Er hægt að stækka varirnar þannig að það endist lengur en nokkra mánuði?

Ljósmynd/Unsplash

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem spyr út í varafyllingar. 

Sæl Arna. 

Er eitthvert varanlegt fylliefni í boði hjá ykkur sem hægt er að setja í varir eða endist þetta allt bara í nokkra mánuði?

Kveðja, Þ

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Þau fylliefni sem við notum og eru mest notuð í dag eru gerð úr hýalúrónsýru. Hýalúrónsýra finnst í húðinni (og fleiri stöðum í líkamanum) og er því ekki framandi efni fyrir líkamann. Það eru því mun minni líkur á ofnæmisviðbrögðum og öðrum aukaverkunum af þessum efnum en geta verið af varanlegum fyllingum. Einnig eru þessi efni oftast mýkri og náttúrulegri í vörunum og er það kannski helsta ástæðan af hverju þessi gerð varafyllinga er vinsælust í dag. Það þarf líka ekki að vera slæmt að efnin eyðist með tímanum því þótt þig langi í svona varir í dag þarf þig ekki endilega að langa í þær eftir einhver ár. 

Það er einstaklingsbundið hversu lengi fylliefnin endast í vörum en oftast er það á bilinu 3-12 mánuðir, stundum lengur.

Í sumum tilfellum er betra að nota fyllingar sem endast lengur eða eru jafnvel varanlegar, til dæmis svokölluð „implants“. Það eru lýtalæknar sem framkvæma aðgerðir með varanlegum fyllingum.

Ef þú ert að spá í varafyllingar og hvað væri best fyrir þig myndi ég eindregið ráðleggja þér að panta tíma hjá húðlækni eða lýtalækni sem gæti metið hvað hentar þér best.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu spurningu HÉR. 

mbl.is