Agnes og Bibbi keyrðu norður, giftu sig og keyrðu heim

Agnes Grímsdóttir förðunarfræðingur og Snæbjörn Ragnarsson eða Bibbi eins og hann er kallaður, rokkstjarna í Skálmöld og Ljótu hálfvitunum og hlaðvarpskóngur, gengu í hjónaband 9. september. Upphaflega ætluðu þau að gifta sig í ágúst og voru búin að skipuleggja risaveislu. Þegar allt kom til alls gátu þau ekki haldið í sér, brunuðu norður í land, gengu í hjónaband, borðuðu og keyrðu aftur heim. 

„Við ætluðum að gifta okkur í ágúst en svo tók Covid í taumana. Þegar maður er búinn að ákveða að gifta sig er pínu erfitt að fresta því. Okkur langaði að vera gift! Þannig að við ákváðum að rumpa helstu formsatriðum af og gera það á dagsetningunni 09092020 í stað 08082020 eins og til stóð. Ekkert flúr, bara inn-út-aðgerð. Svo ætlum við að taka smá afslöppun á næstu vikum, langa helgi eða viku eða eitthvað – bara við tvö. Svo höldum við veisluna næsta sumar ef veröldin verður orðin eðlilegri. Það verður að vera partí,“ segir Snæbjörn aðspurður um brúðkaupið. 

Hvernig var dagurinn?

„Hann var glórulaus. Við vöknuðum, skutluðum krökkunum í leikskólann, sóttum mömmu mína og keyrðum norður í Eyjafjörð. Þar tók við okkur séra Oddur Bjarni sem er með mér í Ljótu hálfvitunum og er prestur á Möðruvöllum í Hörgárdal. Svo skiptum við um föt bara eins og við værum að fara á íþróttaæfingu, stigum inn á kirkjugólfið og hann pússaði allt saman á sirka fjórum mínútum. Við Agnes, presturinn og fimm aðrir viðstaddir. Svo keyrðum við til Akureyrar og fórum út að borða, keyrðum til baka með pissustoppi í Varmahlíð og vorum komin heim sirka hálfeitt þar sem við leystum barnapíurnar af, bróður Agnesar og konuna hans sem sóttu krakkana á leikskólann, og kláruðum daginn með þeim heima hjá okkur. Svo bara lögðum við okkur og erum bæði mætt í vinnuna. Frábært, en glórulaust. Og eftirminnilegt,“ segir hann hæstánægður með daginn. 


Var þetta sem sagt kirkjubrúðkaup?

„Já. Nefnilega. Hvorugt okkar er trúað og hvorugt okkar í þjóðkirkjunni – og í raun og veru er ég alls ekki ánægður með þá stofnun. En þegar að því kom að ákveða hver ætti að gefa okkur saman fundum við það strax að vinskapurinn vegur miklu þyngra en mismunandi hugmyndir um trú og trúfélög. Oddur er einn allra besti vinur okkar sem gerði þetta ennþá innilegra og fallegra. Við vorum búin að betatesta þetta með því að fá hann til að stjórna nafnaveislum barnanna okkar og það gerði hann vitaskuld listavel, sigldi byr beggja, slakaði á helgiboðskapnum og sagði hlutina bara á mannamáli. Væntumþykja, umburðarlyndi, ást og friður. Þessar athafnir voru fullkomlega frábærar og við gátum ekki hugsað okkur að láta einhvern annan gera þetta.

Mér fannst þetta líka mikilvægt spor fyrir sjálfan mig. Það er svolítil hræsni að tala illa til ákveðins hóps og heimta breytingar og umburðarlyndi þegar maður neitar svo að taka skrefið á móti. Ég hugsa nú að Agnes sé ekki svona dramatísk í þessu, en mér heiðingjanum fannst það mikilvægt skref að stíga inn á kirkjugólfið til vinar míns sem ég ber alla heimsins virðingu fyrir og leyfa honum að stjórna athöfninni. Við gerðum þetta reyndar bara á gólfinu, ekki uppi við altarið, og hann nefndi guð sinn sennilega talsvert sjaldnar en hann er vanur, en þetta var samt allt á hans forsendum. Við vorum gestir hjá honum og hann var þarna til að gleðja okkur.

Ég hugsa hreinlega að þetta verði vegvísir fyrir mig í gegnum lífið. Hættum nú að rífast og slást og áttum okkur á því að við getum öll orðið sammála þótt við notum ekki sömu aðferðafræði. Ég og Oddur Bjarni þurfum ekkert að hugsa eins. Við þurfum bara að drullast til að vera góðar manneskjur og bera virðingu fyrir fólki sem er ekki eins og við.“

Var brúðkaup búið að vera á planinu lengi?

„Við erum búin að vita ansi lengi að við ætlum að vera saman út í hið óendanlega. Við fórum nú samt aldrei almennilega að tala um brúðkaup fyrr en börnin komu í heiminn. Núna eru þau orðin fimm og þriggja ára. Upphaflega var planið að giftast 2019 en síðan frestuðum við því til 2020. Og núna frestum við veislunni til 2021.“

Hvers vegna skiptir máli að vera í hjónabandi?

„Góð spurning. Auðvitað eru praktískir hlutir sem komast í lag með þessu móti, en ég finn að þetta skiptir mig miklu. Mér finnst svolítið eins og okkur hafi tekist eitthvað. Að við höfum búið til fjölskyldu og samband sem er fullt af ást og gleði og erfiðleikum og ákveðni í að gera gott og líða vel og að þetta sé svona innsigli á þetta. Sjáðu Agnes – þetta tókst hjá okkur!“

Hvað eruð þið Agnes búin að vera lengi saman?

„Tíu ár sirka. Byrjuðum saman á Kofa Tómasar frænda á haustmánuðum 2010 en þá vorum við nú búin að vera að hnoðast hvort í öðru ansi lengi. Hún reyndar mundi ekki eftir því að við hefðum innsiglað þetta þegar hún vaknaði daginn eftir. Ég hefði sem sagt getað beilað á planinu. En það er mikilvægt að spyrja. „Viltu byrja með mér?“ Annars getur allt farið til fjandans.“

Hvað var það við Agnesi sem þú féllst fyrir?

„Agnes er ótrúleg manneskja. Brosið, augun og brjóstin soguðu mig inn (og gera reyndar enn) og eftir það mætti mér einhver lífsgleði sem erfitt er að útskýra. Ekki svona skoppandi kæruleysisgleði heldur ákafi og hamingja þrátt fyrir að lífið hafi ekkert endilega verið fullkomið. Og svo gátum við spjallað endalaust saman, og gerum enn – alla daga. Eins og þetta væri ekki nóg er hún síðan ótrúlega umhyggjusöm, elskandi og góð í að hafa allt fallegt og þægilegt í kringum sig. Allt í einu varð heimilið alger þungamiðja minnar tilveru, mannsins sem hafði alltaf verið til í að sofa bara á dýnu á gólfinu og hlaupa ábyrgðarlaust um allt.“

Hvernig hafa fyrstu dagarnir í hjónabandinu verið?

„Nákvæmlega núna eru sirka 18 tímar síðan við giftum okkur svo það er nú ekki komin mikil reynsla á þetta. Ég mætti bara í vinnuna á Pipar\TBWA í sparifötunum og var fagnað eins og ég hefði unnið heimsmeistaratitil. Confetti og allar græjur. Besti vinnustaður í heimi, það er bara þannig.“

Nú er hlaðvarpið þitt að slá í gegn, hver er sagan á bak við það? Hefur þú alltaf haft áhuga á að tala við fólk og fá sögur? Hvert stefnir þú með það?

„Sagan á bak við Hljóðkirkjuna er sú að við Baldur bróðir byrjuðum mjög snemma að hlusta á hlaðvarp og töluðum oft um að fara af stað með okkar eigið. Þegar hann var svo búinn að koma sér upp hljóðveri lét hann vaða á að byrja með þáttinn Dómsdag sem núna er kominn yfir 100 þætti. Það gekk vel svo ég kom með hugmyndina að Bestu plötunni þar sem ég og dr. Arnar Eggert tölum um bestu plötur hljómsveita og listafólks og síðan er liðið slétt ár. Þegar þetta gekk allt svona ljómandi vel fóru hugmyndir að fæðast á færibandi, Baldur hafði lausan tíma til að pródúsera þættina og við létum bara vaða í meiri dagskrárgerð. Hann og Flosi í HAM með Drauga fortíðar og ég með Snæbjörn talar við fólk. Og nú er allt að springa í höndunum á okkur, Kokkaflakk er fimmti þáttur á dagskrá og sennilega fleira væntanlegt. Ég veit ekki hvar þetta endar, en þetta gengur helvíti vel.

Mér hefur alltaf fundist gaman að tala við fólk en aldrei hugsað það svona, að vera með þátt eða eitthvað slíkt. Síðan hálfpartinn lenti ég í því hlutverki þegar Heimsókn í horn Hljóðfærahússins tók breytingum, en það er mánaðarlegur þáttur sem við sendum út beint á facebooksíðu Hljóðfærahússins, hljóð og mynd. Þar vantaði einhvern til að taka viðtöl við tónlistarfólkið og ég ákvað að láta vaða. Og það var bara svona djöfull gaman sem síðan smitaði yfir í hlaðvarpspælingar okkar bræðra. Það er nú ekkert masterplan í þessu, við bara gerum það sem okkur dettur í hug,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál