„Skinka sig upp“ fyrir fæðinguna

Kate Harrison nokkrum mínútum eftir að hafa eignast yngri son …
Kate Harrison nokkrum mínútum eftir að hafa eignast yngri son sinn (t.v.) DailyMail

Nú hafa breskar snyrtistofur sett saman svokallaða „fæðingapakka“ fyrir konur sem eiga von á barni. Snyrtifræðingar segja þessa pakka vinsæla þar sem konur vilja líta sem best út þegar þær eignast börn.

Snyrtifræðingurinn Penny McQue segir snjallsímana líklegast eiga sök á þessari þróun. „Fólk er farið að taka svo mikið af myndum og deila þeim á samskiptamiðlum. Svo eru það frægu mömmurnar, þær láta mynda sig fyrir tímaritin og líta óaðfinnanlega út. Þetta hefur áhrif á venjulegar konur,“ segir McQue í viðtali við DailyMail sem telur að konur finni fyrir miklum þrýstingi til að líta vel út í fæðingunni.

Coleen Rooney, eiginkona fótboltakappans Wayne Rooney, birti mynd af sér á Twitter rétt eftir að hún átti sitt fyrsta barn og leit einstaklega vel út. En það eru ekki aðeins moldríkar og heimsfrægar konur sem sjá til þess að þær líti glæsilega út í fæðingunni heldur eru konur á borð við Kate Harrison líka farnar að huga óeðlilega mikið að útlitinu rétt áður en þær eiga börn.

Kate Harrison er 32 ára heimavinnandi húsmóðir frá Bretlandi. Hún kveðst hafa farið í allsherjar snyrtingu rétt áður en hún átti yngri son sinn fyrir tveimur árum. Harrison er einstaklega stolt af mynd sem var tekin af henni nokkrum mínútum eftir að hafa átti son sinn. Á myndinni má sjá Harrison skælbrosandi og nýkomna úr hárgreiðslu, brúnkumeðferð, litun, plokkun og naglasnyrtingu.

„Ég vissi að ég væri að fara í keisaraskurð á þriðjudegi þannig að ég fór á snyrtistofuna á laugardeginum í dekur. Ég fór í klippingu og litun, brúnkumeðferð, hand- og fótasnyrtingu, vax, litun og plokkun,“ segir Harrison. „Ég var himinlifandi með útkomuna og ég leit vel út á myndunum sem teknar voru af mér eftir að William fæddist.“

Harrison á einn eldri son en hún segist ekki hafa litið eins vel út þegar hún átti hann. „Ég var alveg óundirbúin fyrir þá fæðingu. Ég hafði ekki tækifæri til að plokka á mér augabrúnirnar, hvað þá fara í klippingu. Ég lét ekki taka neinar myndir af mér sex mánuðum eftir að eldri sonur minn fæddist,“ útskýrir Harrison sem kveðst hafa fundið fyrir minnimáttarkennd vegna útlits síns.

Hin 29 ára Heather Greig fór einnig í allsherjar yfirhalningu nokkrum dögum áður en hún átti dóttur sína. Greig gekk svo langt að bera á sig annað lag af brúnkukremi á leiðinni á spítalann en þangað fór hún í hælaskóm.

„Þú færð bara eitt tækifæri til að taka myndir af þér með barninu þegar það er glænýtt. Þetta er eins og að gera sig til fyrir brúðkaup. Sumir segja þetta vera hégóma en ég vildi hafa mig til áður en barnið kom í heiminn svo að ég þyrfti ekki að eyða tíma í að huga að útlitinu eftir að barnið fæddist. Reyndar tók ég sléttujárnið með mér á spítalann svo að ég gæti sléttað yfir hárið á mér rétt eftir fæðinguna.“

Hin 27 ára Jo Swidzinska segir góða útlitið sem hún skartaði í fæðingunni hafa hjálpað henni að slaka á en hún fór í allar þær snyrtimeðferðir sem hugsast getur. „Tilhugsunin um að fá gesti á spítalann þegar ég liti hræðilega út var mér sem martröð,“ segir Swidzinska sem fór meðal annars í augnháralenginu, vax og litun nokkrum dögum fyrir fæðinguna.

„Sem betur fer átti ég dóttur mína um sumar þannig að ég var brún,“ útskýrir Swidzinska sem þurfti ekki að fara í brúnkumeðferð. Swidzinska var ánægð með útkomuna en hún segir ferlið hafa verið erfitt. „Ég lít bara nokkuð vel út á myndum sem voru teknar af mér eftir 12 klukkustunda fæðingu.“


Jo Swidzinska fór m.a. í augnháralengingu fyrir fæðinguna.
Jo Swidzinska fór m.a. í augnháralengingu fyrir fæðinguna. DailyMail
Coleen Rooney, eiginkona fótboltakappans Wayne Rooney.
Coleen Rooney, eiginkona fótboltakappans Wayne Rooney.
mbl.is