„Ef maður á flotta kápu er auðvelt að breiða yfir aðrar tískusyndir“

Sif Sigmarsdóttir klæðist hér einstakri kápu frá Ted Baker sem …
Sif Sigmarsdóttir klæðist hér einstakri kápu frá Ted Baker sem keypt var í Lundúnum þar sem hún býr og starfar.

Sif Sigmarsdóttir rithöfundur býr í Lundúnum ásamt manni sínum og þremur börnum. Hún segir að morgunrútína hennar sé oft eins og þegar jörðin varð til á sínum tíma - svo mikið gengur á að koma öllum út úr húsi. 

 Hver er þín morgunrútína?

„Rétt eins og veröldin hófst með Miklahvelli hefst dagurinn hjá mér með miklum hvelli. Við erum fimm í heimili, þar af eru þrjú börn á aldrinum eins til átta, sem búa yfir jafnmikilli orku og alheimurinn við upphaf sitt. Á slaginu sjö losnar um alla orkuna og dagurinn þenst út með glundroða. Öreindir, frumeindir, bananabitar og ósamstæðir sokkar fljúga í allar áttir. Skríkjandi börn þjóta um stofuna sem fyllist af leikföngum á svo miklum hraða að ætla mætti að kraftur þyngdaraflsins væri að verki.

Tíminn varð til við Miklahvell og er morgunrútína mín kapphlaup við klukkuna. Ég stend yfir eldri börnunum eins og liðsforingi í hernum og skipa þeim að borða Weetabixið sitt hraðar á meðan sá yngsti snýr sig glottandi úr barnastólnum eins og Harry Houdini.

Að koma börnunum í skólabúninginn er eins og að troða kolkrabba í sokkabuxur. Klósett, bursta. Við útidyrahurðina tekur við skó-útgáfan af „Hvar er Valli“? Skóringulreiðin er slík að ætla mætti að á heimilinu byggju fimm áttfættir kolkrabbar en ekki tvífætlingar.

Morgunleikfimi mín er að hlaupa með krakkana í skólann hrópandi „good morning“ til allra foreldranna sem streyma á móti mér því ég er svo sein. Við mætum samt alltaf rétt í tæka tíð og höfum aldrei fengið seint í kladdann – því eins og allir Íslendingar vita: Þetta reddast.

Klukkan níu færist röð og regla yfir alheiminn. Ég sest niður við tölvuna með tveggja lítra kaffibolla með köldu kaffi og byrja að vinna,“ segir Sif. 

Borðar þú morgunmat?

„Ég er mikill mathákur og elska að borða góðan mat en ég er lítið fyrir morgunmat. Helst vildi ég fara beint í kaffið þegar ég vakna en ég fæ mér hálfan banana til málamynda.“

Hver er besta kaka sem þú hefur smakkað?

„Ég elska kökur og eftirrétti. Þessi spurning er dálítið eins og að þurfa að gera upp á milli barnanna sinna. Rétt hjá þar sem ég bý í London er franskt „patisserie“ sem heitir Belle Epoque og selur kökur sem líta út eins og listaverk. Ég fæ ekki nóg af þeim.

Ég er orðin líkamlega háð vörum frá bakaríi í „hipstera“-hverfinu Dalston. Bakaríið heitir Dusty Knuckle og er því ætlað að gefa ungum afbrotamönnum tækifæri til að fóta sig á ný í lífinu. Þar er hægt að kaupa óskilgetið afkvæmi kanilsnúðs og croissants og er niðurstaðan himnesk. Ekkert toppar þó klassískt íslenskt kökuhlaðborð.“

Á hvaða tónlist hlustar þú á á laugardagskvöldi?

„Á laugardagskvöldi hlusta ég á Beethoven og Nirvana og allt þar á milli. Ég nota tónlist mikið til að koma mér í rétta gírinn þegar ég er að skrifa. Á Spotify má nálgast „playlista“ yfir tónlistina sem var innblástur að nýjustu bókinni minni sem var að koma út, Banvæn snjókorn. Listann má finna undir heitinu „The Sharp Edge of a Snowflake“ sem er enski titill bókarinnar en bókin kom fyrst út í Bretlandi. Á listanum eru meðal annarra Björk, Bach og Kate Bush.

Næstkomandi laugardagskvöld mun glymja í hátölurunum heima hjá mér plata Tori Amos Ocean to Ocean sem var að koma út. Amos samdi tónlist plötunnar í miðjum kórónavírus-faraldrinum. Hún var þá stödd í Cornwall en hálfgert útgöngubann ríkti í Bretlandi. Platan fjallar um missi og hvernig má takast á við hann.“

Hvað er lúxus í þínum huga?

„Vinnugalli rithöfunda er oft mjög hversdagslegur. Í mínu tilfelli er hann joggingbuxur sem eru eldri en elsta barnið mitt og sá bómullarbolur sem er þakinn fæstum matarslettum hverju sinni. Í mínum huga er lúxus að klæða mig upp í kjól og fara á huggulegan veitingastað og borða máltíð sem hefst á glasi af kampavíni (eða crémant – ég er jú rithöfundur en ekki verðbréfamiðlari), aðalrétturinn lítur út eins og skúlptúr og eftirrétturinn inniheldur súkkulaði.“

Ef þú þyrftir að bjarga einni flík úr eldsvoða, hver yrði fyrir valinu?

„Ég er mikill kápufíkill. Ég veit ekki hversu oft mamma mín hefur sagt við mig: „Nei, Sif, ekki segja mér að þú sért búin að kaupa aðra kápu.“

Mér finnst gaman að klæðast litum – hversdagsleikinn er alveg nógu grár – og ég er hrifin af versluninni Ted Baker þar sem litagleðin ræður ríkjum. Fyrir mörgum árum keypti ég þar kóngabláa, hnésíða ullarkápu með belti. Hún er enn í miklu uppáhaldi og ef ég ætti að bjarga einni flík úr eldsvoða yrði bláa Ted Baker kápan hiklaust fyrir valinu.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Ég trúi ekki á ráð. Ég held að við þurfum einfaldlega öll að fá tækifæri til að gera okkar eigin mistök og læra af þeim.“

Hvert sækir þú innblástur þegar kemur að tísku?

„Ég bý í London. Fyrir mér eru götur borgarinnar flottasta tískusýningin. Hér er fólk svo fjölbreytt í útliti og klæðnaði. Við erum oft að reyna að tjá okkur með yfirborðinu. Yfirborðið segir svo margt, það ber vitni um mismunandi gildi, skoðanir og bakgrunn.

Og talandi um yfirborðið. Þá komum við kannski aftur að kápunum og kápuþráhyggju minni. Kápur eru sjónræn blekking. Ef maður á flotta kápu er auðvelt að breiða yfir aðrar tískusyndir. Þegar maður klæðir sig í flotta kápu er maður allt í einu orðinn fínn jafnvel þótt maður sé kannski bara í náttbol með kaffibletti og barnaælu undir.

Það má kannski segja að þessi áhersla mín í klæðaburði kallist á við hvernig ég vil hafa söguþráð í bókum: Ekki er allt sem sýnist undir gljáfægðu yfirborði. En það er einmitt þemað í nýjustu bókinni minni, Banvæn snjókorn.“

Hvert er besta tískuráð allra tíma?

„Besta tískuráð allra tíma á rithöfundurinn Oscar Wilde. „Tíska er tegund svo óbærilegs ljótleika að henni verður að breyta á sex mánaða fresti.“ Ég held að öllum sé hollt að koma sér upp eigin stíl og losna þannig úr viðjum tískuhringrásarinnar. Það er gott fyrir pyngjuna og sérstaklega gott fyrir umhverfið og jörðina. Hraðtíska er plága.“

Hvað getur fólk gert til að breyta heiminum?

„Gera kröfur til stjórnvalda.“

Hvaða snyrtivöru getur þú ekki lifað án?

„Kanebo púðrið mitt (sem nú heitir reyndar Sensai). Ég hef notað sömu tegund af púðri frá því að ég fór fyrst að mála mig og nota það enn. Kanebo púður og góð kápa; það er skotheld uppskrift að gljáfægðu yfirborði sem hylur hvaða sótsvarta veruleika sem er, hvort sem um ræðir matarslettur, andvökunætur eða kaótíska morgunrútínu.“

Nýjasta bók Sifjar, Banvæn snjókorn, kom út á dögunum.
Nýjasta bók Sifjar, Banvæn snjókorn, kom út á dögunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál