Litlu hlutirnir frá jólunum verða stórir í minningunni

Hafdís Erla Bogadóttir.
Hafdís Erla Bogadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Hafdís Erla Bogadóttir ólst upp á Djúpavogi. Hún er yngst sjö systkina og jólin voru sá tími ársins þegar tilhlökkun var mikil og alls konar brallað á stóru heimili. Meðal annars spilað, borðað og leikið. 

Hafdís segir að hún hafi spilað mikið á jólunum. Þau hafi verið níu í fjölskyldunni og því þurft á þessum tíma að spila á mörgum borðum.

„Pabbi spilaði alltaf á harmonikkuna öll jól á jólaböllunum og þá var dansað í kringum tréð og allir fylgdust með mömmu, því hún kunni allar hreyfingarnar við jólalögin.

Það var alltaf stór stund að fara í kirkjugarðinn og setja grein á leiðið hans afa. Þá voru jólin eiginlega komin. Amma var glöð með sína fallegu spiladós en vildi ekki jólatré. Hún var af þeirri kynslóð að hún vildi nú ekkert vesen en gaf okkur krökkunum alltaf bók, sem við máttum velja úr Bókatíðindum.“

Hafdís á þrjú uppkomin börn sem hún var vön að lesa fyrir.

„Það má því segja að Lifandi jóladagatalið og spilin sé framhald á útgáfu spila sem fyrirtæki mitt hefur gefið út frá árinu 2013.“

Tækni blandað við gamlar góðar hefðir

Forsaga þess að Hafdís fór út í viðbótarveruleika (e. augmented reality, AR) er sú að ungur maður kom að máli við hana í fyrra.

„Hann kynnti mér þessa tækni, sem er mjög vinsæl um allan heim í dag og virðast vinsældirnar bara aukast ef marka má forspár um tækni í framtíðinni.

Með því að notast við þessa tækni lifna spilin við, rétt eins og jólasveinarnir gera.

Ef ýtt er á einn stað kemur upp gamla sagan af jólasveininum, á öðrum stað talar hver og einn sveinn til notenda, sem verður að skemmtilegu spjalli.

Það er gaman þegar sögurnar eru samdar í takt við nútímann. Stúfur, sem allir krakkar elska, er óttalegt krútt og segir börnunum frá því að hann sé ekki eins hræddur í umferðinni og að hann noti alltaf endurskinsmerki.

Grýla og jólakötturinn fá ekki að fara með til byggða í spilunum. Þegar Stekkjarstaur var að leggja í hann öskraði Grýla svo hátt á köttinn að hárin risu og hann skreið undir rúm til Leppalúða, sem alltaf sefur.“

Hafdís segir Grýlu- og jólasveinafræðin sem hún notar byggja á fortíðinni.

„Þegar ég bjó fyrir austan með börnin ung var ég oft jólasveinn en þó oftar Grýla, það var þá á þrettándanum. Þá var vaninn að halda skemmtilegar brennur. Pabbi spilaði á nikkuna, jólasveinarnir komu og auðvitað kom mamma þeirra hún Grýla með þeim.

Hún var auðvitað forljót sú gamla en samt var húmor yfir henni. Hún dansaði í kringum eldinn; skreytt endurskinsmerkjum og svo reyndi hún að tolla í tískunni og var með varalitinn, þótt hann smyrðist stundum út um allt andlitið á henni. Eitt sinn, þar sem búningarnir voru nú auðvitað bara heimatilbúnir, kviknaði í hárinu á þeirri gömlu, sem var hampur, en pabbi var pípari og átti hamp sem ég notaði fyrir hár. Grýla þurfti að hlaupa afsíðis og að sjálfsögðu hlupu krakkarnir á eftir og hrópuðu síðan: Þetta er Hafdís!“

Kynslóðir þurfa að deila sögum

Hafdís er á því að hennar kynslóð þurfi að vera duglega að deila sögum og sagnahefðum.

„Það er alveg einstaklega gaman að fá að leika sér með að fá þessa útrás að skapa og gera, eins og við gerum í fyrirtækinu mínu. Vinnan, sem er að mestu unnin við eldhúsborðið, er búin að vera þannig undanfarin ár.“

Hafdís segir mikilvægt að gefa frumkvöðlafyrirtækjum kost á að vaxa í alls konar áttir.

„AR-tæknin býður upp á fjölmarga möguleika og það má alltaf uppfæra allar vörur ef við erum ekki ánægð með eitthvað eða viljum bæta við tungumálum, nýjum möguleikum í appinu.

Þá er það auðvelt þó að dagatalið, spilin eða hvað sem við vinnum með hafi verið prentað. AR-tæknin þekkir það prentaða efni sem við vinnum með og þannig virkar það.

Fyrir utan að það að spila er enn vinsælt og spilastokkur er alltaf góð gjöf. Þá var líka svolítið hugsunin að auðvelda foreldrum að muna nú röðina á jólasveinunum og söguna á bak við þá. Það er einfalt, því Stekkjarstaur sem er fyrstur er ásinn, Giljagaur tvisturinn, Stúfur sá þriðji og svo mætti áfram telja.“

Jóladagatöl eru alltaf skemmtilegt að sögn Hafdísar.

„Það er gaman að fá dagatal. Það eru ekki allir hrifnir af súkkulaðidagatölum fyrir börnin. Með því að opna glugga á dagatalinu kemur mynd af því sem mun koma inn í söguna þann daginn. Snjókorn, skautar, síðan jólasveinarnir og nöfnin þeirra. Síðan þegar tími gefst til, hvort sem er eftir skóla eða meðan morgunmaturinn er borðaður, má hlusta á sögu dagsins með því að skanna kóðann í glugganum. Söguna er hægt að hlusta á á íslensku, ensku og pólsku.“

Þegar tvær kynslóðir sameinast

Hafdís og Pétur Ásgeirsson, sem er verkefnastjóri fyrirtækisins, sjá um alla vinnu við teikningar, hönnun og að semja sögurnar.

„Með vinnu okkar sameinast þekking tveggja kynslóða. Hann er með tæknina og ég sagnahefðina.“

Hvaða merkingu hafa jólin fyrir þig?

„Nú tilheyri ég elstu kynslóðinni í minni stóru fjölskyldu. Ég var ein að ala upp börnin mín frá árinu 1999. Öll jól, fyrir utan þrjú skipti sennilega frekar en tvö, héldum við jólin með ömmu og afa.

Krakkarnir hafa öll búið erlendis og verið við nám eða vinnu. Í þeirra huga voru jólin svolítið þessar góðu stundir með ömmu og afa. Skatan, sem afi þurfti reyndar að elda úti á palli til að lyktin gerði ekki alveg út af við alla, samveran og allt sem okkur þykir vænt um lifir í minningunni.

Litlu hlutirnir frá jólunum verða stórir í minningunni og við verðum svolítið að minna okkur á það.

Það er reyndar leyndarmál, því sagan er spennandi, en skessan hún Grýla kemur í átt til byggða og krakkarnir hitta hana og sjá jólaköttinn; það fléttast í ævintýri þeirra.“

Jólasveinarnir vekja athygli á erlendri grundu

Jólasveinarnir vekja allsstaðar athygli, á erlendri grundu líka, því að íslensku sveinarnir eru engum öðrum líkir.

„Ég byrjaði að gefa út spil árið 2013, stofnaði fyrirtæki og skrásetti vörumerkið. Þau voru komin á markað í ágúst sama ár og fór fyrsta sending beint í Epal í Hörpunni. Það voru 52 fróðleiksmolar um Ísland.

Nú höfum við gefið þau spil út með AR-appinu, með 52 ljósmyndum og textum að innanverðu. Með því að skanna hvert spil opnast valgluggi og eitt af því sem hægt er að velja um er val á milli textans á spilinu á ensku, dönsku, frönsku, þýsku, spænsku, íslensku eða kínversku.

Þau hafa verið vinsæl til gjafa erlendis, því þau opna á umræðuna um land og þjóð.

Hvað mig varðar fékk ég tækifæri til að einbeita mér að verkefninu út október og er að vinna í samstarfi við Ferðaklasann. Því samstarfi lýkur í október og þá kemur í ljós hvort ég hef komið fyrirtækinu á þann stað að getað unnið þar, en hingað til hefur þetta aðeins verið hliðarverkefni, eða áhugamál.

Tækifærin við þá tækni sem við notum eru ófá og ég held að fyrirtæki mitt Sýsla ehf. sé það fyrsta sem fer þessa leið til að nýta hana hér á landi.

Satt að segja eru um þessar mundir „vaxtarverkir“ í fyrirtækinu. Við fáum beiðnir frá útlöndum um að gera vörur í svipuðum dúr, enda er spilastokkur til á hverju heimili, góð gjöf og auðvelt að ferðast með milli landa þegar þarf að horfa á kíló og grömm í flugi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál