Ætlar að vera í aðhaldi á jólunum

Brynjar þór Níelsson er kominn í jólaskap.
Brynjar þór Níelsson er kominn í jólaskap. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólablað Morgunblaðsins kom út í morgun. Blaðið er einstaklega þykkt og veglegt, heilar 128 blaðsíður og hefur að geyma áhugverð viðtöl við fólk. Forsíðuna prýðir Brynjar Þór Níelsson fráfarandi þingmaður. Hann er kominn í mikið jólaskap en þessa dagana er hann þó á fullu í ræktinni.  Enda maður sem lækkar ekki rána til að falla inn í hópinn. Hann stefnir á toppinn í ræktinni þótt æfingafélagarnir séu ekki enn þá farnir að líta á hann sem samkeppni við sig. 

Fúllyndir menn eru ekki miklir jólakarlar að mati Brynjars Þórs Níelssonar vaxtarræktarmanns með meiru.

„Mér finnst þó gaman að ganga á milli veitingastaða á aðventunni og hlusta á guðsorð og boðskap Jesú á jólunum. Þá næ ég sæmilegu jafnvægi í sálinni.“

Brynjar hefur vakið athygli að undanförnu fyrir átak sitt í ræktinni.

„Jú, það er rétt að það má hvað úr hverju kalla mig vaxtarræktartröll. Ég stefni á að taka þátt í Íslandsmótinu í fitness og síðan keppa í Sterkasta manni heims næsta sumar. Því mun ég ekki slá slöku við um jólin og æfa upp á hvern dag.

Í kringum svona heilsuátak er gjörbreytt mataræði. Ég hef að vísu ekki smakkað áfengi eftir rafskútuslysið fræga og reikna ekki með að ég drekki áfengi í framtíðinni. Nú borða ég bara hollan mat og prótínríkan með dassi af sterum.“

Hvað borða menn, sem stefna á toppinn í heilsurækt, á jólunum?

„Jólamaturinn hjá mér verður þetta árið sex egg með fæðubótardrykkjum. Ég er ekki vanafastur á jólunum en það sem ég geri alltaf er að gefa gjafir og það sem ég geri aldrei er að gefa réttu gjafirnar. Annað er breytilegt.“

Kanntu góða jólasögu af þér sem þú ert til í að segja okkur?

„Þar sem ég er haldinn alvarlegum athyglisbresti man ég ekki sögur, hvorki í nútíð né fortíð. Eina sögu man ég þó, sennilega vegna þess að ég hef aldrei orðið eins hræddur á ævinni og þá. Ég trúði á tilvist jólasveinsins fram á grunnskólaaldur en var alltaf skíthræddur við hann, og enn hræddari við foreldra hans. Svo var það eitt sinn í jólaveislu á heimilinu að ég og frændi minn vildum fara út að leika okkur. Það var nefnilega svo gott að renna sér á blankskóm á svellinu efst í Barmahlíðinni. Móðir mín vildi ekki að fimm ára drengir væru úti í myrkrinu seint um kvöld og sagði að jólasveinninn tæki okkur ef við færum út. Við létum ekki segjast og fórum út. Þar sem við renndum okkur á svellinu birtist skyndilega jólasveinninn sem gekk upp götuna á móti okkur. Greip um sig slík hræðsla að við náðum að snúa við á miðju svellinu og reykspóla upp götuna á nýju Íslandsmeti barna í spretthlaupi. Slíkur var hraðinn að hann sést eingöngu í teiknimyndum. Við hlupum síðan niður Mávahlíðina og ætluðum að laumast bakdyramegin heim. Tók ekki betra við en að við mættum jólasveininum lafmóðir aftur á næsta horni. Við lyppuðumst niður og sáum sæng okkar upp reidda. Nú myndi Grýla búa til súpu úr okkur. Jólasveinninn reyndist hins vegar hinn besti maður og spurði hvort við vissum hvar Stefán og Guðrún byggju í götunni. Við löbbuðum þá rólegir heim þótt buxurnar væru blautar og frost úti.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Upplifir spennu í kringum sig í ræktinni

Hvernig er andrúmsloftið í ræktinni. Óttast karlarnir samkeppni frá þér?

„Það er mjög skrítið andrúmsloft í kringum mig í ræktinni. Ég upplifi það ekki vegna þess að það sé samkeppni milli karla eða að aðrir karlar óttist keppni við mig. Miklu frekar að menn séu hissa á að sjá mig og finnist að ég eigi ekki mikið erindi þarna. Svo getur hollningin á mér eitthvað truflað aðra gesti. Það þykir víst hallærislegt þegar menn mæta í svörtum sokkum í ræktina og í bol og buxum frá áttunda áratug síðustu aldar.“

Hvað með menningarlega viðburði á jólunum. Ertu spenntur fyrir þeim?

„Ég fer aldrei á tónleika, í leikhús eða á aðra viðburði ótilneyddur, hvorki á jólum né öðrum tíma. Konan hefur lítinn áhuga á að hafa mig hrjótandi innan um annað fólk. Ég fer þó í kirkju öðru hvoru. Mér finnst gott að heyra góða predikun og hlusta á fallega sálma. Annars er ég bara heima í rólegheitum.“

Hvað gerir þú til að gleðja ástina á jólunum?

„Ég er vel kvæntur og hitti sennilega á einu konuna sem gæti verið gift mér. Þetta var eins og að vinna í lottóinu, einn á móti hundrað milljónum. Ég hef hins vegar aldrei slegið í gegn með gjöfum og kann því engin ráð fyrir aðra því tengt.“

Það besta á árinu að detta út af þingi

Strengir þú áramótaheit?

„Nei, áramótaheit eru mjög klén, eins og Jón Viðar myndi segja.

Ég vona bara að mér líði jafn vel á næsta ári eins og árin á undan og að einhver hafi áhuga á að fá mig í vinnu.

Ég upplifði margt á árinu en ekkert var dýrmætt. En það besta var sennilega að detta út af þingi og geta verið frjáls maður aftur. Það eina sem er dýrmætt í lífinu eru börnin sem maður á. Þess vegna skil ég aldrei ungt fólk sem keppist um að tilkynna opinberlega að það ætli ekki að eignast börn.“

HÉR getur þú lesið Jólablað Morgunblaðsins! 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »