Hönnuðu lopapeysur án hliðstæðu

Aníta Hirlekar, Hilda Gunnarsdóttir og Sigrún Halla Unnarsdóttir eiga heiðurinn …
Aníta Hirlekar, Hilda Gunnarsdóttir og Sigrún Halla Unnarsdóttir eiga heiðurinn af nýju lopapeysulínunni. Peysurnar eru framleiddar í VARMA en fyrr á árinu eignaðist Rammagerðin fyrirtækið. Ljósmynd/Saga Sig

Íslensku hönnuðirnir Aníta Hirlekar, Hilda Gunnarsdóttir og Sigrún Halla Unnarsdóttir eiga heiðurinn af ofursmart lopapeysum og teppum sem færa íslensku ullina út úr torfkofum og lóðbeint inn í framtíðina. Þessar fersku lopapeysur minna alls ekki á hina hefðbundnu íslensku og koma eins og ylvolg gola inn í kuldakast aðventunnar. Tilgangur verkefnisins er að fá íslenska hönnuði til að nálgast íslenska lopann á nýjan hátt. Í línunni eru bæði peysur og teppi. 

Anita Hirlekar í hönnun sinni.
Anita Hirlekar í hönnun sinni. Ljósmynd/Saga Sig

Litríkur Edensgarður úr ull

Lína Anítu Hirlekar nefnist Eden og er skreytt sterklituðum blómum á svörtum bakgrunni en munstrið í peysunum minnir á kjólalínu hennar sem notið hefur vinsælda. 

„Ferlið byrjaði með litapallettunni  en hugmyndin var að nota sterkar litasamsetningar sem mundu henta vel inn á heimili sem vantar smá lit,” segir Anita og bætir við: 

„Mér finnst mikilvægt að teppið væri fallegt, líka þegar því er kuðlað saman í sófa.“ Hægt er að snúa því á alls konar vegu og við það breytist útlit teppisins þannig að það tekur á sig sífellt nýjan blæ. „Litirnir tóna mjög vel inni á naumhyggjuheimili.” 

Anita segist hafa nokkrum sinnum unnið með prjón en aldrei á þennan máta. 

„Ég nálgaðist í rauninni hönnunina á teppinu sem eins konar listaverk inni á heimili, eða kannski meira sem nytjalist. Við fórum í gegnum alls konar hugmyndir og það var smá krefjandi ferli að útfæra yfir í prjón en engu að síður mjög skemmtilegt þar sem íslenska ullin er líka svo merkilegt hráefni.”

Peysuna segir hún hafa orðið til eftir hrárri skissu sem hana langaði að hafa eftirtektarverða og glaðlega. „Nafnið á línunni er Eden sem mér finnst henta ótrúlega vel líka, þar sem hönnunin er eins konar Edensgarður af blómum, en blómið sjálft á myndinni er mín abstraktútgáfa af íslenska blóminu Snotru.

Sigrún Halla Unnarsdóttir klæðist peysu eftir sjálfa sig.
Sigrún Halla Unnarsdóttir klæðist peysu eftir sjálfa sig. Ljósmynd/Saga Sig

Hluti af stórmerkilegri iðnsögu okkar íslendinga

Teppi og peysur Sigrúnar Höllu eru tvílitar í dökkbláu og hvítu. Hún segist hafa sótt innblástur í línuna sem hún nefnir Heimskaut í myndir þar sem horft er frá lofti ofan á ísfleka sem fljóta á hafinu.

„Það er einhver dásamleg kyrrð yfir þessum myndum á sama tíma og áhyggjur af hlýnun jarðar hríslast um mann,” segir Sigrún Halla. 

„Ég er búin að vera með annan fótinn í prjónahönnun í tæpan áratug en það er bæði tilkomið vegna tilviljana og þess að ég vildi flytja heim eftir nám. Við erum svo lánsöm að eiga frábæra ull og prjónaverksmiðjuna VARMA sem heldur vörð um bæði hráefnið og þessa arfleið okkar, að vinna úr íslensku ullinni. Eftir að ég komst með tærnar þangað inn hefur verið erfitt að losna við mig. Ég hef verið í algjörri forréttindastöðu að geta valsað þar um, en það er einstakt að hafa prjónaverksmiðju inni í miðri borg,” segir hún. 

„Að vinna með ullina er hluti af stórmerkilegri iðnsögu okkar Íslendinga og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt þar. Ég er farin að átta mig á því að ég hljóma stundum eins og Guðni Ágústsson, en í kringum árið 1800 voru 26 pör af handprjónuðum duggarasokkum jafnmikils virði og 120 fiskar. Það hlýtur að hafa verið frábær núvitund á þessum tímum. Ullin er arfleifð sem við eigum að vera stolt af en á sama tíma vera óhrædd við að leyfa henni að þróast með okkur.”

Hilda Gunnarsdóttir hönnuður.
Hilda Gunnarsdóttir hönnuður. Ljósmynd/Saga Sig

Vantaði hressari útgáfu af íslenskri lopapeysu

„Listrænn stjórnandi Rammagerðarinnar, hún Auður Gná, nálgaðist mig þegar hún var að byrja að vinna í breytingum á heildarsvip Rammagerðarinnar,“ segir Hilda Gunnarsdóttir sem hannar undir merkinu Milla Snorrason. „Ég verð að taka fram að mér finnast þær breytingar hafa tekist alveg svakalega vel. Rammagerðin er gjörbreytt og orðin svo glæsileg verslun sem styður á fallegan hátt við íslenska hönnun. Þær tóku í byrjun inn peysurnar mínar sem eru með andliti á og ég hannaði í samstarfi við listakonuna og vinkonu mína Söru Gillies fyrir næstum tíu árum síðan. Andlitið á rætur sínar að rekja í olíumálverk frá henni. Peysurnar höfðu ekki verið í sölu í smá tíma þar sem ég fór í námshlé sem breyttist svo í fæðingarorlof. Samstarfið þróaðist svo út í það að ég hannaði teppi með andlitinu sem var virkilega skemmtilegt því mig hefur lengi langað að prófa að setja andlitið á teppi. Litirnir í teppinu lögðust vel í fólk svo þau í Rammagerðinni bäðu mig um að útfæra þá í peysurnar líka,” segir Hilda og játar að henni líði vel með að hanna úr íslenskri ull og að framleiðslan fari fram á Íslandi. 

„Þetta var í raun aðalástæða þess að ég hannaði peysurnar í upphafi. Mér fannst vanta aðeins hressari útgáfu af íslenskri lopapeysu og ég vildi taka þátt í að hanna og framleiða flíkur á Íslandi og úr íslensku efni. Sú löngun kom kannski svolítið út frá pælingum um umhverfisáhrif fatnaðar, dýravelferð og að vilja hafa góða innsýn inn í aðstæður fólksins, sem sér um framleiðsluna. Einnig, og ekki minna mikilvægt, er að taka þátt í að styðja íslenskan iðnað því ef að hönnuðir hætta að framleiða á Íslandi þá auðvitað ber framleiðslan sig ekki.“

Hér má sjá peysu Sigrúnar Höllu í gulu og hvítu.
Hér má sjá peysu Sigrúnar Höllu í gulu og hvítu. Ljósmynd/Saga Sig
Aníta Hirlekar í peysu eftir sig.
Aníta Hirlekar í peysu eftir sig. Ljósmynd/Saga Sig
Hér er Hilda í peysunni og fyrir framan teppið sem …
Hér er Hilda í peysunni og fyrir framan teppið sem hún hannaði. Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál