Með göt á kinninni eftir snyrtifræðing

Ljósmynd/Unsplash

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er með göt í andlitinu eftir snyrtifræðing. 

Sæl Ragna Hlín

Ég er með tvö lítil göt á andlitinu (kinninni) sem komu eftir snyrtifræðing sem stakk á smákýli og þau eru áberandi. Spurningin er hvort hægt sé að skrapa/raspa þau eitthvað niður? Kærar þakkir.

Kveðja, J

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl!

Þetta hljómar eins og ör sem þú hefur fengið þegar kýlin gengu til baka.  Til eru mismunandi tegundir af örum og þyrftir þú að leita til húðlæknis til að fá húð þína metna áður en viðeigandi meðferð er hafin. Sum ör eru frekar grunn og þá er oft hægt að slétta húðina með langtímameðferð með retínóíða kremum eða að mæta reglulega í ávaxtasýrumeðferðir (medical peeling).  Þegar ör eru dýpri þarf hins vegar oft að beita lasermeðferð til að slétta húðina. Erfiðustu örin eru mjög djúp og kallast ice-pick ör en þau eru stundum meðhöndluð með því að skera þau burtu og sauma húðina aftur saman.

Ég ráðlegg þér eindregið að panta þér tíma hjá húðsjúkdómalækni og fara yfir möguleikana.

Bestu kveðjur, Ragna Hlín Húðlæknir.

mbl.is