Vitlausir litir voru vandamál Önnu

Anna Guðlaugsdóttir fann sína liti.
Anna Guðlaugsdóttir fann sína liti. Ljósmynd/Aðsend

Anna Guðlaugsdóttir stílisti hóf sitt persónulega stíl- og útlitsferðalag fyrir nokkrum árum. Líf hennar breyttist til hins betra þegar hún fór í litgreiningu. Anna sem býr í Danmörku segir að allir eigi skilið að líta vel út. Hinn vinsæli svarti litur er alls ekki allra en það eru mikil fræði á bak við hvaða litir fara fólki. 

„Ég var orðin þriggja barna móðir og að verða fertug, og var á þessum tíma ekki ánægð með útlitið. Á yngri árum hafði ég haft mjög gaman af því að klæða mig og kaupa föt en þarna nálægt fertugu var ég alveg búin að missa sjónar á því hvað gæti farið mér vel og í hverju mig langaði að ganga. Mér fannst ég líta grárri og guggnari út með hverjum deginum sem leið og hélt það hlyti bara að vera svona eftir vissan aldur. Sennilega þyrfti ég bara að sætta mig við að nú væri þeim tíma lokið þar sem ég gæti litið vel út. Þetta var auðvitað mjög niðurdrepandi tilfinning og ég var mjög leið yfir þessu,“ segir Anna. 

Var í kolvitlausum litum

Anna hafði mikinn áhuga á fötum, vildi klæða sig fagmannlega í vinnunni og tjá sig með fatastílnum. Það gekk hins vegar ekki upp eins og hún ætlaði.

„Mér fannst ég einhvern veginn aldrei vera eins og mig langaði að vera. Ég sá svo að kvöldskóli í grenndinni var með viðburð þar sem kennt var um liti og stíl, en komst ekki og fór sjálf að gúggla allt sem ég komst í um litgreiningu. Það rann þá smám saman upp fyrir mér að ég hefði sennilega verið að ganga í röngum litum.“

Þegar Anna komst í litgreiningu varð henni ljóst að hún gekk í kolvitlausum litum. 

„Þetta var svo mikil upplifun fyrir mig og svo mikill léttir. Þarna hafði ég árum saman verið óánægð með meðal annars litarhaft mitt og skammast mín ógurlega fyrir að geta aldrei orðið brún á sumrin. Nú opnaðist hins vegar fyrir mér ný veröld, full af mínum litum sem ég leit frábærlega út í og það án sólbrúnku.“

Anna sérhæfir sig í litgreiningu.
Anna sérhæfir sig í litgreiningu. Ljósmynd/Aðsend

Í framhaldi af uppgötvun sinni ákvað Anna að kynna sér stíl og stílgreiningu enn frekar. Hún fann hvað hún brann fyrir fagið og langaði að hjálpa öðrum. „Allir bæði geta og eiga skilið að líta vel út og vera ánægðir með útlitið. Markmið mitt er að hjálpa öðrum að gera það.“

Fólk getur verið vetur, sumar, vor eða haust

Anna notar það sem hún kallar árstíðalitgreiningu til að litgreina fólk. Í litakerfinu er talað sumar, vetur, vor og haust og á hver árstíð sína liti. Hver litur getur komið fyrir í fleiri en einni árstíð og er rauður til að mynda í öllum árstíðum. Hún tekur þó fram að rauði liturinn í vorinu og rauði liturinn á sumrin sé ekki eins. 

„Þeir litir sem fara manni, eru þeir sem eru í samræmi við húð-, hár- og augnlit manns. Til þess að greina hvaða litir fara manni, þarf að greina undirtóninn í húðinni og hvort að hann sé kaldur eða heitur. Það er yfirleitt erfitt að sjá það sjálfur og það þarf sérstaka þjálfun til þess. Litir búa yfir ákveðnum eiginleikum, þeir geta verið kaldir eða heitir, skærir eða dempaðir, dökkir eða ljósir. Til þess að velja flík í réttum lit þarf maður að vita hvaða eiginleika litirnir manns hafa. Það er ekki nóg að grípa bara bláa peysu, því blár er ekki bara blár. Blár getur verið æpandi skærblár, dempaður dökkblár eða til dæmis heitur og skærblár og þar með fara alls ekki allir bláir sömu manneskjunni,“ útskýrir Anna. 

Fól er yfirleitt mjög ánægt þegar það finnur sína liti.
Fól er yfirleitt mjög ánægt þegar það finnur sína liti. Ljósmynd/Aðsend


En er ekki takmarkandi að geta bara gengið í einhverjum tilteknum litum?

„Nei, ég myndi alls ekki segja það. Í fyrsta lagi sýnir litgreiningin þér fullt af litum sem ég get lofað að þú vissir ekki að myndu fara þér. Í öðru lagi má segja að langflestir eru hvort sem er búnir að takmarka sig í litavali áður en komið er í litgreiningu. Í þriðja lagi getur maður auðvitað alltaf gengið í þeim litum sem maður vill. Mitt starf er að sýna kúnnanum hvaða litir fara henni (eða honum, karlar hafa líka mjög gott af litgreiningu og verða rosa flottir í sínum litum) best og hvernig er best að setja liti saman. Hins vegar er það alfarið mín reynsla að flestir verða svo hrifnir af því hvernig þeir líta út í réttu litunum, að þeir sjá ekkert eftir hinum litunum.“

Stíll er ekki tíska

Anna býr og starfar í Kaupmannahöfn. Hún segir litgreiningu ekki vera mjög stóran bransa í gamla höfuðstaðnum. Hún segir borgina vera mjög stóra tískuborg en bendir einnig á að tíska sé í reynd ekki hennar fag. 

„Ég fæst ekki við tísku beinlínis, heldur persónulegan stíl og sérstaklega litgreiningu. Ég vinn líka að þessu á svolítið heildrænan hátt, til að hjálpa kúnnanum að losna við neikvæðar hugsanir og orku í kringum útlit sitt og fara í staðinn að upplifa sjálfa sig sem flottan og fallegan á sinn einstaka, sanna hátt.“

Anna segir að langflestir kaupi föt í hrifningu og líkir því við að kaupa föt í blindni. Hún segir það hvorki gott fyrir sjálfstraustið, fjárhaginn né umhverfið. Hún segir mikilvægt að vita hvaða litir og snið henta. 

„Ég hjálpa kúnnanum að kynnast sjálfum sér betur og að uppgötva eigin stíl og liti, frekar en að reyna að eltast við tísku eða vera í því sem er heitast akkúrat núna. Það, að þekkja sjálfa sig, vita hvernig er hægt að draga fram sínar bestu hliðar og leika sér með snið, liti og form en á sama tíma að fjárfesta bara í flíkum og fylgihlutum sem fara manni og passa við allt annað í fataskápnum, er mun sjálfbærari lausn en að hlaupa á eftir tískunni. Auðvitað er margt flott og skemmtilegt í tísku og ég sýni mínum kúnnum hvernig þeir geta notað það sem þeir fíla og hvað gæti farið þeim. Þegar kona er búin að kynnast eigin persónulega stíl, þá býr hún að því alla ævi og getur nýtt sér það, hvernig sem tískan svo er.“

Anna segir að litgreining sé að koma aftur sterk inn í Bandaríkjunum og Englandi en hefur ekki verið jafn útbreidd á Norðurlöndunum. Anna segir að því miður klæðist fólk bæði í Danmörku og á Íslandi mikið gráu og svörtu. Litirnir eru hins vegar ekki allra. 

„Það kemur fólki alltaf á óvart þegar það er sest í stólinn hjá mér hversu mörgum litum það getur gengið í og hversu vel það fer þeim,“ segir Anna. 

Lífið er of stutt fyrir föt sem fara fólki illa

Anna talar um mismunandi stíltýpur og getur fólk verið blanda af tveimur eða þremur týpum og þess vegna er greining á því persónubundin. 

„Hver stíltýpa hefur ákveðin einkenni, snið og línur. Dramatík einkennist til dæmis af sídd, skörpum línum og hvössum formum. Andstæðan er rómantík sem einkennist af mjúkum, ávölum línum og kvenlegum smáatriðum á flíkum og fylgihlutum. Ég hvet alla til að kíkja á Instagram-síðuna mína og kynna sér þetta betur.

Í daglegu tali tölum við oft um sportlegan stíl eða klassískan stíl, og stíltýpurnar eru þannig séð svipaðar. Þær fara þó mun dýpra á þann hátt í staðinn fyrir að snúast um þann stíl sem maður velur sér þann daginn.“

Anna hefur hjálpað mörgum konum að finna sig.
Anna hefur hjálpað mörgum konum að finna sig. Ljósmynd/Aðsend

Anna útskýrir nánar að þessar stíltýpur byggist á andliti, líkama og persónuleika.

„Stílgreining hjá mér er fyrst og fremst persónuleg ráðgjöf. Ég skoða samspil andlits, líkama og persónuleika og bý svo til persónulega stílskýrslu sem kúnninn fær að lokinni greiningu. Þessa skýrslu er svo hægt að hafa að leiðarljósi allt lífið, því þrátt fyrir að við breytumst eitthvað í útliti gegnum árin þá breytast andlitsdrættir og beinabygging ekki og heldur ekki grunndrættir persónuleikans,“ segir Anna. 

„Ég hef hjálpað konum til að finna sig aftur eftir til dæmis að hafa verið í mömmuhlutverkinu í mörg eða nokkur ár. Við breytumst og þroskumst gegnum lífsferilinn og krefjandi verkefni eins og að verða mamma, mennta sig eða áföll eins og veikindi. Hjónaskilnður verður oft til að við gleymum sjálfum okkur. Þá hættum við oft að hafa okkur til eða missum sjónar á því hvernig við viljum líta út og komum út úr þessu tímabili lífsins með skápinn fullan af gömlum fötum og vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Þegar þangað er komið, er tilvalið að fá aðstoð frekar en að svekkja sig á endalausum mistökum í fatakaupum.

Fyrir og eftir.
Fyrir og eftir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef til dæmis hjálpað konu sem var að rakna úr hálfgerðu mömmudái eftir að hafa alið upp þrjú börn ein. Börnin voru að vaxa úr grasi og þessa konu langaði að fara að gera eitthvað fyrir sjálfa sig og líta betur út. Hún fékk lit- og stílgreiningu og komst í samband við rómantísku stíltýpuna sína. Í dag er hún með eigin orðum „alltaf fín“, líður vel í fötunum sínum og veit hvað hún á að kaupa.

Önnur kona sem fékk litgreiningu hjá mér upplifði mjög mikla breytingu á sjálfsmyndinni og sjálfstraustinu við það að fá litina sína. Hún gekk mikið í haustlitum, ryðrauðum, rauðbrúnum og karrí og var alltaf óánægð með sig. Hún var eiginlega búin að sætta sig við að hún væri bara þessi týpa „sem væri ekki smart“. Þegar hún kom í litgreiningu og komst að því að hún var í raun vor og átti að ganga í skærum litum, þá breyttist allt hjá henni. Nú blómstrar hún í flottum skærum litum og það besta er að hún þorir núna að kaupa sér föt sem hana langaði áður í, en fannst að 36 ára mamma gæti ekki gengið í!“

Anna segir að lokum það sé engin ástæða fyrir fólk að vera óánægt með útlitið og sætta sig við það. 

„Ég þori að leggja höfuðið að veði þegar ég segi að þegar við erum óánægðar með útlitið, þá er það af því að við erum ekki að klæða okkur rétt og í samræmi við okkar stíltýpu. Með réttu litunum og réttu sniðunum getum við allar litið frábærlega út og við eigum það skilið. Ég hvet allar íslenskar konur til að kynna sér þjónustuna mína, því lífið er hreinlega of stutt til þess að eyða því í föt sem fara manni ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál