Flutti frá Osló til Breiðdalsvíkur vegna veirunnar

Diljá Hrafnkelsdóttir ljósmyndari er flutt heim.
Diljá Hrafnkelsdóttir ljósmyndari er flutt heim.

Diljá Hrafnkelsdóttir ljósmyndari og grafískur hönnuður flutti með fjölskylduna til Íslands vegna ástandsins og hefur nú hreiðrað um sig á Breiðdalsvík. 

Diljá er mikill fagurkeri sem elskar að halda fallegt heimili. Hún og Kristinn Magnússon, unnusti hennar, fluttu til Íslands tímabundið með börnum sínum tveimur, þeim Berki Diljan og Degi Eldberg. Fjölskyldan hefur undanfarin sex ár verið búsett í Ósló í Noregi en ákvað að koma sér fyrir í Breiðdalsvík.

„Við fjölskyldan vorum að festa kaup á húsi í þorpinu sem við ætlum að dunda okkur við að gera upp á meðan við erum hér. Við ætlum í töluverðar framkvæmdir og það á eiginlega hug minn allan þessa dagana. Annars er ég alltaf að brasa eitthvað hönnunartengt og er að vinna í jólakortum núna.“

Diljá og Kristinn eiga tvo syni.
Diljá og Kristinn eiga tvo syni.

Örugg nálægt fjölskyldunni

Diljá ólst upp á Breiðdalsvík og á fjölskyldu þar.

„Á þessum furðulega tíma er gott að geta komið heim í öryggið og nálægðina við ættingja á meðan heimurinn er eins og hann er.“

Hvað þýða jólin fyrir þig? „Ég er gríðarlega mikið jólabarn og hef alla tíð verið enda fædd í jólamánuðinum. Þetta er minn allra mesti uppáhaldstími og við fjölskyldan njótum þess að eyða tíma saman um hátíðirnar og í aðdraganda þeirra. Jólin eru tími fjölskyldunnar og við erum sérstaklega spennt fyrir þeim. Við teljum okkur afar heppin að fá að halda íslensk jól í ár í faðmi fjölskyldunnar. Við höfum verið ein erlendis síðustu sex árin.“

Ertu mikið fyrir að gera fallegt í kringum þig?

„Ég hef lengi haft áhuga á öllu sem tengist heimilinu og elska að hafa fallegt í kringum mig. Ég legg mikið upp úr því að halda heimilinu fallegu og hef smekk fyrir því að blanda saman nýju og eldra. Þegar ég er erlendis hef ég farið mikið á flóamarkaði og safnað að mér skemmtilegum munum inn á heimilið, þar á meðal jólaskrauti.“

Ljósmynd/Diljá

Hvað gerir þú með börnunum á jólunum?

„Við nýtum jólatímann mikið í föndur, piparkökubakstur, útiveru og aðra samveru og reynum að búa til minningar fyrir strákana sem gleðja. Einnig að skapa okkar eigin hefðir með þeim.

Á aðfangadagsmorgun er hefðin sú að allir fá ný náttföt frá sveini nokkrum sem á það til að kíkja á gluggana að næturlagi. Síðan er morgunmaturinn borðaður í myrkrinu við kertaljós. Heitt kakó og ristað brauð með reyktum laxi eða graflaxi og graflaxsósu. Ég gleðst bara við tilhugsunina. Þetta er hefð sem komin er til að vera og allir hlakka mikið til á hverju ári.“

Ljósmynd/Diljá

Hvað er í matinn hjá ykkur yfir jólin?

„Ég er alin upp við rjúpu og lengi kom ekkert annað til greina en að hafa þær í matinn á aðfangadagskvöld. Enda má segja að jólin hafi ekki verið komin á mínu heimili fyrr en rjúpnalyktin barst úr eldhúsinu. Þegar ég kynntist manninum mínum þurftum við að breyta til þar sem hann er vanur því að fá hamborgarhrygg. Á meðan börnin eru lítil finnst okkur þægilegast að hafa hangikjötið á aðfangadag því það er minnsta umstangið. Hér áður hafði maður varla tíma til að klæða sig fyrir matinn og var ég dauðþreytt eftir að hafa staðið í eldamennsku allan daginn. Nú er hangikjötinu bara hent í pott og látið malla þar, allir eru sáttir og geta notið dagsins saman í rólegheitum. Maður má nefnilega ekki gleyma að njóta jólanna líka. Það má svo alltaf breyta aftur til þegar börnin eru orðin eldri. Snickers-ísinn hennar mömmu er svo alltaf í eftirrétt.“

Ljósmynd/Diljá

Leggur þú mikið upp úr gjöfunum?

„Nei, ég get ekki sagt það. Að sjálfsögðu snúast jólin mikið til um gjafirnar fyrir börnin en við reynum að halda öllu í hófi þegar kemur að gjöfunum. Við tökum okkur eitt kvöld og pökkum þeim inn. Opnum Nóa-konfektkassa og gæðum okkur á malti og appelsíni, sem er algjör munaðarvara fyrir okkur sem búum erlendis.“

Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Ljósmynd/Diljá
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál