Brautarmet féllu í röðum í Hafnarfirði

Ármann Guðmundsson í brautinni, Íslandsmethafi og sigurvegari í flokki mótorhjóla.
Ármann Guðmundsson í brautinni, Íslandsmethafi og sigurvegari í flokki mótorhjóla. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Þriðja og jafnframt síðasta kappaksturskeppni Kvartmíluklúbbsins sumarið 2020 var haldin á kappakstursbrautinni í Kapelluhrauni á laugardag. 

Í opnum flokki mótorhjóla, Superbike, kepptu sjö keppendur og voru eknar tvær umferðir af tíu hringjum og í flokki bíla, Formula 1000, öttu sex keppendur kappi, þar sem einnig voru eknar tvær umferðir á 2.412 metra brautinni.

Jóhann Leví, 2. sæti, Ármann, 1.sæti, og Kristján Örvar, 3. …
Jóhann Leví, 2. sæti, Ármann, 1.sæti, og Kristján Örvar, 3. sæti, verðlaunahafar í flokki mótorhjóla. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Ármann í sérflokki 

Búist var við harðri baráttu milli Ármanns Guðmundssonar og Sigmars Hafsteins Lárussonar í opnum flokki mótorhjóla, en Sigmar lauk fyrir nokkru æfingabúðum á Mugello á Ítalíu og hafði einnig sigrað í annarri keppni í mótaröðinni, heppnin var þó ekki með Sigmari þar sem hann féll í báðum umferðum. Ármann lauk því keppni í báðum umferðum með nokkrum yfirburðum og setti um leið glæsilegt Íslandsmet á brautinni, 1:20,199. Ármann lauk keppni dagsins með fullt hús, 50 stigum, annar var Jóhann Leví Jóhannsson með 40 stig og þriðji var Kristján Örvar Sveinsson með 32 stig, Ármann lauk tímabilinu einnig með flest stig til Íslandsmeistara, 90 stig.

Úr kappaksturkeppninni.
Úr kappaksturkeppninni. Ljósmynd/B&B Kristinsson

Jóhann Íslandsmeistari í kappakstri 

Í flokki 1.000 rúmsentimetra bíla var það Gunnlaugur Jónasson sem sigraði samanlagt eftir keppni dagsins með 44 stig, annar varð Tómas Heiðar Jóhannesson með 42 stig og þriðji Jóhann Egilsson með 37 stig. Eins og hjá hjólunum voru eknar tvær umferðir. Þá féll einnig brautarmetið í flokknum líkt og hjá hjólunum, þegar Gunnlaugur ók hringinn á 1:39,218. Gunnlaugur bætti eldra metið tvisvar, fyrst í tímatökunum þar sem hann náði pól á nýju flokkameti en bætti svo metið aftur í seinni umferð dagsins. 

Það var hins vegar Jóhann Egilsson sem var krýndur Íslandsmeistari á formúlu 1000 eftir daginn, enda búinn að vera afar sigursæll í flokknum í sumar og sigra allar umferðir fram að lokaumferðinni.

Tímabilið hefur gengið einstaklega vel og hefur umgjörðin um mótið verið til fyrirmyndar.  Báðar greinar hafa verið nokkuð vaxandi og verður spennandi að fylgjast með þróuninni næsta tímabil.

Gunnlaugur Jónasson, sigraði í gær.
Gunnlaugur Jónasson, sigraði í gær. Ljósmynd/B&B Kristinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert