal annars gagnvart útbruna eða kulnun. Það er mun einfaldara, en að ætla að snúa ferlinu við þegar í óefni er komið. Ég var heppin að mér skyldi takast það, en það eru ekki allar konur svo heppnar.

Til að geta verndað heilsuna sem best þarf upplýsingar og þekkingu. Ég ákvað því að deila þeirri þekkingu sem ég bý yfir með því að skrifa BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri,“ segir Guðrún.  

Finnst þér fólk ekki vera með það á hreinu hvað matur og bætiefni geta gert?

„Margir eru með það á hreinu, en alls ekki allir. Það hefur svo augljóslega komið í ljós á námskeiðum mínum. Rúmlega sautján hundruð manns hafa tekið þátt í þeim á rúmum fjórum árum og margir þekkja lítið til bætiefna og þess hvernig við getum nýtt þau til að bæta okkur upp það sem við ekki fáum í gegnum fæðuna. Þess vegna fjalla ég meðal annars um bætiefni í bókinni og hvaða bætiefni styrkja hvaða starfsemi í líkamanum og veita okkur aukna orku.

Margir segja þegar þeir koma á námskeið hjá mér að „þeir hafi alltaf borðað mjög hollan mat“, en hollur matur er víðtækt hugtak og oft kemur í ljós að ef viðkomandi sleppir bara einni fæðutegund getur henni liðið mun betur. Það er að mínu mati ekki til neitt eitt mataræði sem hentar öllum. Líkamar okkar eru ekki bara stórkostlegt sköpunarverk, heldur eru þeir líka frekar flókin fyrirbæri og það sem hentar einum, hentar ekki öðrum.

Sértækasta mataræði sem ég þekki er blóðflokkamataræðið, sem byggt er á áratugalöngum rannsóknum náttúrulæknisins Peter J. D‘Adamo. Ég hef rekið mig á að þegar þátttakendur á námskeiðum mínum, sneiða fram hjá þeim mat sem ekki hentar blóðflokki þeirra batnar heilsa þeirra til muna. Þess vegna fjalla ég lítillega um þetta mataræði í bókinni, einkum þær fæðutegundir sem valda hverjum og einum blóðflokki mestum heilsufarslegum skaða.

Sjálf er ég endalaust að læra eitthvað nýtt um líkamann og hverju hann þarf á að halda til að starfa sem best, enda ligg ég yfir greinum og rannsóknum um heilsumál alla daga. Þær leiðir sem ég ráðlegg öðrum í bókinni hafa leitt til þess að ég er í dag við betri heilsu en þegar ég var í kringum fertugt, svo það er aldrei of seint að byrja að gera breytingar til hins betra.“

Hvað drífur þig áfram í þessum skrifum?

„Ég er sjálf með viðkvæmt ónæmiskerfi og hef þurft að hafa mikið fyrir því að halda góðri heilsu og nægilega sterkum líkama til að njóta góðra lífsgæða. Náttúrulegar leiðir hafa reynst mér vel og í gegnum mína eigin heilsufarssögu hef ég lært svo margt sem hægt er að gera til að styrkja heilsu líkamans. Ég hef líka komist að raun um að sú þekking getur hjálpað öðrum.

Bækur eru góð leið til að deila þeirri þekkingu og ég lít svolítið á BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri sem handbók, sem getur nýst sem uppflettirit, til lengri tíma. Við erum oft fljótar að gleyma því sem sagt er við okkur, en ef við höfum bók sem hægt er að fletta upp í rifjast hlutirnir auðveldlega upp fyrir okkur.“

Hvaða lífsgæði ertu að fjalla um?

„Ég er meðal annars að fjalla um það hvernig við getum verndað heilaheilsu okkar. Mér finnst það sérlega mikilvægt í ljósi þess að tveir þriðju hlutar þeirra sem greindir eru með heilabilun eða Alzheimer‘s í heiminum í dag eru konur. Þetta er erfiður sjúkdómur, bæði fyrir þá sem fá hann og eins aðstandendur þeirra.

Þess vegna bendi ég á ýmsar leiðir sem við getum farið til að vernda heilann og leggja okkur fram um að vinna að forvörnum, því það eru ekki til nein lyf við þessum sjúkdómi í dag. Allar forvarnir eru því sérlega mikilvægar.

Kaflarnir í bókinni eru tíu og í hverjum og einum fjalla ég um eina leið sem við getum farið til að bæta lífsgæði okkar. Flestar konur ættu því að finna leið, jafnvel fleiri en eina, sem hentar þeim vel,“ segir Guðrún en bókin kemur út í lok október. 

Guðrún segir að það séu ákveðin tímamót hjá henni um þetta leyti því það séu 30 ár síðan hún stofnaði verslunina Betra líf sem nú er í Kringlunni. 

„Ég seldi hana reyndar eftir fimm ára rekstur, þegar ég flutti að Hellnum á Snæfellsnesi. Verslunin og allar þær bækur og þau námskeið sem ég stóð fyrir á meðan ég átti hana og rak, mörkuðu upphafið að miklu sjálfsræktarferli hjá mér sjálfri og úrvinnslu gamalla áfalla.

Heiti bókarinnar, BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri, er því bæði tengt þessum tímamótum og því að mitt eigið betra líf hófst fyrir þessum þrjátíu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál