„Ef ég hefði ekki kunnað að prjóna hefði ég drepist úr leiðindum“

Glódís Ingólfsdóttir.
Glódís Ingólfsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Glódís Ingólfsdóttir, lögfræðingur og prjónaáhugakona, byrjaði að prjóna í kórónuveirufaraldrinum og hefur ekki hætt. Hún er nýbyrjuð að prjóna á sjálfa sig en finnst skemmtilegra að prjóna litlar krúttlegar flíkur. 

„Ég lærði auðvitað þetta týpíska garðaprjón í handavinnu í grunnskóla en eins og svo margir byrjaði ég að prjóna í kórónuveirufaraldrinum því mig vantaði eitthvað að gera. Mamma kenndi mér í gegnum facetime en hún er algjör prjónasnillingur og þolinmóðasta manneskja sem ég þekki,“ segir Glódís um hvernig hún byrjaði.

„Ég prjóna langmest barnaföt, bæði á mín börn og börn vinkvenna minna. Mér finnst skemmtilegast að prjóna litlar flíkur og dásamlegt að sjá lítil kríli klæðast því sem ég hef prjónað.“

Í prjónaheiminum er hugtakið egóprjón notað um það þegar fólk prjónar á sjálft sig og segist Glódís aðeins hafa gert það einu sinni. „Þá var ég ólétt og prjónaði stóra hneppta peysu sem ég gat notað út alla meðgönguna og nota enn í dag. En það eru nokkrar flíkur á óskalistanum sem ég stefni á að prjóna á sjálfa mig einhvern tímann þegar ég nenni.“

Prjón.
Prjón. Ljósmynd/Aðsend

Hefur getað klárað allar uppskriftir með góðri hjálp

Er eitthvað í tísku núna?

„Ég myndi segja að jarðlitir væru mikið í tísku núna, algjörlega andstæðan við þegar ég var lítil. Þá var allt skræpótt og mikil litagleði en núna er mikið um einlitar flíkur í litum eins og hvítum, brúnum, gráum, dröppuðum og svo framvegis. Mér finnst jarðlitirnir fallegir en ég er líka hrifin af litum eins og bleikum og fjólubláum og finnst gaman að blanda þeim við jarðliti sem tóna vel við. Bleikt og grátt finnst mér til dæmis tóna einstaklega vel saman, og hvítur passar auðvitað við alla liti.“

Hefurðu prófað að gera þínar eigin uppskriftir?

„Nei ég hef ekki gert mína eigin uppskrift og skil ekki hvernig fólk fer að því, fyrir mér er það eins og geimvísindi. Ég dáist að þeim sem búa til sínar eigin uppskriftir og get rétt svo ímyndað mér hvað það er mikil vinna.“

Er eitthvað sem þér finnst erfitt en langar til að reyna að prjóna?

„Ég hef oft keypt uppskrift og hugsað svo að þetta sé allt of erfitt fyrir mig. En svo byrjar maður bara og fylgir uppskriftinni, rekur kannski upp nokkrum sinnum, hringir jafnvel í mömmu einu sinni eða tvisvar og þá hefst þetta. Ég hef hingað til getað prjónað allt sem ég hef byrjað á. Með aðstoð frá mömmu, vinkonum og Youtube er allt hægt.“

Ljósmynd/Aðsend

Afslappandi að prjóna

Hvert er fyrsta skrefið fyrir fólk sem vill læra að prjóna í vetur?

„Ég myndi segja að fyrsta skrefið væri bara að finna auðvelda uppskrift að einhverju sem þig langar til að prjóna, og svo er bara þolinmæði og YouTube.“

Er tími til þess að prjóna með þrjú ung börn á heimilinu?

„Það er ekki mikill tími sem ég hef til að prjóna núna, með einn tæplega eins árs orkubolta og svo stelpurnar mínar fimm og sjö ára. Ég prjónaði svakalega mikið á síðustu meðgöngu þegar ég þurfti að hætta að vinna vegna veikinda og ég er viss um að ef ég hefði ekki kunnað að prjóna hefði ég drepist úr leiðindum. En núna er það helst á kvöldin sem ég hef tíma, og svo finnst mér mjög gott að taka prjónana með þegar við förum í ferðalag og prjóna í bílnum.“

Hvenær áttu þínar bestu stundir með prjónana?

„Á kvöldin þegar krakkarnir eru sofnaðir, húsið orðið þokkalega hreint og ég búin að fara í sturtu og komin í náttföt. En það eru líka algjörar gæðastundir og ekkert sem mér finnst meira afslappandi en að prjóna í friði og ró með góða hljóðbók í eyranu eða eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu – og jafnvel smá súkkulaði til hliðar,“ segir Glódís.

Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál