Missti vinnuna hjá Icelandair og sneri vörn í sókn

Líney Sif Sandholt stofnaði hreingerningarfyrirtæki.
Líney Sif Sandholt stofnaði hreingerningarfyrirtæki. mbl.is/Árni Sæberg

Líney Sif Sandholt er nýorðin þrítug og er tveggja barna móðir í Garðabænum. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur í byrjun árs en frá árinu 2013 hafði hún verið flugfreyja hjá Icelandair. Í apríl stofnaði hún hreingerningarfyrirtækið LS þrif og segir hún að það komi sér vel núna eftir að hún missti vinnuna hjá flugfélaginu. Það var áfall fyrir Líneyju að missa vinnuna en hún ákvað þó að snúa vörn í sókn og gera gott úr hlutunum. 

„Ég hef starfað sem flugfreyja hjá Icelandair síðan árið 2013 og líkaði það mjög vel. Icelandair var góður vinnuveitandi og starfsfélagarnir frábærir. Síðustu ár hef ég svo boðið upp á flutningsþrif með mjög góðum árangri,“ segir Líney. 

Líney Sif Sandholt ákvað að stofna fyrirtæki til að hafa …
Líney Sif Sandholt ákvað að stofna fyrirtæki til að hafa meiri tekjur.

Var mikið áfall að missa vinnuna hjá Icelandair?

„Það var talsvert áfall, þó var ég búin að gera mér grein fyrir því í hvað stefndi og má því segja að ég hafi verið búin að brynja mig aðeins og búa mig undir það versta,“ segir hún.  

Hún segist hafa kunnað vel við sig í flugfreyjustarfinu því það sé frábrugðið öðrum störfum og engir tveir vinnudagur eins þótt rútínan og reglurnar séu alltaf þær sömu. 

„Við erum þjálfuð í að takast á við allt mögulegt og ómögulegt sem upp getur komið um borð. Ég held að við öll sem vinnum eða unnum við þetta getum sagt að við höfum lent í ýmsum ævintýrum ef svo má segja. Það sem skiptir mestu máli er að sjálfsögðu öryggi farþeganna um borð og erum við þjálfuð til þess að takast á við atvik sem geta komið upp og þá að bregðast hratt og fumlaust við aðstæðum, hvort sem það eru líkamleg eða andleg veikindi, slys eða bara farþegar sem eiga slæman dag.“

Hvers saknar þú mest úr flugfreyjustarfinu?

„Ég sakna þess að mæta til vinnu með tilhlökkun að hitta allt frábæra samstarfsfólkið mitt. Ég hef oft furðað mig á því hvernig það sé hægt á svona stórum vinnustað að ná svona góðum tengslum. Ég man ekki eftir að hafa mætt til vinnu og ekki hugsað eftir langa vakt: „Vá, hvað það var gaman í dag!“ Það eru forréttindi og ég vona innilega að ég fái að upplifa það aftur.“

Fyrir þremur árum ákvað Líney að stofna hreingerningarfyrirtæki. Hún segir að það hafi gerst því hana hafi alltaf dreymt um að eiga fyrirtæki og vinna að eigin rekstri.  

„Eftir að ég átti fyrsta barnið mitt sá ég fljótt að flugfreyjustarfið er ekki mjög fjölskylduvænt starf. Ég byrjaði að taka að mér flutnings- og nýbyggingarþrif, sem var fljótt að vinda upp á sig og var eftirspurn eftir slíkri þjónustu mun meiri en mér hafði dottið í hug. Mikil eftirspurn var eftir aðila með reynslu sem tæki að sér þrif fyrir afhendingu á eignum og nýbyggingum. Eftir að hafa þurft að hafna góðum tilboðum sá ég fljótt að þarna væri vettvangur fyrir slíkt fyrirtæki.“

Hvers vegna þrifafyrirtæki?

„Það var bara algjör tilviljun og „gerðist óvart“ eftir að ég tók að mér þessi flutnings- og nýbyggingarþrif. Það gekk vel, viðskiptavinir voru ánægðir og eftirspurnin var mikil.

Markmið okkar er að byggja upp sterk langtímasambönd með öllum okkar viðskiptavinum sem alltaf er hægt að treysta á og leita til ef eitthvað kemur upp á eða þarf að gera betur. Það virðist vera nóg af fyrirtækjum að taka að sér þrif en ekki mörg sem gera það með þarfir viðskiptavina í fyrsta sæti og langar mig að breyta því. Við höfum fengið að upplifa það síðustu mánuði að hreinlæti skiptir rosalega miklu máli og að það sé gert vel. Við viljum því halda áfram að taka þrifin á hærra plan og gera það með eldmóði og metnaði alltaf.“

Hvernig eru dagarnir hjá þér?

„Dagarnir hjá mér fara helst í það að koma fyrirtækinu mínu, LS þrifum, á framfæri og taka við pöntunum og gera tilboð. Ég lét stóra drauminn rætast og stofnaði félag undir reksturinn þegar ég missti vinnuna hjá Icelandair. Því er mikil pressa að láta allt ganga upp. Þangað til hafði ég unnið sem verktaki. Ég lærði af foreldrum mínum að tækifærin koma ekki upp í hendurnar á manni og maður þarf að sækja sjálfur verkefni og vinnu. Því snúast dagar mínir helst um að nýta öll þau tengsl og góða orðsporið sem við höfum fengið fyrir þau þrif sem við höfum unnið í dag, til þess að láta fyrirtækið vaxa og dafna. 

Nú í dag hef ég þrifið ótal eignir og er með mikla reynslu á þessu sviði og legg gríðarlega áherslu á gæði og finn frá viðskiptavinum mínum að það léttir undir að þurfa ekki að hugsa út í að þrífa á sama tíma og flutningar standa yfir. Það veitir mér mikla gleði að sjá gleðina í augunum á viðskiptavinum þegar við skilum af okkur hreinum og fínum eignum.“

Hvert er besta þrifaráð allra tíma?

„Gott hlaðvarp og airpods í eyrun og þá eru allir vegir færir eða svona næstum. Það sem ég hef lært í þessum bransa er að vera með fá en góð efni og það sem ég nota kaupi ég hjá heildversluninni Garra og mæli hiklaust með að skoða hvað þeir hafa upp á að bjóða, hvort sem það er fyrir fyrirtæki eða einstaklinga. Með því að eiga viðskipti við þá sparaði ég ekki bara peninga heldur líka tíma því þeir bjóða einnig upp á frábærar skúringamoppur og fleira sniðugt sem auðveldar alla vinnu í kringum hreingerningar.“

mbl.is