Milla Ósk bjóst ekki við neinu þegar 20 vinkonur ruddust inn

Farið var á Petersen-svítuna þar sem Milla Ósk fékk það …
Farið var á Petersen-svítuna þar sem Milla Ósk fékk það verkefni að fíflast aðeins í gestunum.

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, ætlaði að ganga í hjónaband á Spáni í september en vegna kórónuveirunnar breyttust plönin. Milla Ósk býr með Einari Þorsteinssyni fréttamanni á RÚV og hefur brúðkaupið verið fært í íslenska sveit. Vinkonur Millu Óskar komu henni algerlega í opna skjöldu á laugardaginn var. 

„Stelpurnar vöktu mig með miklum látum, græjuðu rosalegt morgunverðarhlaðborð og Katla Hrund vinkona málaði mig og gerði mig fína. Ég fékk (ó)viðeigandi fylgihluti, slör og vín og svo var haldið út í daginn. Við brunuðum niður á höfn í Reykjavík þar sem við fórum í trylltan útsýnistúr á snekkjunni Hörpu. Eftir það brunuðum við í Bollywood-dans hjá Margréti Erlu Maack í Kramhúsinu og vá hvað það var gaman!
Við tókum svo síðdegisstopp á Petersen-svítunni þar sem við sóluðum okkur og ég var aðeins látin grínast smá í gestum og gangandi. Svo var mér rúllað á rafmagnshlaupahjóli í veislusal í Framsóknarhúsinu á Hverfisgötu þar sem allt var skreytt svo fallega og við héldum karaoke-partý langt fram á kvöld. Dansinn dunaði, vægast sagt.
Ég var svo spennt allan daginn að ég gleymdi alveg að borða eða drekka vatn. Það er víst lykilatriði í góðri gæsun að láta gæsina borða reglulega en það kom ekki að sök í mínu tilfelli, ég var síðust út úr partýinu,“ segir Milla Ósk í samtali við Smartland. 

Milla Ósk Magnúsdóttir var klædd upp á viðeigandi hátt. Hér …
Milla Ósk Magnúsdóttir var klædd upp á viðeigandi hátt. Hér er hún í siglingu á bátnum Hörpu.

„Ég átti að vera mætt á handboltamót í Hafnarfirði klukkan 8:30 um morguninn en Einar sagði mér bara að sofa aðeins út og mæta seinna. Það þarf ekki að segja mér að sofa út tvisvar þannig ég rotast aftur og vaknaði svo bara við að þær tróðu sér sirka 20 talsins inn í svefnherbergi til mín öskrandi og hlæjandi. Mér brá svo að ég gleymdi að setja í mig linsur og gleymdi að setja sjampó og næringu í hárið á mér þegar ég fór í sturtu,“ segir hún. 

Bjóstu við þessu þennan dag?

„Nei alls ekki. Þetta er reyndar mjög fyndin saga – sæta amma mín missti það út úr sér í þarsíðustu viku að ég yrði gæsuð þá helgi, sem sagt þarsíðustu helgi. Þannig að ég var mjög peppuð, smurð með brúnkukremi og tilbúin á laugardaginn í síðustu viku – en enginn kom.
Amma hló svo mikið að mér að mér datt ekki annað í hug en að hún hafi verið fengin til að djóka í mér. Það hvarflaði ekki að mér að hún hefði bara ruglast á helgum!“

Millu Ósk grunaði ekki að neitt væri í gangi þegar …
Millu Ósk grunaði ekki að neitt væri í gangi þegar 20 vinkonur birtust heima hjá henni.

Er mikil gæsaveisluhefð í kringum þig?

„Já klárlega, þegar einhver giftir sig þá gæsum við. Þetta er svo skemmtilegt!“

Milla Ósk og Einar ætla að ganga í hjónaband í byrjun ágúst. Hún segir að kórónuveiran hafi sett brúðkaupsplön þeirra í mikið uppnám. 

„Við ætluðum að gifta okkur á Spáni í haust og vorum búin að skipuleggja það brúðkaup í meira en ár – með tilheyrandi kostnaði. Það var því mikill skellur þegar COVID-19 kom og allt í einu var engin stemning fyrir því að fara með 150 manns í partý til Spánar. En það jafnast ekkert á við íslenskt sveitabrúðkaup og allt í einu líður okkur eins og við séum að plana brúðkaupið sem átti alltaf að verða.“

Hvernig gengur brúðkaupsundirbúningur?  

„Undirbúningurinn gengur eiginlega ótrúlega vel. Við byrjuðum að skipuleggja þetta brúðkaup í apríl og fundum fljótt fallegan stað fyrir brúðkaupið, Hótel Varmaland. Þar eru allir tilbúnir að hjálpa og finna góðar lausnir. Yndislegu brúðkaupsskipuleggjendurnir hjá Pink Iceland hafa líka reynst okkur ótrúlega vel, bæði við skipulagningu en líka við að halda góða skapinu í miðju COVID.“

Það er nauðsynlegt að syngja svolítið í gæsapartíum.
Það er nauðsynlegt að syngja svolítið í gæsapartíum.
Hér er Milla Ósk ásamt vinkonum sínum í siglingu.
Hér er Milla Ósk ásamt vinkonum sínum í siglingu.
Milla Ósk kann vel við sig á sjónum.
Milla Ósk kann vel við sig á sjónum.
Hér er Milla Ósk að dansa Bollywood í Kramhúsinu.
Hér er Milla Ósk að dansa Bollywood í Kramhúsinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál