ÍA vann í markaveislu á Skaganum

Skagamenn lögðu Keflvíkinga að velli á Akranesi 4:2 í sannkallaðri markaveislu og unnu þar með sinn annan sigur í sumar í Pepsi-deild karla.

Skagamenn fara með sigrinum í níu stig og eru í 10. sæti en Keflvíkingar eru hins vegar í vondum málum á botni deildarinnar með fjögur stig.

Það bjuggust kannski ekki margir við markaveislu miðað við spilamennsku liðanna í sumar en ef horft er á síðustu fjórar viðureignir þessara liða mátti sannarlega búast við mörkum en í þeim hafa að meðaltali verið skoruð sex mörk!

Það tók heimamenn aðeins rúma mínútu að komast yfir en þar var að verki Arsenij Buinickj með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Ólafi Val Valdimarssyni.

Keflvíkingar mættu vankaðir til leiks og Skagamenn voru mun líflegri fyrstu fimmtán mínúturnar. 

Á 16. mínútu jafnaði Sindri Snær Magnússon metin eftir frábæra sókn Keflvíkinga sem endaði með skot Sindra fyrir utan teig, 1:1.

Sindri var svo aftur á ferðinni á 34. mínútu. Boltinn barst nokkuð óvænt til Sindra sem náðu hnitmiðuðu skoti utan fótar í stöng og inn 2:1.

Skagamenn jöfnuðu hins vegar aðeins tveimur mínútum síðar en þar var að verki fyrirliðinn Ármann Smári Björnsson eftir hornspyrnu frá Jóni Vilhelm Ákasyni, 2:2.

Aðeins þremur mínútum síðar lagði Jón Vilhelm upp annað mark þegar hann fékk sendingu á fjærstöng, tók við boltanum og sendi af stuttu færi á Albert Hafsteinsson sem skallaði knöttinn í netið, 3:2 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Keflvíkingar mættu vel innstilltir til leiks í síðari hálfeik. Þeir héldu boltanum betur sín á milli og uppskáru víti á 50. mínútu. 

Á punktinn steig Hólmar Örn Rúnarsson en hann lét Árna Snæ Ólafsson í marki Skagamanna verja frá sér, boltinn á mitt markið og Árni gerði vel að halda fótum sínum í miðju markinu.

Keflvíkingar gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin og þjörmuðu í dágóðan tíma að marki Skagamanna.

Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma gulltryggði hins vegar Ásgeir Marteinsson sigur Skagamanna eftir að hafa sloppið einn í gegn, lokatölur 4:2.

Hægt er að fylgjast með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.

ÍA 4:2 Keflavík opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is