Gunnlaugur: Markmiðið hjá þessu bæjarfélagi

Gunnlaugur Jónsson tekur í spaðann á Garðari Gunnlaugssyni. Báðir eiga …
Gunnlaugur Jónsson tekur í spaðann á Garðari Gunnlaugssyni. Báðir eiga stóran þátt í því að ÍA spilar í efstu deild næsta sumar. mbl.is/Eva Björk

„Kannski á ég bara eftir að melta þetta?“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna sem var nokkuð yfirvegaður og rólegur eftir að hafa stýrt ÍA upp í úrvalsdeild á fyrsta ári sínu sem þjálfari síns uppeldisliðs. ÍA tryggði sér endanlega sæti í úrvalsdeild með 2:0-sigri á KV í kvöld.

„Ég er í skýjunum með þetta. Þetta er reyndar það sem við stefndum að en það er frábært að ná því nú þegar tveir leikir eru eftir. Það er alltaf gaman að ná stóru markmiði. Ég gerði það líka með Selfoss 2009 en það var kannski svolítið öðruvísi, þar sem félagið hafði aldrei gert það áður, en það breytir því ekki að þetta er mjög góður árangur,“ sagði Gunnlaugur.

Hann segir lærisveina sýna hafa sýnt vel úr hverju þeir séu gerðir með því að vinna sig út úr erfiðum hlutum tímabilsins í sumar.

Unnu sig vel út úr áföllum

„Það tók svolítinn tíma að vinna úr síðasta sumri en svo náðum við mjög góðum deildabikar, þannig að maður var nokkuð bjartsýnn fyrir mótið. Við gerðum engin mistök í fyrsta leik gegn Selfossi en lentum svo í veseni bæði gegn Grindavík og svo Víkingi Ólafsvík, en unnum okkur út úr því. Svo töpuðum við gegn KV, og í raun þremur leikjum af fjórum á því tímabili, en unnum okkur aftur tilbaka og sigurinn í kvöld var sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Það sýnir karakter að vinna sig svona vel út úr áföllum,“ sagði Gunnlaugur, ánægður með að sætið í Pepsi-deildinni sé í höfn.

Skorað langflest mörk í efstu tveimur deildum

„Þetta er stóra markmiðið hjá þessu bæjarfélagi, aðdáendur okkar á Akranesi gera þá kröfu að við séum uppi. Mannskapurinn sem heild hefur staðið sig mjög vel. Þetta var í níunda sinn sem við höldum markinu hreinu í sumar og við höfum skorað langflest mörk í efstu tveimur deildunum, 44 mörk, og sú tölfræði svíkur ekki,“ sagði Gunnlaugur, en hann þarf þó eflaust að styrkja hópinn fyrir næsta sumar.

„Við erum með mjög góðan kjarna af leikmönnum sem við getum byggt á. Við fengum góða leikmenn síðasta vetur sem hafa stimplað sig vel inn. En að sjálfsögðu skoðum við það að styrkja hópinn. Við sjáum alveg muninn á þessum deildum. Tölfræðin hjá nýliðum í efstu deild er ekkert góð eftir að fjölgað var í 12 lið,“ sagði Gunnlaugur.

mbl.is