Klæðnaðurinn þarf að vera í takt við stöðu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er fæddur og uppalinn í sveit þar sem lítið fór fyrir tísku og hönnun. Það var ekki fyrr en hann fór í doktorsnám í Bandaríkjunum sem hann fór að gefa tískunni gaum.

„Ég er einn af sex systkinum og þegar ég var yngri gekk ég gjarnan í fötum af bróður mínum og frændsystkinum. En mamma mín var samt sem áður dugleg að sauma á okkur föt og prjóna peysur, vettlinga og húfur. Ég hefði örugglega getað leikið í Álafossauglýsingu á þessum tíma í sveitinni. Ég sjálfur hugleiddi hins vegar lítið hvernig ég var klæddur. Það var ekki í raun fyrr en ég hafði lokið háskólanámi í Bandaríkjunum sem ég leiddi hugann að klæðaburði,“ segir Ásgeir og bætir við: 

„Þegar ég kom aftur til Íslands ætlaði ég að starfa innan háskólans en var svo boðið starf sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2003. Þá var ég 33 ára. Segja má að í því starfi hafi ég fyrst þurft að hugsa fyrir alvöru hvernig ég vildi klæða mig fyrir vinnuna. Ég kunni á þessum tíma varla að binda minn eigin bindishnút og var tískan í háskólunum allt öðruvísi en tískan í bönkunum,“ segir hann. 

Ásgeir er mikill greinandi í eðli sínu eins og hann segir sjálfur frá.  

„Ég er með þannig heila að hann er sífellt í vinnu og lætur mig aldrei í friði. Þannig að sama hvert ég kem eða hvert ég fer þá er ég alltaf að greina hlutina eða lesa í þá – og velta fyrir mér orsök og afleiðingu. Stundum kannski allt of mikið. Ég geri þetta einnig þegar kemur að fatnaði og tísku, en einnig tengt mataræði og hreyfingu. Þessi eiginleiki kemur sér vel fyrir mig í vinnunni en leiðir til þess að ég kannski skora ekki hátt í núvitund. Einnig er algengt umkvörtunarefni hjá mínum nánustu að ég sé annars hugar.“

Greiningartaktík Ásgeirs má þegar heyra á skilgreiningu hans á tískunni á milli deilda innan háskólans.

„Ég hef séð það í erlendum rannsóknum að þeir kennarar sem eru vel til fara fá hærri nemendaeinkunnir en þeir sem eru það síður. Þú þarft að klæða þig upp á fyrir það hlutverk að vera kennari líkt og eiginlega öll önnur störf. En sá leikbúningur getur þó verið mismunandi á milli fagsviða. Kennarar og nemendur í heimspekideild eru til að mynda allt öðruvísi til fara en þeir sem eru í fjármálum og viðskiptum. Vinsælt útlit á prófessorum í háskóla er að vera í gallabuxum og skyrtu. Peysu yfir skyrtunni og síðan í dökkum jakka yfir það.

Í fjármálaheiminum eru mjög stífar – skrifaðar og óskrifaðar reglur um klæðaburð. Fötin skipta máli. Ég tók strax ákvörðun um að vera óaðfinnanlega klæddur fyrir það hlutverk sem ég var að taka að mér í nýju starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings. Ég fór í Boss-búðina þar sem ég átti eiginlega ekki jakkaföt fyrir og keypti mér þrenn föt til skiptanna. Raunar eru vönduð jakkaföt mjög þægilegur vinnuklæðnaður,“ segir Ásgeir. 

Ásgeir er alinn upp í sveit og gekk oft í …
Ásgeir er alinn upp í sveit og gekk oft í fötum af bróður sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Klæddi sig fallega til að sýna virðingu

Ásgeir segir mikla hefð fyrir því að fólk klæði sig upp á hér á landi. Hér áður áttu allir spariföt og klæddu sig upp á hátíðisdögum og sunnudögum – jafnvel þó ekki sé farið af bæ. Það var hluti af hátíðarstemmingunni að klæða sig upp. Þetta sést vel af gömlum myndum sem sýna hátíðarhöld í tilefni af sjómannadeginum, 1. maí eða 17. júní – þar er alþýðu- og erfiðisfólk búið að klæða sig i sitt fínasta púss til þess að fagna niður í bæ. Mér finnst þetta ákaflega fallegt og að nútímafólk megi alveg tileinka sér þetta viðhorf. Þegar þú klæðir þig upp fyrir eitthvert tækifæri – ert þú að sýna virðingu; virðingu fyrir tilefninu og virðingu fyrir öðru fólki. Fjármálaheimurinn er svipaður; ef þú vilt láta taka þig alvarlega þá mætir þú ekki á peysunni í inniskóm á fundi,“ segir hann. 

Hefurðu komið af stað tískutrendi sjálfur?

„Nei – því trúi ég varla. En mögulega var ég á undan minni samtíð. Ég hef verið með skegg – allt frá því að ég var í prófum í hagfræði þá 22 ára að aldri. Það þekktist ekki á þeim tíma – sérstaklega ekki í fjármálaheiminum að menn væru með skegg. Hvað þá svona ungir.“

Af hverju ertu með skegg?

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er ég heppinn með skeggrót. Í öðru lagi er ég með viðkvæma húð sem hentar ekki fyrir nauðrakstur. Svo finnst mér skeggið fara mér vel. Ég fékk lengi vel áskoranir frá fólki – einkum frá fólki sem var einni eða tveimur kynslóðum eldra ég – að raka þetta af mér. Raunar hefur móðir mín aldrei sætt sig við að ég hafi skegg.“

Þegar Ásgeir varð seðlabankastjóri hugleiddi hann vel og vandlega hvernig hann ætlaði að klæða sig fyrir þá stöðu.

„Það skipti mig miklu máli að klæðnaðurinn væri í takt við þá stöðu sem ég hafði verð valinn til þess að þjóna. Mér fannst ég þurfa að sýna þessari stöðu virðingu. Ég er yfirmaður bankans og fötin mín þurfa að endurspegla það. Þess vegna ákvað ég að vera alltaf með klút og að leyfa honum að vera litríkur. Það átti að sýna sjálfstæði mitt í þessu embætti – að ég væri ekki hræddur að standa út úr hópi annarra. Ég er einnig einn yngsti seðlabankastjórinn sem skipaður hefur verið – og þess vegna vildi ég leggja áherslu á íhaldssemi með því að vera í vesti.

Almennt séð gildir sú regla að ef talað er um skyrtu, bindi og jakka sem þrenningu – þá má aðeins eitt af þremur vera áberandi. Ef þú ert með áberandi bindi – verður þú að vera með látlausa skyrtu og jakka. Skyrtan getur verið áberandi en þá þurfa jakkafötin og bindið að vera tónað niður. Þessi regla er góð svo menn breytist ekki í ljósaskilti.“

Hrifinn af jarðlitum

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

„Ég er hrifinn af náttúrulegum litum enda er ég úr sveit. Ég kann vel við viðarbrúnan og bláan lit og geng aldrei með málmhluti – skartgripi eða úr. Slíkir hlutir fara karlmönnum ekki vel að mínum dómi – gefa til kynna hégómagirni.“

Hvað er besta tískuráðið sem þú hefur fengið?

„Ég hef fengið margar ábendingar frá því að ég varð seðlabankastjóri. Nú síðast benti  Kristján Jóhannsson söngvari mér að það þýði ekki að vera í stuttum sokkum við jakkafötin. Að háir sokkar væru málið – þannig væru allir ítalskir „signore“.

Ég er í sjálfu sér ekki svo meðvitaður um tísku. Það sem ég hef hugsað mjög nákvæmlega er hvaða skilaboð hægt er að senda með klæðaburði. Síðan hef ég verið óhræddur við hafa minn eigin stíl – vafalaust finnst þá einhverjum að ég sé hallærislegur – eða mögulega oflátungslegur.“  

Hvað hefurðu greint tengt mataræði?

„Ég hef fundið út að ég þoli illa mjólk og glúten. Ég borða fisk og þar sem ég er alinn upp á sauðfjárbúi þá borða ég mikið af lambakjöti. Ég er hrifinn af lambaspaghettí og steiki lambahamborgara. Ég er ekki svo hrifinn af kjúklingi því mér líkar ekki hvernig kjúklingar eru aldir í búrum. Það sama má segja um svínakjöt – það borða ég aldrei. Ég er því raun neyddur til þess að borða hollt.

Að sama skapi reyni ég að hlaupa svona 5-10 kílómetra á hverjum degi. Ég er í sjálfu sér ekki byggður eins og langhlaupari – það er of þungt í mér pundið. En þessi hlaup undir beru lofti halda mér í bæði líkamlegu og andlegu jafnvægi. Og ég þarf svo sannarlega á því að halda í þessu starfi sem ég sinni. Það skiptir mig engu máli hvernig veður er – ég hleyp samt.“

Hvaða ráð áttu fyrir ungt fólk í landinu?

„Eitt ráð sem ég get gefið varðandi klæðnað er gefa góðan gaum að því klæða sig upp í það hlutverk sem maður hefur með höndum eða hefur þrá til þess að sinna. Til að mynda – ef þú hefur það sem markmið að verða yfirmaður á þínum vinnustað þá er það lykilatriði að byrja strax að klæða sig og hegða í samræmi við það hlutverk. Það er nauðsyn að passa inn i það hlutverk sem þú ætlar Þetta er þó vitaskuld aðeins einn þáttur af mörgum – sem skipta máli. Þú getur aldrei klætt af þér skort á dugnaði eða hæfileikum.“ 

Mikilvægt að læra að taka ábyrgð

Hvað um fjármálin. Áttu gott ráð fyrir ungt fólk tengt peningum?

„Besta ráðið sem ég kann er að þú færð ekkert nema að vinna fyrir því. Allir sem hafa komist áfram í lífinu leggja hart að sér.

Hvað varðar fjármál þá er gott að muna að tíminn vinnur með okkur og peningunum okkar líka. Því er mikilvægt að byrja að spara strax. Eins mæli ég með því að byrja að fjárfesta sem allra fyrst – ávöxtunin er glettilega fljót að safnast saman ef rétt er að staðið.

Það er hægt að starfa við alls konar og að fjárfesta á markaði. Þannig skapast hvati til að fylgjast með markaðnum og þannig kynnist maður betur því sem er að gerast í viðskiptalífinu. Það getur raunar verið mjög skemmtilegt að fjárfesta sjálfur. Þetta þurfa ekki að vera stórar upphæðir en allir ættu að læra að taka ábyrgð á sér þegar kemur að peningum og að læra að treysta á sjálfan sig.

Að þessu sögðu þá vil ég hvetja alla til að láta ekki peninga stjórna sér. Heldur velja sér starf sem þeir hafa áhuga á. Ef þú ert góður smiður þá býrðu örugglega til meiri verðmæti og ert mun hamingjusamari heldur en að klæða þig upp á sem viðskiptafræðingur og hafa ekki gaman af því.“

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál