Ólöf og Silli í Dimmu trúlofuðu sig með stæl

Ólöf Erla Einarsdóttir og Silli Geirdal trúlofuðu sig á dögunum.
Ólöf Erla Einarsdóttir og Silli Geirdal trúlofuðu sig á dögunum.

Ólöf Erla Einarsdóttir, hönnuður og eigandi SVART, trúlofaðist ástinni sinni, Silla Geirdal bassaleikara í hljómsveitinni Dimmu, á dögunum. Fallegir hringar frá Inga í Sign eru tákn ástarinnar en hringarnir voru sérsmíðaðir fyrir þau. Þegar Ólöf Erla er spurð út í aðdraganda trúlofunarinnar kemur í ljós að þetta var engin skyndiákvörðun. 

„Við vorum tvö saman með litla strákinn okkar á aðfangadagskvöld. Mega kósí og bara spjalla saman um lífið og framtíðina og ákváðum þá í sameiningu að trúlofa okkur. Við fórum svo um áramótin og hittum Inga sem á Sign skartgripi og er mikill vinur okkar. Við Ingi höfum unnið saman í mörg ár þar sem ég hef hannað auglýsingarnar fyrir fyrirtækið hans og enginn annar kom til greina til að smíða hringana okkar,“ segir Ólöf Erla.

Í kjölfarið hófst Ingi, eða Sigurður Ingi Bjarnason eins og hann heitir fullu nafni, handa við að uppfylla drauma Ólafar Erlu og Silla.

„Ingi hannaði og smíðaði svo hringana sem eru silfur því við erum alltaf með silfurskart. Á þeim eru rúnir og á þeim standa nöfnin okkar beggja. Við erum svo endalaust hamingjusöm með þá. Þeir eru eitthvað svo mikið við. Við settum svo upp hringana á afmælinu hans Silla 3. apríl en höfum svo bara haldið þessu fyrir okkur þangað til núna þegar okkur langaði að deila þessum fréttum með fleirum,“ segir hún í samtali við Smartland. 

Þegar Ólöf Erla er spurð út í hvenær brúðkaupið verði segir hún að það verði ekki strax. Þau langi til að sonur þeirra, Ragnar Óli, sem er eins og hálfs árs, verði eldri og geti tekið þátt í veisluhöldunum. 

„Við erum rosalega ánægð með hvort annað og hamingjusöm. Okkur finnst trúlofunin vera tákn um það,“ segir hún. 

Ingi í Sign hannaði og smíðaði hringana.
Ingi í Sign hannaði og smíðaði hringana.
Hér eru Ólöf Erla og Silli með soninn Ragnar Óla.
Hér eru Ólöf Erla og Silli með soninn Ragnar Óla.
mbl.is