Íris Svava sýnir línurnar óhrædd

Íris Svava Pálmadóttir hefur fundið frelsi til að klæða sig …
Íris Svava Pálmadóttir hefur fundið frelsi til að klæða sig eins og hana langar til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þroskaþjálfinn Íris Svava Pálmadóttir er með litríkan og skemmtilegan fatastíl. Íris elskar litríka kjóla og vill heldur vera of fín frekar en ekki nógu fín. Hún var lengi vel með lítið sjálfstraust vegna líkamsgerðar sinnar en fyrir nokkrum árum ákvað hún að sér væri sama um þessar fyrirfram ákveðnu reglur samfélagsins um hvernig feitar konur mættu klæða sig. 

Í dag fagnar hún líkama sínum, er óhrædd við að sýna hann og klæðist uppháum buxum, magabolum og þröngum og litríkum fötum. Íris er nú í meistaranámi í kynjafræði við Háskóla Íslands og samhliða því vinnur hún í íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. 

Íris er vinsæl á Instagram en þar talar hún mikið um jákvæða líkamsmynd en þar vill hún sýna að stærð líkamans hefur ekkert með kynþokka að gera.

Í viðtali viðSmartland segist Íris enn var að læra inn á það hvernig hún vill klæða sig. „Samfélagið er með óskrifaðar reglur um hvernig ákveðnar líkamsgerðir eigi að klæða sig. Ég skilgreini mig sem feita konu og nota það sem valdeflandi og hlutlaust lýsingarorð. Ég hélt lengi að ég þyrfti að klæða mig þannig að fólk sæi ekki að ég væri feit, var aldrei í neinu þröngu eða uppháu svo fólk sæi líkama minn minna.

Kápuna og hettupeysuna keypti Íris á Asos, buxurnar eru frá …
Kápuna og hettupeysuna keypti Íris á Asos, buxurnar eru frá Fashion Nova. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir nokkrum árum fór mér að vera alveg sama um þessar reglur og fór að klæða mig eins og ég raunverulega vil. Ég varð óhrædd við að sýna líkama minn og fór að klæðast uppháum buxum, magabolum, þröngum og litríkum fötum. Andstæðan við það sem feitum konum er sagt að gera, ég fór að taka pláss í fyrsta skipti en ekki að fela mig á bakvið fötin,“ segir Íris. 

Henni finnst gríðarlega mikilvægt að líða vel í fötunum sínum og að klæðast einhverju sem er valdeflandi fyrir hana. „Ég skammaðist mín alltaf fyrir línurnar mínar en í dag reyni ég að sýna þær frekar. Það sem klæðir mig best eru aðsniðin föt sem sýna línurnar mínar,“ segir Íris. 

Íris Svava fellur oft fyrir litríkum kjólum.
Íris Svava fellur oft fyrir litríkum kjólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vill frekar vera of fín en ekki nógu fín

Íris fellur oftast fyrir litríkum kjólum. „Mér finnst bæði þægilegt að vera í kjól og það er svo klæðilegt líka. Það er auðvelt að vera fín í kjól og fara í háa hæla en svo er líka hægt að fara í sæta strigaskó og gera lúkkið meira hverdagslegt.“

Dagsdaglega eru þægindin í fyrirrúmi hjá henni, enda finnst henni fátt leiðinlegra en að vera í óþægilegum fötum. „Þannig dagsdaglega er ég mjög afslöppuð og klæði mig eftir skapi. En það er enginn millivegur myndi ég segja, ég er annað hvort mjög þægilega klædd eða fín,“ segir Íris. 

Íris er hrifin af gylltu skarti.
Íris er hrifin af gylltu skarti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil frekar vera of fín heldur en ekki nógu fín. Mér finnst mjög gaman að klæða mig upp þegar ég er að fara eitthvað fínt, fer þá oftast í háhælaða skó og oftast einhvern fallegan kjól. Svo elska ég að toppa lúkkið með gylltum hringum í eyrun og á fingurna og elska gull skartgripi.“

Íris Svava lýsir sjálfri sér sem allt eða ekkert týpunni, annað hvort sé hún rosalega fín, eða bara í kósýgalla. 

„Ég á líka mikið af íþróttafötum, eiginlega allt of mikið þar sem ég elska að hreyfa mig. Viðurkenni að ég þyrfti að vera duglegri að nota fínu fötin mín hversdagslega en ekki alltaf að hoppa í íþróttagallann,“ segir Íris. 

Íris Svava elskar litrík föt. Peysan er frá Yeoman og …
Íris Svava elskar litrík föt. Peysan er frá Yeoman og buxurnar og skórnir eru af Asos. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verstu fatakaupin flíkur sem áttu að minnka hana

Í gegnum árin hefur Íris glímt við slæma sjálfsmynd en hefur unnið sig út úr því og þorir nú að klæðast hverju því sem hana langar til að klæðast hversu sinni. Hún segir verstu fatakaupin vera þær flíkur sem áttu að „minnka“ hana. 

„Til dæmis alltof stórar blússur eða mjög víður kjóll. Eiginlega bara öll þau föt sem ég keypti áður en ég fann frelsið til að klæða mig nákvæmlega eins og ég vil,“ segir Íris. 

„Þegar sjálfstraustið mitt var sem verst var ég alltaf í mjög víðum fötum og helst dökkum. Ef ég fann mér kjól sem var ermalaus að þá fór ég alltaf í ermar til að fela handleggina mína. Þegar ég horfi til baka finnst mér það vera ákveðið tískuslys fyrir sjálfa mig. Veit að margar tengja við erma tímabilið, örugglega af mismunandi ástæðum,“ segir Íris. 

Bestu fatakaupin eru hins vegar þau sem hún hefur gert eftir að hún fann frelsið. „Örugglega í fyrsta skipti sem ég þorði að kaupa það sem ég raunverulega vildi, uppháar gallabuxur og magabolur til dæmis. Það var rosalega stórt skref fyrir mig og ég þurfti að mana mig lengi upp í að fara í þessu út. Núna er þetta orðið daglegt brauð og ég er óhrædd við að rokka hvað sem er,“ segir Íris. 

Íris elskar íslenska hönnun eftir íslenskar konur. Hér klæðist hún …
Íris elskar íslenska hönnun eftir íslenskar konur. Hér klæðist hún kjól frá Brá verslun. Skórnir eru frá Six Mix. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgir sínu innsæi

Spurð hvort það sé eitthvað sem hún myndi sjálf aldrei fara í segist Íris ekki fylgjast tískustraumum, hún sé opin fyrir öllu og fylgir innsæinu sínu. „Ég er mjög trú sjálfri mér þegar kemur að einhverju sem mér líkar við og fer ekkert endilega eftir tískutrendum. Tíska fyrir mér er bara eitthvað sem ég fýla sjálf. Þannig ég ætla ekkert að útiloka neitt sem ég myndi aldrei fara í því ég er svo opin fyrir öllu.“

Hvað finnst þér flott á öðrum en myndir aldrei fara í sjálf?

„Það er ekki það að ég myndi aldrei fara í sjálf heldur er svo lítið úrval til fyrir feitar konur. Ég vildi óska að ég gæti nýtt mér second-hand búðir meira en stærðirnar eru svo takmarkaðar að það er mjög erfitt fyrir mig. Væri til í að geta keypt meira notað heldur en að kaupa nýtt.“

Íris elskar íslensk merki og reynir frekar að kaupa íslenska hönnun og gera hana sýnilega á sínum miðlum. „Þá reyni ég sérstaklega að velja mér íslenska kvenkyns hönnuði en ég elska að sjá konur blómstra og uppfylla drauma sína. Það eru nokkur merki sem eru að gera góða hluti á íslenskum markaði en Brá Verslun og Befit Iceland eru frábær merki og aðgengilegar stærðir sem flestir geta keypt. Mér finnst frábært að sjá þegar merki passa uppá það svo sem flestir geti verslað af þeim. Svo er það Yeoman en ég elska alla litadýrðina þar,“ segir Íris. 

„Annars elska ég líka íþróttamerki eins og Nike og M Fitness. Ég versla annars mest af erlendum síðum því úrvalið á Íslandi fyrir feitar konur er ekkert alltof gott. Ég kaupi mjög mikið og flestar buxur á Fashion Nova og versla mikið á Asos. Annars er ég mjög nægjusöm þegar kemur að fötum því ég vil gera mitt besta í að minnka þennan „fast fashion“ farald. Þannig ég kaupi mér frekar dýrari flíkur sem endast lengur og eru þar af leiðandi siðferðislega réttara.“

Íris segir bestu fatakaupin hafi hún gert eftir að hún …
Íris segir bestu fatakaupin hafi hún gert eftir að hún fann frelsið til að kaupa þau föt sem hana langaði til að klæðast. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is