Festa markmiðin á rakettu og skjóta þeim upp

Kristbjörg Kona bindur vonir við að árið 2021 verði gott …
Kristbjörg Kona bindur vonir við að árið 2021 verði gott ár.

Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir markaðs- og kynningarstjóri Norræna hússins er tveggja barna móðir úr Kópavoginum og er gift Valdimari Ólafssyni leikmyndasmiði hjá Ríkisútvarpinu. Hún segir fjölskylduna skipta mestu máli og að árið 2020 hafi kennt sér ýmislegt þótt hún sé mjög sátt við að árið sé senn að enda. 

„Það er ekki margt í gangi hjá okkur núna. Við fjölskyldan erum í slökun, borðum góðan mat og lesum bækur. Við spilum mikið við krakkana og elskum að spila alls kyns borðspil og tefla. Undanfarið höfum við verið að spila Fuglafár og notast við Birdsongs-bókina sem fæst í Eymundsson. Með henni bætum við hljóðum fuglsins og keppumst um að giska á hvaða fugl þetta er út frá söngnum þeirra. 

Svo nýt ég þess í botn að hafa tíma til að hanga með manninum mínum, horfa á góðar myndir, spjalla um daginn og veginn og elda saman góðan mat. Hann sér aðallega um að elda og gerir það af svo mikilli snilld að það besta sem ég get gert er að skera niður hráefnið og stjórna tónlistinni.   

Þegar við hófum sambúð var það ég sem sá nær eingöngu um að elda og ég er ekkert lélegur kokkur þótt ég segi sjálf frá. En eftir að við eignuðumst börnin okkar og hann fór í feðraorlof fékk hann einfaldlega ást á því að elda og ég hef notið þess allar götur síðan.“   

Hvaða bók ertu að lesa? 

„Ég fékk Bráðina eftir Yrsu í jólagjöf og er síðan á jóladag búin að þróa með mér myrkfælni á háu stigi. Þetta er fyrsta glæpasagan sem ég hef lesið og hún er bara fantagóð afþreying.“

Kristbjörg Kona og Sólrún á Laugarveginum í sumar.
Kristbjörg Kona og Sólrún á Laugarveginum í sumar.

Urðu fjallapar í kórónuveirunni

Kristbjörg Kona er með mjög blendnar tilfinningar varðandi árið og er í sannleika sagt mjög ánægð með að því sé að ljúka.  

„Ég tel samt að það muni taka okkur lungann úr næsta ári að öðlast eðlilegt líf aftur. Sumarið var reyndar mjög gott þrátt fyrir að við kæmumst ekki í utanlandsferðina okkar. Við gengum mikið upp á fjöll og gengum Laugaveginn með skemmtilegum hópi af fólki.  

Við höfum aldrei verið fjallgöngugarpar og í raun aldrei stundað fjallgöngur burtséð frá nokkrum vinkonuferðum sem ég hef verið dregin með í. Í ár fengum við loksins áhugann og ég er mjög þakklát fyrir það. Í sumar nutum við þess svo að ferðast um ferðamannalaust landið okkar og prufuðum meðal annars Glamping, fórum oft í Bláa lónið sem börnunum fannst alveg stórkostlegt. Á sama tíma og ég finn mikið til með fólki í ferðamannaiðnaðinum þá get ég ekki neitað því hversu einstakt það var að fá að ferðast um og skoðað landið í ró og næði án allrar mannmergðar.“  

Hvaða óskir ertu með fyrir nýja árið?  

„Ég hef einföld og skýr plön fyrir nýja árið. Ég vil gera meira af því sem virkar og losa mig við það sem virkar ekki. Ég vil vera innan um fólk sem veitir mér innblástur og ég ætla að taka ábyrgð á því að gera það sem veitir mér ánægju og aukna lífsgleði. Hvernig ég fer að því að uppfylla þetta verður bara að koma í ljós. Ég er með nokkur járn í eldinum og er spennt fyrir framhaldinu.“    

Hver hefur helsti lærdómur verið á þessum skrítnu tímum að þínu mati?  

„Ég held að við sjáum skýrar hvað það er sem skiptir máli í þessu lífi og að við þurfum að hægja á okkur til að geta notið þess.“ 

Er á því að listin hjálpi fólki að þroskast

Hvað getur list gefið okkur á þessum tíma?   

„Það er góð spurning. Við vitum að list selst mjög vel núna. Kannski vegna þess að fólk hefur meira á milli handanna þegar það fer ekki í sólarlandaferðirnar sínar, eða bara kannski vegna þess að fólk hefur meiri þörf fyrir innblástur. Listin hjálpar okkur að þroskast og sjá út fyrir kassann. Listin minnir okkur á að ekkert er heilagt og ímyndunaraflið er óendanlegt. Það er allt mjög nærandi, gefandi og tímalaust.“  

Er eitthvað sem fólk getur gert sér til dundurs og yndisauka á áramótunum?   

„Áramótin eru tilvalinn tími til að vera skapandi og bralla eitthvað skemmtilegt með fjölskyldu og vinum. Við höfum sem dæmi ákveðið að útbúa litla heimatilbúna athöfn og skjóta upp óskum fjölskyldunnar um næsta ár með rakettum. Mæli með því að fólk leiki sér og kveðji árið með einni slíkri. Það þarf ekki að vera flókið.

Að velja til dæmis einn eða tvo hluti sem við viljum vera án, skrifa það á blað og kveikja í blaðinu. Setja sér markmið fyrir næsta ár og velja sér eitthvað nýtt  sem þú vilt hafa þér til fyrirmyndar. Binda blaðið við rakettu og skjóta upp.“   

Kristbjörg Kona og Sólrún dóttir hennar fyrir framan Norræna húsið.
Kristbjörg Kona og Sólrún dóttir hennar fyrir framan Norræna húsið.

Finnst eitthvað sérstakt við að skapa með fólkinu sínu

Hvað ætlarðu að gera sjálf þessi áramót? 

„Við verðum með í jólakúlunni heima hjá systur minni og hennar fjölskyldu ásamt mömmu og pabba. Við höfum verið þar undanfarin ár og þar er dásamlegt að vera. Alltaf góður matur og frábær félagsskapur. Við dundum okkur við að elda saman, leika við börnin og horfum að sjálfsögðu á áramótaskaupið.“ 

Hvað verður í matinn og muntu klæða þig upp á?  

„Við ætlum að elda hreindýr og drekka vel valin náttúruvín. Ég er ekki búin að ákveða hverju ég ætla að klæðast en mér finnst líklegt að ég verði í Roucha-samfestingnum sem fjölskyldan gaf mér í afmælisgjöf fyrir tveimur árum. Það er sennilega sú besta flík sem ég hef eignast. Efnið er silkimjúkt og fellur svo fallega að líkamanum, svo er hann einstaklega klæðilegur og sparilegur.“   

Hver verða verkefnin á nýju ári?  

„Að gera bara það sem skiptir mig máli, ræktar mig og þroskar. Árið 2020 hefur sýnt mér að það er mikilvægt að hugsa vel um sig og sína. Mig langar líka að finna mér áhugamál með strákunum mínum. Við mæðgur byrjuðum nýlega á því að hnýta macramé sem er æðislega skemmtileg handavinna. Þá er rólegt yfir okkur og það gefur okkur góðan tíma til að spjalla saman í leiðinni. Það gerast alltaf einhverjir töfrar þegar þú skapar með þeim sem þér þykir vænst um.“

mbl.is