Hanna Kristín flutt heim til Íslands eftir skilnaðinn

Hanna Kristín Skaftadóttir flýtti ferð sinni til Íslands vegna kórónuveirunnar.
Hanna Kristín Skaftadóttir flýtti ferð sinni til Íslands vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Haraldur

Hanna Kristín Skaftadóttir framkvæmdastjóri Poppins & Partners og rithöfundur er komin heim til Íslands eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í rúmlega um tvö ár. Aðalástæðan fyrir því að hún kom heim með börnin sín þrjú er að hún og Sindri Aron Viktorsson eru skilin. Parið hnaut hvort um annað 2017, gekk í hjónband stuttu seinna og eignaðist dóttur 2018. Hanna Kristín segir að skilnaður þeirra sé í mesta bróðerni. Þau hafi ekki átt samleið sem par. 

„Við tókum ákvörðun um að fara í sundur þar sem við áttum ekki samleið sem par en þykir afskaplega vænt hvoru um annað. Það ríkir góð vinátta og samstarf meðal okkar. Sindri er í krefjandi og tímafreku sérnámi í skurðlækningum og ég er sjálf í fyrirtækjarekstri samhliða því að kenna við Háskóla Íslands  og í doktorsnámi sem allt krefst viðveru minnar á Íslandi. Svo það til lengri tíma litið myndi ekki ganga upp í okkar tilfelli að vera hvort á sínum staðnum,“ segir Hanna Kristín í samtali við Smartland. 

Fjölskyldan bjó saman í Hanover í New Hampshire í Bandaríkjunum. Hanna Kristín segir að það hafi farið vel um þau öll í þessum krúttlega háskólabæ. 

„Við höfum öll kunnað einstaklega vel við okkur í Bandaríkjunum og fór búsetan þar fram úr væntingum okkar allra. Við erum búin að búa í New Hampshire í bæ sem heitir Hanover sem er yndislegur staður að ala upp börn. Mikil og falleg náttúra, skemmtilega skýr munur á árstíðunum, samfélagið almennt vinalegt og hreyfing stunduð af flestum sem vettlingi geta valdið. Synir mínir hafa blómstrað í þessu umhverfi og ég líka. Þetta er lítill háskólabær og maður fékk að kúpla sig aðeins út og njóta þess að læra á nýtt umhverfi og nýja menningu,“ segir hún. 

Planið var að flytja heim til Íslands næsta sumar en vegna ástandsins í heiminum ákvað hún að flýta för sinni heim. 

„Við erum á Íslandi núna í óvissuástandi. Ég hafði séð fyrir mér að synir mínir myndu klára skólaárið í Bandaríkjunum, en hvort af því verður veit maður hreinlega ekki. Strákarnir eru núna í fjarkennslu við skólann sinn í Hanover þar sem það var búið að loka öllum skólum þar,“ segir hún og bætir við: 

„Það var nú tekin ákvörðun um að koma fyrr heim en áætlað var undir mjög erfiðum kringumstæðum og það bar býsna brátt að. Það stóð til að flytja til Íslands í sumar en nú eru aðstæður aðrar og maður er enn að reyna að átta sig á því hvenær sé hægt að fara út og pakka búslóðinni, kveðja vinafólk sitt í Hanover og fleira. Ef það þá verður hægt. En að því undanskildu er ágætt að vera komin aftur til Íslands og nóg af verkefnum fram undan. Þetta er bara eins og hvert annað verkefni sem maður tæklar á eins jákvæðan hátt og hægt er,“ segir hún. 

Þeir sem hafa gengið í gegnum skilnað vita að það er langt og erfitt ferli. Þegar Hanna Kristín er spurð hvort hún hafi einhver góð ráð fyrir fólk sem er að skilja nefnir hún að það sé mikilvægt að halda í vináttuna. 

„Vinátta skiptir miklu máli, ef fólk getur reynt að halda í það. Í New Hampshire er fólk sem á barn saman skikkað til að sitja námskeið í „co-parenting“ og mér fannst það mjög gagnlegt. Þar er bent á að þó svo foreldrar ákveði að fara hvort sína leið er samt áfram „samband“ milli foreldranna – það hefur bara tekið á sig nýja mynd. Við skilgreinum okkur í dag sem „co-parents“ en ekki til dæmis „minn fyrrverandi“. Ætli maður myndi ekki segja á íslensku að við værum samforeldrar. Með því að orða þetta svona þá er hugsunin sú að maður hugar ekki um fyrrverandi maka sinn sem eitthvað í þátíðinni heldur frekar að þetta sé breyting á sambandsformi. Við Sindri erum góðir vinir og höfðum alveg fram til þessa búið áfram undir sama þaki þrátt fyrir að vera ekki lengur par.

Ég er auðvitað engu sérfróðari en aðrir um skilnað eða sambandsslit en hef þó þá reynslu að það sé öllum hollt að standa með sinni sannfæringu um hvað þjóni hagsmunum sínum og heildarinnar best. Og það getur verið mjög fjölbreytt hvað hentar hverjum best. Það er þó alltaf mikilvægt að huga að börnunum og slá skjaldborg um þau. Svo er nú lífið oftast þannig að það er alltaf eitthvað gott fram undan og þó svo breytingar geti verið áskorun þá kemur í kjölfarið eitthvað nýtt og jákvætt.“

Hvenær veit fólk þegar hjónaband er komið á endastöð?

„Guð, það held ég að sé algjörlega einstaklingsbundin ákvörðun. Í dag er svo mikill fjölbreytileiki í því hvernig samböndum fólk vill vera í. Til dæmis finnst mér vera að líta dagsins ljós talsverður fjölbreytileiki á sambandsformum umfram bara tveir einstaklingar gagn/samkynhneigðir sem vilja deila lífi sínu saman + börn.

Mér finnst til dæmis mjög flott að sjá að sífellt fleiri konur eru farnar að hugsa barneignir án maka. Ég sé í kringum mig sívaxandi fjölda fólks sem velur að vera í „polyamorous“ samböndum þar sem fólk velur til dæmis að halda sinni kjarnafjölskyldu en hittir líka annað fólk. Svo það er allt inni í myndinni og því ómögulegt að segja hvað sé endastöð og hvað ekki því tímarnir hafa breyst svo mikið og mögulega farin að úreldast sum hugtök varðandi sambönd. En auðvitað fara öll sambönd, sama af hvaða toga þau eru, oft á endastöð þegar fólk á ekki lengur samleið og fólk sér framtíðina fyrir sér á mismunandi hátt.“

Hvernig ætlar þú að fara í gegnum þá tíma sem nú eru fram undan vegna kórónuveirunnar?

„Hlúa sem best ég get að börnunum mínum og hafa gott skipulag á deginum og gæta þess að krakkarnir sökkvi sér ekki bara í skjátíma og reiðuleysi. Ef einhvern tíma er mikilvægt að halda reglusemi hjá flestum þá held ég að það sé núna. Svo er auðvitað hreinlætið mikilvægt. Fyrir sjálfa mig þá hef ég unnið að mestu í fjarvinnu síðastliðin tvö ár svo eina stóra breytingin fyrir mig er að hafa alla krakkana líka heima meðan ég er að vinna. En það er bara skemmtileg áskorun að leysa úr. Það má alveg hafa bak við eyrað að líta á svona breytingar sem jákvæðar áskoranir sem eitthvað gott kemur út úr. Ég er viss um að það á margt nýtt eftir að líta dagsins ljós frá grasrótinni sem mun aðstoða í ástandinu.“

Hvað getur fólk í sóttkví og samkomubanni gert til þess að lifa betra lífi?

„Hvað er betra líf? Sjálf er ég mikill intróvert svo þetta er hið besta líf fyrir mig að þurfa ekki að vera að fara á milli staða innan dagsins. En eins og ég sagði áður þá er reglusemi og skipulag mikilvægt núna og sérstaklega fyrir börnin. Reglulegur og góður svefn, heilsusamlegt fæði, dagleg hreyfing í fersku lofti, drekka nóg vatn og taka bara einn dag í einu held ég að komi manni ansi langt,“ segir Hanna Kristín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál