Minnir okkur harkalega á hvað lífið er brothætt

Jón Gunnar Geirdal á hugmyndina af þáttaröðinni Jarðarförin mín sem …
Jón Gunnar Geirdal á hugmyndina af þáttaröðinni Jarðarförin mín sem sýnd verður í Sjónvarpi Símans Premium n um páskana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnar Geirdal varð heimsfrægur á Íslandi þegar hann vann á FM957 í gamla daga enda með eindæmum orðheppinn. Svo orðheppinn að það var hringt í hann við gerð Næturvaktarinnar til að fá heitustu frasana fyrir Ólaf Ragnar, sem leikinn var af Pétri Jóhanni Sigfússyni. Næsta miðvikudag verður Jarðarförin mín frumsýnd í Sjónvarpi Símans en serían fjallar um dauðvona mann sem ákveður að skipuleggja sína eigin jarðarför. Jón Gunnar á hugmyndina að þessari seríu og skrifar hana í samstarfi við aðra en hann er á öðru ári í ritlist í Háskóla Íslands. 

Jarðarförin mín var tíu ár í vinnslu en á þeim tíma reyndi Jón Gunnar ítrekað að selja hugmyndina til íslenskra sjónvarpsstöðva. Það var þó ekki fyrr en hann hitti Pálma Guðmundsson hjá Sjónvarpi Símans að hjólin fóru að snúast. 

„Góðar hugmyndir neita að deyja er hugtak sem kristallast í þessu verkefni. Á þessum tíu árum er ég nokkrum sinnum búinn að kynna þetta fyrir öllum sjónvarpsstöðvum og nokkrum framleiðslufyrirtækjum og þrátt fyrir góð viðbrögð við hugmyndinni rakst ég stöðugt á veggi. Tímasetningin var einfaldlega ekki rétt og lífið snýst um tímasetningar. Eftir mjög gott spjall síðla árs 2018 við Pálma Guðmundsson, sjónvarpsstjóra Símans, ákvað ég að dusta rykið af hugmyndinni og reyna einu sinni enn. Síminn féll fyrir hugmyndinni og ákvað að kýla á þetta með mér og snillingunum hjá Glassriver sem framleiða seríuna og stórvini mínum Kristófer Dignus sem leikstýrir og skrifar handritið ásamt mér, Ragnari Eyþórssyni, Heklu Elísabetu, Sóla Hólm og Baldvini Z. Ég er að kafna úr þakklæti fyrir allt þetta magnaða fólk sem hefur komið að framleiðslunni,“ segir Jón Gunnar í samtali við Smartland. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvar varstu þegar þú fékkst þessa hugmynd?

„Ég man svo sem ekkert nákvæmlega hvar ég var en í einhverjum vangaveltum um lífið og tilveruna kviknaði þessi pæling: Myndi maður ekki vilja vera viðstaddur sinn síðasta viðburð með sínum nánustu og kveðja alla á sínum forsendum? Auðvitað er það ekkert alltaf hægt en ef sá möguleiki væri fyrir hendi, myndum við þá ekki flest vilja það? Mér fannst þetta áhugaverð hugleiðing og hún skaut rótum í hausnum á mér. Um leið og hugmyndin fæddist vildi ég líka ekki fá neinn annan en Ladda til að leika aðalhlutverkið. Fyrir mér er þetta hlutverkið sem þjóðin á inni hjá honum. Við erum búin að hlæja með honum í meira en 50 ár en hér sýnir hann á sér aðra hlið sem ég er sannfærður um að landsmenn eiga eftir að falla fyrir. Ég og Ragnar Eyþórs vinur minn unnum svo reglulega í hugmyndinni á þessum tíu árum en nú er þetta loksins að gerast,“ segir hann. 

Jarðarförin mín fjallar um dauðvona mann sem ákveður að bæta upp fyrir tapaðan tíma með því að skipuleggja og vera viðstaddur sína eigin gala-jarðarför.

„Það er samt ekki eins einfalt og það hljómar. Fyrrverandi eiginkonan, einkasonurinn og tengdadóttirin hafa lítinn skilning á þessum áformum, hvað þá barnabarnið sem dýrkar afa sinn og getur ekki hugsað sér að missa hann. Svo flækist málið enn frekar þegar ástin blómstrar á ný milli hans og fyrrverandi kærustu en hún er einmitt presturinn sem á að jarðsyngja hann.“

Á sama tíma og Jón Gunnar var að skrifa þessa seríu veikist systir hans, Alma Geirdal, aftur af krabbameini og fær þær fréttir að hún eigi fjögur ár eftir ólifuð. Jón Gunnar segir að það sé súrrealískt að upplifa það.  

„Mér fannst það í raun bara súrrealískt að vera að skrifa ljúfsára sjónvarpsseríu um dauðvona mann sem er að velta mögulegum endalokum fyrir sér og á sama tíma greinist litla systir mín aftur með illvígt krabbamein og fær þær fréttir að hún eigi fjögur ár eftir ólifuð og í raun sé ekkert hægt að gera nema veita henni líknandi lyfjameðferð. Á sama tíma er hún svo búin að ákveða flest fyrir sína jarðarför og við að ræða það saman systkinin. Þetta setti verkefnið í algjörlega nýtt samhengi fyrir mér,“ segir hann. 

Hvernig tilfinning er það að vita ekki hvort systir þín lifir í þrjú og hálft ár í viðbót eða skemur?

„Hún er hræðileg og ekki neitt sem ég gat ímyndað mér að við systkinin ættum eftir að upplifa. Vissulega telur tíminn niður fyrir okkur öll en óþægilega raunverulegt þegar hann er farinn að telja hraðar niður fyrir litlu systur manns,“ segir Jón Gunnar. 

Hvernig breytir það lífinu að upplifa slíkt?

„Það breytir því heilmikið og gefur manni í raun nýja og vil ég meina betri upplifun í hversdagsleikanum með fjölskyldunni. Þetta hægir á manni og fær mann til að endurmeta í hvað tíminn fer og með hverjum maður eyðir honum. Við fjölskyldan erum mjög náin og þessi martröð færir okkur ennþá nær hvert öðru. Á sama tíma rammar þetta líka inn varnarleysi okkar sem aðstandenda gagnvart þessum óvini sem krabbinn er og það gerir þetta óbærilegt. Ég hef alla tíð tekið hlutverk mitt sem stóri bróðir mjög alvarlega og við Alma systir tekist á við alls konar brekkur í gegnum tíðina og hún klifið þær allar af miklum krafti. En hér er komin brekkan endalausa en við ætlum samt að stíga hana saman, bak í bak.“

Talið berst að þakklætinu og þegar Jón Gunnar er spurður hvort hann hafi verið nægilega þakklátur í gegnum tíðina segir hann svo ekki vera. 

„Nei, pottþétt ekki því miður. Ég held við gætum öll tekið okkur á í því að vera meira þakklát fyrir það sem stendur okkur næst. Ég held að það sé til dæmis eitt af því jákvæða sem við munum gera meira af eftir þennan kórónuveirufaraldur. Þetta ástand minnir okkur harkalega á hvað lífið er brothætt og þá er eins gott að knúsa fólkið sitt sem oftast (þegar það má!) og vera í gleðinni, þakklát fyrir daginn í dag. Ég hef markvisst verið að vinna í sjálfum mér síðastliðinn áratug eftir að ég skildi og það er mikilvægasta verkefni lífs míns: að hægja á og njóta með fallegu konunni minni og börnunum okkar.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnar er á öðru ári í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands en mun klára það á lengri tíma því hann segir að sér liggi ekkert á. 

„Þetta er klárlega ein af betri ákvörðunum lífs míns því þetta nám er ótrúlega skemmtilegt og það hefur verið mér ofboðslega gefandi, bæði í vinnu og daglegu lífi, að vera umkringdur öllu þessu hugmyndaríku fólki sem er með mér í náminu.“

Hvernig viltu nýta þessa menntun?

„Ég vil einfaldlega skrifa meira og reyna að koma fjölmörgum hugmyndum mínum á framfæri með einhvers konar hætti í framtíðinni, hvort sem það er í formi sjónvarpsþátta skáldsagna eða annað.“

Hvers vegna ákvaðstu að fara í þetta nám?

„Ég var búinn að skoða ritlistarnámið í HÍ í mörg ár ásamt því að hafa kynnt mér MBA-námið í bæði HR og HÍ. Ritlistin heillaði meira af einskærum áhuga og vilja til að fá spark í rassinn með útfærslu hugmynda og aukin skrif og þess vegna varð það fyrir valinu. Ég er með bunka af hugmyndum sem bíða nánari útfærslu og ritlistin hjálpar mér að láta þá drauma rætast. Ég vildi líka fá ákveðna staðfestingu, er eitthvað þarna? Það er eitt að vera orðheppinn og sniðugur en annað að færa það á blað og útfæra nánar. Það er líka fjöldatakmörkun í ritlistinni og valið út frá því sem þú hefur verið að skrifa – ég ákvað loksins að hætta að humma þetta fram af mér og skila inn hugmyndabunkanum og það borgaði sig.“

Það loðir oft við fólk, bæði gamanleikara og þá sem velja sér léttvægari starfsvettvang, að vera ekki tekið nægilega alvarlega. Er þetta nám liður í því að fá meiri þungavigt?

„Það held ég ekki en mjög góð spurning. Ætli ég hafi ekki verið tekinn mátulega alvarlega í gegnum tíðina og vonandi aðeins meira með hverju árinu. Ég læt verkin tala og það hvernig ég vinn fyrir og með fólki og það hefur sem betur fer skilað sér. Ég tek sjálfan mig mátulega alvarlega, hef mikinn húmor fyrir mér og mínum og er með afar breitt bak og brosi svo bara gegnum lífið. Hvernig fólk tekur mér er að öðru leyti ekki í mínum höndum.“

Þegar Jón Gunnar er spurður hvað drífi hann áfram í lífinu stendur ekki á svari. 

„Fjölskyldan er minn drifkraftur. Allt sem ég geri er fyrir hana með einum eða öðrum hætti. Ég á dásamlega konu sem heldur mér á jörðinni og fjögur börn sem eru ljós lífs míns. Ég er líka mjög náinn foreldrum mínum og þremur systrum og þetta fólk mitt er það sem gefur mér allan þann styrk og birtu sem ég þarf,“ segir hann. 

Jón Gunnar er oft kallaður frasakóngur Íslands því hann er með eindæmum orðheppinn og sniðugar setningar hafa oltið út úr honum á færibandi síðan hann varð kynþroska og mögulega löngu fyrr. Hann er til dæmis maðurinn sem hringt var í þegar finna þurfti sniðugar setningar fyrir Ólaf Ragnar í Næturvaktinni. Oft loðir það við unglingsdrengi að vera mjög orðheppnir og sniðugir og því er ekki úr vegi að spyrja Jón Gunnar hvernig það sé að eldast sem frasakóngur Íslands?

„Ég lít á það sem algjör forréttindi að eldast og kannski aldrei meira en í dag. Aldur hefur ávallt verið hugarfar hjá mér og þótt ég nálgist fimmtugsaldurinn þá verð ég alltaf tuttugu og fimm ára í huganum.“

Hvar ætlar þú að vera á 50 ára afmælinu?

„Ég hélt stórt og mikið partí þegar ég varð fertugur og svo er ég að fara að gifta mig í haust sem verður veisla lífs míns – annaðhvort verð ég í faðmi stórfjölskyldunnar að fagna tímamótunum eða á einhverri ströndinni með glæsilegu konunni minni að skála fyrir lífinu og ástinni.“

Hvernig verða páskarnir hjá þér?

„Ég verð fyrir norðan hjá dásamlegri tengdafjölskyldunni með konu og fjórum börnum að njóta. En ég verð pottþétt í einhvers konar spennufalls-kvíðakasts-þakklætis-ástandi þegar við kveikjum á Jarðarförin mín því það er með öllu óraunverulegt að upplifa þennan draum minn rætast.“

Hvað er það besta við páskana?

„Það besta við þessa páska verður klárlega Jarðarförin mín-serían sem lendir miðvikudaginn 8. apríl í heild sinni í Sjónvarpi Símans Premium. Það gleður mig mikið og alla sem komu að þessu æðislega verkefni að geta gefið innilokuðum landanum þriggja tíma frí frá allri umræðu um kórónuveiruna. Við ætlum að hlæja og gráta með Ladda þessa páska,“ segir hann. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman