Mannúð og heiðarleiki í forgrunni

Helga Ólafsdóttir fatahönnuður hefur náð frábærum árangri í sinni grein.
Helga Ólafsdóttir fatahönnuður hefur náð frábærum árangri í sinni grein. Ljósmynd/Saga Sig

Helga Ólafsdóttir lýsir sér sem sveitastelpu að norðan. „Ég lærði fatahönnun í Kaupmannahöfn og fór síðan í skiptinám til London. Ég starfaði sem hönnuður í kvenfatnaði rúmlega 7 ár á Íslandi, í Kaupmannahöfn og London áður en ég stofnaði iglo+indi sem var stofnað fyrir tæpum 10 árum,“ segir hún.

Hvaða merkingu hefur tískan fyrir þig?

„Tíska er stór partur af mínu lífi bæði sem mitt starf og áhugamál. Tíska er mjög víðtækt hugtak um einn stærsta iðnað í heiminum. En persónulega snýst tíska um fagurfræði, sköpun og tilfinningar að mínu mati,“ segir Helga.

Fallegur fatnaður úr línu iglo+indi.
Fallegur fatnaður úr línu iglo+indi. Ljósmynd/Saga Sig

Endalaus metnaður

Hvað getur þú sagt mér um þitt eigið vörumerki?

„Iglo+indi var stofnað fyrir tæplega 10 árum, nánar tiltekið í vikunni fyrir bankahrunið. Við erum fámennt teymi með endalausan metnað. Við hönnum og framleiðum tvær stórar línur á ári, erum í raun alltaf að vinna með þrjár línur á sama tíma. Alla mánuði ársins er mikið í gangi. Við erum búin að hanna 20 línur og framleiða 19. Hver lína inniheldur um það bil 150 vörur. Framleiðslan okkar fer öll fram í Portúgal og okkar metnaður er að gæðin verði óaðfinnanleg. Við höfum lagt mikla vinnu í að finna rétta framleiðendur sem henta gildum fyrirtækisins. Um er að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfa sig í að framleiða hágæða barnaföt. 80% línunnar eru úr lífrænni bómull. Við erum í daglegu sambandi við þessa aðila ásamt því að við heimsækjum þá nokkrum sinnum á ári,“ segir Helga.

„Í Portúgal er einnig vöruhús iglo+indi en þaðan fara allar vörur sem fara í sölu utan Íslands en í dag fást vörur iglo+indi í yfir 170 verslunum í yfir tuttugu löndum.“

Hvernig koma línurnar til þín hönnunarlega séð?

„Það er ferli sem er alltaf í gangi í hausnum á mér, ég fæ mikinn innblástur frá Íslandi og svo hefur tónlist mikil áhrif á mig. Ég hef aðgang að hönnunarstúdíói í Porto og ég nýti það í byrjun ferlisins, þar er endalaust af efnum og innsýn inn í það sem koma skal í tískunni.

Ég fæ líka mikið af hugmyndum þegar ég ferðast og við að starfa með fólki út um allan heim. Vörur iglo+indi eru seldar í 24 löndum og tvisvar á ári ferðast ég mikið þegar við tökum þátt í sýningum í Evrópu, Ameríku og Asíu.“

Fatnaður fyrir fullorðna

Munum við sjá fatnað fyrir konur eða alla fjölskylduna í framtíðinni?

„Iglo+indi hefur nú þegar selt peysur fyrir börn og fullorðna í stíl. Við gerðum það í samstarfi við UN Women til styrktar konum á flótta. Peysan er fyrir alla, börn, mömmur, pabba, afa, ömmur, frænkur, frændur.“

Helga í samstarfi við UN Women gerði þessar fallegu peysur …
Helga í samstarfi við UN Women gerði þessar fallegu peysur fyrir fullorðna sem og börn. Ljósmynd/úr einkaeign.

Helga segir að í næstu tveimur línum séu 2-3 fullorðinsflíkur. „Margar mæður hafa skorað á okkur í langan tíma að gera fullorðinsflíkur í stíl við barnaflíkurnar.“

Hver er uppáhaldsflíkin í þínum fataskáp?

„Ég á oft eina flík í uppáhaldi, ég geng yfirleitt í þessari uppáhaldsflík stanslaust þangað til ég fæ nóg og þá er eitthvað nýtt sem ég verð hugfangin af.“

Hvað skiptir þig mestu máli þegar kemur að því að velja flík á þig?

„Að hún sé framleidd við mannúðlegar aðstæður og að mér finnist hún töff. Ég reyni að kynna mér mjög vel hvað stendur á bakvið merkin sem ég versla við og kýs frekar að kaupa mér færri og vandaðri hluti. Því miður tengist mjög lágt verð oft óviðunandi aðstæðum þeirra sem koma að framleiðsluferlinu. Ég hef unnið við framleiðslu í 16 ár víðsvegar um heiminn og það er ástæðan fyrir því að allar vörur iglo+indi eru framleiddar í verksmiðjum í Portúgal sem eru í fjölskyldueigu þar sem kjör og aðstæður eru til fyrirmyndar.“

Fallegur fatnaður úr línu iglo+indi.
Fallegur fatnaður úr línu iglo+indi. Ljósmynd/Saga Sig.

Áskorun að búa á lítilli eyju

Hvernig er að stafa á sviði tísku og hönnunar?

„Ég elska að geta starfað við tísku og hönnun en þessu starfi fylgir mikið álag og þrotlaus vinna. Mér finnst ég heppin að geta unnið við tísku og hönnun á Íslandi en selt vörur í yfir 20 löndum. Það er takmarkaður stuðningur við hönnunarfyrirtæki á Íslandi og mjög flókið að vera ekki í Evrópusambandinu og búa á eyju með lítinn heimamarkað.“

Ertu með skýran tilgang í lífinu?

„Tilgangurinn minn í lífinu er að vera góð móðir, njóta þess að vera með vinum og fjölskyldu, ferðast um heiminn og vera hamingjusöm í núinu.“

Hver eru þín uppáhalds vörumerki?

„Danska merkið Baum und Pferdgarten.“

Á ennþá eftir að upplifa marga drauma

Hvað freistastu alltaf til að kaupa?

„Fallega kjóla og yfirhafnir.“

Hvað er raunverulegur lúxus í þínum huga?

„Lúxus fyrir mér er skíðaferð í Ölpunum.“

Er lífið búið að taka þig þangað sem þú ætlaðir þér?

„Þetta er stór spurning, mér finnst ég eiga eftir að upplifa marga drauma.“

Hvað skiptir þig raunverulega mestu máli?

„Fjölskyldan mín og vinir, heilsan, gleði og ást.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál