Upplifðu ævintýralegt brúðkaupsferðalag í Los Angeles

Brúðhjónin vildu fara óhefðbundnar leiðir þegar kom að ljósmyndatökunni. Þau …
Brúðhjónin vildu fara óhefðbundnar leiðir þegar kom að ljósmyndatökunni. Þau völdu umhverfið í kringum Kleifarvatn. Ljósmynd/M Flóvent

Lára Björk Bender og Aron Bragi Baldursson eru hjón en einnig bestu vinir sem hafa mikinn áhuga á kvikmyndagerð. Þau upplifðu drauminn í brúðkaupsferðalagi sínu þar sem þau gengu rauða dregilinn á frumsýningu með fræga fólkinu. Þau fengu ljósmyndarann Marinó Flóvent eða M Flóvent eins og hann er kallaður, til að taka ljósmyndir á brúðkaupsdaginn. 

Lára og Aron eru sammála því að vinskapur sé það sem gott hjónaband byggist á. Þau starfa bæði í kvikmyndaiðnaðinum. Aðalstarf Láru er hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem CRM-sérfræðingur og Aron er fjölmiðlatæknir og upptökumaður.

Þau eru bæði alin upp í Mosfellsbæ, gengu í sama skóla og áttu sameiginlega vini þótt þau hafi ekki kynnst eða tekið hvort eftir öðru fyrr en örlögin leiddu þau saman á unglingsárunum.

„Við byrjuðum saman 1. ágúst 2007 þegar ég söng lag með hljómsveitinni hans Arons. Aron spilaði á trommur og frændi hans, sameiginlegur vinur okkar, bað mig að syngja fyrir þá.

Ég var þá að verða fimmtán ára og Aron var sextán.“

Lára og Aron segja ákvörðunina um brúðkaupið hafa komið auðveldlega til sín. Þau tóku sér góðan tíma í undirbúninginn og fengu einnig góða aðstoð vina og fjölskyldu.

Í sínu fínasta pússi úti í grófri náttúrunni.
Í sínu fínasta pússi úti í grófri náttúrunni. Ljósmynd/M Flóvent

Brúðkaup haldið úti í náttúrunni

Hvar hélduð þið brúðkaupið?

„Brúðkaupið var haldið úti í náttúrunni, í bakgarði félagsheimilis Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Veislan var síðan haldin á sama stað um kvöldið og brúðkaupsgestir voru rétt yfir 60; svo það var fámennt en góðmennt. Eingöngu nánustu vinir og ættingjar,“ segir Aron.

Hvernig er tilfinningin að giftast?

„Við upplifðum bæði mikla hamingju og þakklæti fyrir að geta upplifað daginn með fólkinu okkar, sem kom og fagnaði með okkur,“ segja þau.

Þau fengu Marinó Flóvent ljósmyndara til að festa augnablikin á filmu og sjá ekki eftir því.

„Hann tók hefðbundnar brúðkaupsmyndir og einnig ljósmyndir í veislunni, sem gaman er að eiga í dag.“

Lára og Aron vildu nota íslenska náttúru sem bakgrunn á myndunum.

„Við vildum fara óhefðbundnar leiðir og varð Kleifarvatn fyrir valinu. Náttúran er dæmi um að fegurð og fullkomleiki eru ekki sami hluturinn, þótt samfélagið sé kannski ekki alltaf á sama máli. Til að ná þessu fram vildum við vera í okkar fínasta pússi í grófri náttúrunni,“ segja þau og bæta við að ljósmyndirnar veki ennþá eftirtekt fólks þar sem þær hanga á góðum stað heima hjá þeim.

Það er hægt að ná ástinni á filmu ef marka …
Það er hægt að ná ástinni á filmu ef marka má ljósmyndir M Flóvent. Ljósmynd/M Flóvent

Mæla með að fá aðstoð hjá fjölskyldu og vinum

„Thelma Baldursdóttir og Helga Þóra Bender voru veislustjórar; Lena Líf og Diljá Dögg Valsdætur voru hringaberar; Haraldur Grétar Bender lék létt hlutverk í brúðarmyndunum; Sigrún Jakobína Haraldsdóttir amma mín útbjó brúðarvöndinn úr fallegum blómum beint úr sumarbústaðnum sínum, til viðbótar við fallegar hortensíur úr garðinum hennar mömmu, Lindu Hauksdóttur Hammer; foreldrar Arons, þau Baldur Jónsson og Hugrún Svavarsdóttir, hjálpuðu með brúðarfötin; systir mín Helga er lærður hárgreiðslumeistari og förðunarfræðingur og sá hún um hár okkar og mína förðun; vinir okkar sáu um tónlistina og svo mætti lengi telja,“ segir Lára.

Eigið þið ráð að gefa öðrum fyrir brúðkaupið?

„Ekki vera hrædd við að biðja ykkar nánustu um aðstoð og greiða til að létta undir með ykkur. Það gerir daginn persónulegri.

Brúðkaupsdagurinn á að vera léttur og skemmtilegur. Eins er gott að muna að þótt eitthvað fari úrskeiðis er alltaf hægt að horfa á björtu hliðarnar. Ekki gleyma ykkur í óþarfa stressi við að gera daginn fullkominn. Dagurinn verður ekki fullkominn, en hann verður einstakur. Brúðhjón eiga að njóta hvers augnabliks,“ segir Lára.

Brúðhjónin í fallegri íslenskri náttúru.
Brúðhjónin í fallegri íslenskri náttúru. Ljósmynd/M Flóvent

Brúðkaupsferðalagið í borg kvikmyndanna

Eitt af því sem stóð upp úr við brúðkaupið var brúðkaupsferðin sem var farin til Los Angeles.

Hvers vegna völduð þið Los Angeles?

„Aðdragandinn að þeirri ferð var áhugaverður. Ég hef verið með annan fótinn í kvikmyndaiðnaðinum undanfarin ár. Í janúar 2017 var ég fengin til að sjá um og hjálpa aðstoðarkonu framleiðanda Game of Thrones við tökur á sjöundu seríu hér á landi. Framleiðendunum, þeim David Benioff og D.B. Weiss, kynntist ég vel á þeim þremur vikum sem ég vann með þeim. Þeir vissu að maðurinn minn væri kvikmynda-gerðarmaður. Þeir vildu því endilega bjóða honum að koma á sett til að fylgjast með tökum, sem hann svo gerði strax næsta dag.

Að tökum loknum, rétt áður en þeir flugu heim, buðu þeir okkur tveim, ásamt aðstoðarkonu sinni, í sjö rétta máltíð á Dill. Umræðurnar það kvöldið urðu ansi skrautlegar og minntumst við á að okkur hefði alltaf langað til að ferðast til Bandaríkjanna og þá sérstaklega til Los Angeles. Þá skaut Aron því inn að kannski ættum við bara að taka brúðkaupsferðina þangað. Viðbrögðin voru betri en við bjuggumst við! Þeim fannst það æðislegt og buðu okkur á sérstaka HBO-frumsýningu sjöundu seríu GOT í Walt Disney Concert Hall, með öllu þotuliðinu. Tímasetningin á frumsýningunni var u.þ.b. tveimur vikum eftir brúðkaupsdaginn og hentaði því einstaklega vel,“ segir Lára.

Brúðhjónin voru þrjár vikur í brúðkaupsferðalagi og tóku íbúð á leigu í gegnum Airbnb.

„Íbúðin var á North Orange Drive, sem er í fimm mínútna göngufæri við Hollywood Boulevard og Hollywood Walk of Fame. Ferðalagið var einstakt, sér í lagi þar sem þetta var í fyrsta skiptið sem við ferðuðumst ein saman út fyrir landsteinana. Fram að þessu höfðum við einungis ferðast með vinum eða fjölskyldu. Það reyndi strax á hjónabandið. Hinn 6. júlí, daginn fyrir flugið, vorum við í mat hjá foreldrum Láru. Við vorum að tala um ferðaáætlun okkar og hvað við værum spennt. Ég hafði tekið niður flugupplýsingarnar, svo við gætum skráð okkur rafrænt inn, og stuttu seinna fær Lára svo tölvupóst varðandi íbúðina. Þá byrjaði stressið, því við uppgötvuðum að við ættum flug út þennan sama dag, þremur klukkustundum síðar. Við vorum bæði viss um að flugið væri 7. júlí, en svo var ekki, svo við þeyttumst heim, pökkuðum í tösku og fórum síðan beint út á flugvöll. Við misstum af fluginu og sem betur fer var flug á áfangastaðinn daginn eftir á sama tíma og ákváðum við að líta á það þannig að okkur hefði verið ætlað að fljúga út þá,“ segir Aron.

Þannig að þið mælið með að blanda áhugamálum inn í brúðkaupsferðalagið?

„Já ekki spurning. Við kynntumst mörgu skemmtilegu fólki. Fengum að upplifa rauða dregilinn og umstangið í kringum Hollywood-frumsýningu. Áttum frábærar samverustundir bara tvö. Við nutum okkar í botn í borginni, sem hefur verið í miklu uppáhaldi síðan,“ segir Lára.

Það er alltaf hægt að finna út úr hlutunum í …
Það er alltaf hægt að finna út úr hlutunum í ljósmyndatöku; jafnvel þó það rigni. Ljósmynd/M Flóvent
Brúðarvöndurinn er í stíl við blómin í náttúrunni.
Brúðarvöndurinn er í stíl við blómin í náttúrunni. Ljósmynd/M Flóvent
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál