Viðskiptafræðingurinn sem gerir einstakar neglur

Fallegar og litríkar neglur eftir Kötlu.
Fallegar og litríkar neglur eftir Kötlu. Samsett mynd.

Viðskipta- og naglafræðingurinn Katla Halldórsdóttir hefur vakið mikla athygli á Instagram-reikningi sínum þar sem hún deilir myndum af sérlega fallegum nöglum sem hún gerir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Katla slegið í gegn og hefur verið uppbókað í neglur hjá henni upp á síðkastið. Katla tók saman öll heitustu trendin fyrir sumarið og leyfði okkur að skyggnast inn í naglaheiminn með henni. 

Katla, sem er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, fór í naglaskóla árið 2019 og hefur verið að gera neglur síðan. „Það var alls ekki planið en ég gæti ekki verið sáttari með vinnuna mína í dag,“ segir Katla sem hafði sjálf aldrei farið í neglur áður en hún hóf námið.

Katla Halldórsdóttir.
Katla Halldórsdóttir.

Í dag er Katla í fullri vinnu við að gera neglur, en ásamt því rekur hún netverslunina Shimmer.is. „Þar er hægt að finna bæði vörur frá Shimmer sem er merkið mitt, en einnig frá Glitterbels sem er stórt naglamerki frá Bretlandi.“ Hún segir netverslunina vera að stækka mjög hratt, „það eru mjög spennandi hlutir að gerast á næstunni sem ég get ekki beðið eftir að segja frá.“

Hvaða trend ertu að sjá fyrir sumarið?

„Það sem ég held að verði mjög vinsælt í sumar er þykkt „french“ sem kemur sérstaklega vel út á lengri nöglum. Ég finn að það er að verða ansi vinsælt bæði hjá mér og út í heimi,“ segir Katla. „Litir eru líka að koma sterkt inn og einmitt litað eða marglita þykkt „french“.“

Hún segir náttúrulegar neglur einnig verða vinsælar í sumar. „BIAB (builder in a bottle) eða svokallað „brush on builder“ er orðið virkilega vinsælt, en það er sérstök gerð af geli sem hentar einstaklega vel fyrir þínar eigin neglur. Margar sem eru hjá mér í nöglum eru búnar að ná sínum náttúrulegu nöglum ótrúlega flottum með hjálp BIAB.“ Katla segir stuttar neglur vera komnar til að vera, „þá er litað „mini french“ og einlita neglur vinsælar enda smekklegt en á sama tíma skemmtilegt. Þar að auki held ég að allskyns látlaust skraut, eins og doppur í mismunandi litum, komi sterkt inn í sumar.“ 

Stuttar neglur með „mini french“.
Stuttar neglur með „mini french“. Mynd/Katla Halldórsdóttir.

„Síðan er skrautlegt „french“ og blóm alltaf vinsælt og virðist verða mikið trend í sumar eins og síðustu sumur.“

Samsett mynd.

Hvað finnst þér mikilvægast þegar kemur að fallegum nöglum?

„Flestir sem koma í neglur til mín vita að ég elska að hafa naglaböndin fullkomin. Mér finnst það gera neglurnar svo miklu fallegri,“ segir Katla. Hún segir góðan undirbúning algjört lykilatriði, „ef maður er ekki með gott undirlag þá endast þær ekki eins og þær eiga að endast, en þá verða neglurnar líka ekki eins fallegar.“

Katla leggur mikla áherslu á að undibúa neglurnar vel.
Katla leggur mikla áherslu á að undibúa neglurnar vel. Mynd/Katla Halldórsdóttir.

„Varðandi útlit myndi ég klárlega segja formið á nöglunum, en mér finnst mjög mikilvægt að þær séu ekki þykkar og að þær renni fallega frá þínum naglaböndum. Síðan þarf auðvitað að móta neglurnar í fallegt form og passa að allt sé eins og það á að vera. Smáatriðin gera gæfumun að mínu mati.“

Aðspurð segir Katla mörg vinsæl trend koma frá samfélagsmiðlum. „Litirnir sem fólk velur síðan fyrir þessi trend fer klárlega eftir árstíðum. Á sumrin eru allir voða litríkir á meðan brúnir tónar koma sterkir inn á haustin. Á veturna eru margir í dekkri litum og síðan er rautt og glimmer alltaf vinsælt í desember.“ 

Hvernig neglur ert þú sjálf oftast með?

„Eins mikið og ég elska bleikan og að vera með svakalegar skvísuneglur af og til þá finnst mér stuttar og látlausar neglur líka geggjaðar,“ segir Katla sem er hrifin einföldum nöglum, „ég nota síðan oft flotta og skæra liti í allskyns látlaust skraut.“ 

„Ég held að ég eigi eftir að vera mikið með stuttar BIAB neglur í sumar og pottþétt eitthvað litríkt „french“ eða sætt skraut eins og doppur sem ég er einmitt með núna.“

Einfaldar og fallegar neglur á Kötlu.
Einfaldar og fallegar neglur á Kötlu. Mynd/Katla Halldórsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál