Bótox ein eftirsóttasta fegrunarmeðferðin á Íslandi

Bótox er vinsælt hjá báðum kynjum.
Bótox er vinsælt hjá báðum kynjum.

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér muninum á fylliefnum og bótoxi. 

Sæl!

Við vinkonurnar vorum að ræða mismunandi fegrunarmeðferðir um daginn og komumst að því að við áttum okkur ekki alveg á muninum á því sem kallast fylliefni og svo bótóxi. Er þetta sama meðferðin á mismunandi svæði?

Kveðja, A

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl A.

Það er von að þú spyrjir, fegrunarmeðferðum fer fjölgandi ár frá ári og þetta er orðin svolítill frumskógur og því getur verið erfitt að átta sig á mismunandi meðferðum. Meðferðir með bótoxi og fylliefnum eru meðal allra algengustu fegrunarmeðferða í heiminum í dag og líka á Íslandi. Það er hins vegar töluverður munur á þessum tveimur meðferðum.

Bótox er algengasta fegrunarmeðferð í heiminum og milljónir meðferða eru framkvæmdar ár hvert. Bótox er í raun lyfseðilsskylt lyf sem innheldur efni sem kallast bótulíum toxin A. Efnið hefur vöðvaslakandi áhrif og sléttir þannig úr hrukkum og fínum línum í andliti.

Bótox er kjörmeðferð fyrir:

 1. Reiðihrukkur milli augabrúna
 2. Hrukkur á enni
 3. Broshrukkur kringum augu

Aðrir meðferðarmöguleikar bótox:

 1. Grenna andlit, en það er gert með því að slaka á kröftugum kjálkavöðvum. Þetta er einnig gert til að létta á tanngnístri.
 2. Meðhöndla of mikla svitaframleiðslu í holhöndum og lófum
 3. Minnka tannholdsbros (gummy smile), þegar of mikið tannhold sést við bros
 4. Draga hangandi munnvik upp á við

Það eru strangar reglugerðir um hverjir mega meðhöndla með bótoxi og einungis læknar með sérfræðiþekkingu, m.a. húðlæknar, lýtalæknar og taugalæknar, hafa leyfi fyrir meðferðinni.

Fylliefnin eru hins vegar gerð úr hýalúrónsýru (hyaluronic acid) sem er fjölsykra sem er náttúrulega til staðar í öllum vefjum líkamans, þ.m.t. húðinni. Hýalúrónsýran dregur í sig vatn og gefur húðinni þannig fyllingu. Því miður minnkar framleiðsla sýrunnar með árunum og við missum smám saman fyllingu í andlitinu og hrukkur verða sjáanlegri.

Fylliefni henta vel fyrir:

 1. Varir og fínar línur kringum munn
 2. Broshrukkur kringum munn og nef (nasolabial folds) og hangandi munnvik
 3. Bauga undir augum (tear trough)
 4. Móta kinnbein
 5. Skerpa á kjálkalínu
 6. Stækka höku
 7. Fínar línur í andliti
 8. Fylla upp í ör
 9. Gefa húðinni raka og ljóma (skinboost)

Mikilvægt er að velja hæfan meðferðaraðila sem notar örugg fylliefni viðurkennd af lyfjaeftirlitum t.d. Restylane®, Juvederm® eða Belotero® til að minnka líkur á aukaverkunum og óánægju. Fylliefnin er hægt að leysa upp með lyfi sem brýtur niður hýalúronsýruna (Hyalas®) en lyfið fæst eingöngu á undanþágulyfseðli og er því einungis í höndum lækna með sérfræðiþekkingu.

Vonandi ertu einhverju nær í þessum frumskógi!

Bestu kveðjur,

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is