Vonandi einhver gullmoli sem slær í gegn

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Eggert Jóhannesson

„Þetta eru stór verkefni og eru hönnuð út frá því að við erum að fara á lokakeppnina. Þrír leikir í janúar eru óvanalegt gegn sterkum mótherjum og það er gaman að því,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag eftir að hann kynnti landsliðshópa fyrir komandi vináttuleiki í janúar.

Sjá: Ný andlit í íslenska landsliðshópnum

Ísland spilar tvo leiki í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, fyrst gegn Finnum þann 13. janúar og svo gegn heimamönnum þann 16. janúar. Síðar verður svo haldið til Bandaríkjanna þar sem Ísland mætir liði heimamanna í Kaliforníu þann 31. janúar.

Ekki er um alþjóðlega leikdaga að ræða og því er ekki hægt að velja sterkasta liðið og því fá minni spámenn ef svo má segja sæti í hópnum að þessu sinni. Alls eru fjórir valdir sem eiga ekki landsleik á bakinu en Heimir segir að fleiri hafi bankað á dyrnar.

„Já og verða örugglega fleiri fyrir Ameríkuferðina. Svo eru menn sem hafa ekki verið mikið hjá okkur, til dæmis Kjartan Henry [Finnbogason] sem hefur verið að spila vel í Danmörku, og fleiri sem eiga landsleiki á bakinu en hafa ekki verið í hópnum lengi. Það verður gaman að sjá alla þessa leikmenn,“ sagði Heimir, og bætti við að ekkert félag hafi staðið í vegi fyrir því að sínir leikmenn fari í þessi verkefni sem hann segir mjög ánægjulegt.

Leikirnir í janúar eru liður í undirbúningnum fyrir lokakeppni EM.
Leikirnir í janúar eru liður í undirbúningnum fyrir lokakeppni EM. AFP

Dyrunum aldrei lokað á neinn

Þetta eru fyrstu leikir Íslands á árinu í undirbúningi sínum fyrir lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi í sumar. Liðið spilar svo tvo leiki í mars þar sem hægt er að velja leikmenn frá stærstu deildum Evrópu. Eru þessi verkefni í janúar því ef til vill síðasta tækifæri fyrir marga að sýna sig og sanna fyrir EM?

„Það má í rauninni segja það, en auðvitað verða aldrei lokaðar dyr á einn né neinn. Auðvitað er þannig að þetta er tækifæri fyrir leikmenn að sýna sig og það er gaman að gefa þeim tækifæri. Það er ekki alltaf sem það er hægt og það eru fáir gluggar til þess að leyfa mönnum að spila. Auðvitað getum við því ofmetið eða vanmetið leikmenn sem koma svo til skoðunar,“ sagði Heimir og nefnir að þessir leikir í janúar hafi oft skilað sér til framtíðar.

„Fyrir tveimur árum tókum við til dæmis Theódór Elmar [Bjarnason] og Jón Daða [Böðvarsson] í janúarferð og þeir hafa meira og minna verið að spila síðan þá. Það geta því alltaf dottið inn skemmtilegir leikmenn og við vonum að það sé einhver gullmoli sem slær í gegn,“ sagði Heimir.

Jón Daði Böðvarsson er á meðal þeirra sem hafa sprungið …
Jón Daði Böðvarsson er á meðal þeirra sem hafa sprungið út eftir tækifæri í janúarverkefnum. mbl.is/Golli.

Erfitt að fá þjóðir hingað til að spila

Meðal leikmanna sem valdir eru í hópinn er Eiður Smári Guðjohnsen, sem er án félags. Heimir segir hins vegar að ef Eiður finni sér lið gæti þurft að endurskoða veru hans í hópnum.

„Ég veit bara að hann er í viðræðum við lið og er að skoða sín mál. Við veljum hann í þessi verkefni en við vitum að það getur breyst. Vonandi kemst hann með okkur, þó það væri ekki nema í annað verkefnið. Það væri gott bæði fyrir okkur og hann.“

Það er stórt ár framundan og vonast Ísland til að geta spilað sem flesta vináttuleiki fyrir stóra sviðið í Frakklandi. Það stefnir því allt í metfjölda leikja á árinu, en eins og staðan er núna verða aðeins tveir spilaðir hér á landi. Það er í undankeppni HM næsta haust.

„Við erum enn að reyna að fá leiki heima, en lítur ekki vel út. Það er leiðinlegt að spila svona marga leiki en bara tvo heima. Auðvitað eru veðrið og vallaraðstæður þannig að það eru fá tækifæri til að spila leik á Laugardalsvelli. En við erum að reyna að semja við þjóðir að koma hingað að spila, þó það gangi erfiðlega,“ sagði Heimir.

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru miklir vinir.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru miklir vinir. Eggert Jóhannesson

Lars einn af mínum betri vinum í dag

Mikið var gert úr orðum Heimis í viðtali við Viðskiptablaðið um áramót, þar sem haft var eftir honum að hann fengi ekkert út úr því að starfa lengur með Lars Läcerback eftir lokakeppni EM. Samningur Lars rennur út eftir lokakeppnina og Heimir átti þá að taka einn við, en KSÍ hefur opinberað vilja sinn um að halda Lars.

„Þetta var kannski illa orðað eða ég sagði ekki nóg. Þetta var túlkað eins og ég væri að hugsa um að hætta ef Lars yrði áfram, sem er eins langt frá mínum ætlunum og hægt er. Minn samningur hljóðar þannig að ég þjálfa einn liðið eftir EM og ef Lars verður áfram verð ég bara að semja upp á nýtt,“ sagði Heimir og bætti við eins og alþjóð veit að þeir félagar ná einstaklega vel saman.

„Það vita það allir sem hafa hlustað á mig hversu mikla virðingu ég ber fyrir kallinum og hversu mikið ég hef lært af honum. Hann er í rauninni einn af mínum betri vinum í dag og ég myndi alltaf vilja starfa með honum áfram. Ég verð greinilega bara að vanda betur hvað ég segi,“ sagði Heimir Hallgrímsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert