Sennilega besta miðja í heimi

Þorgrímur Þráinsson og Heimir Hallgrímsson glaðbeittir eftir sigurinn á Tyrkjum …
Þorgrímur Þráinsson og Heimir Hallgrímsson glaðbeittir eftir sigurinn á Tyrkjum í síðasta leik í undankeppninni. mbl.is/Golli

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, segir að landslið Króatíu með menn eins og Luka Modric, Ivan Rakitic og Mateo Kovacic innanborðs sé sennilega með bestu miðjumenn allra landsliða í heiminum.

Heimir sat fyrir svörum á fréttamannafundi á Maksimir-leikvanginum í dag og var meðal annars spurður út í kosti króatíska liðsins sem mætir Íslandi í undankeppni HM á morgun:

„Þeir hafa ýmsa kosti. Einstaklingarnir í liðinu eru stórkostlegir og spila á hærra stigi en okkar leikmenn. Þeir eru því vanir því að spila fótbolta dagsdaglega í hæsta gæðaflokki. Liðið er líka mjög sterkt, þeir spila boltanum mjög vel og miðjan þeirra er líklega sú besta sem nokkurt landslið hefur,“ sagði Heimir, en þeir Modric og Kovacic leika báðir hjá Evrópumeisturum Real Madrid og Rakitic með Spánarmeisturum Barcelona.

„Þeir halda boltanum vanalega mjög vel. Tölfræðin talar sínu máli, liðið hefur ekki tapað á heimavelli síðan 2013 og undir stjórn núverandi þjálfara bara tapað einum leik, gegn Portúgal á EM. Þeir hafa marga kosti. Það er ekki erfitt að leikgreina Króata en þeir gera það svo vel að það er erfitt að bregðast við því,“ sagði Heimir.

Tapið í Zagreb var á vissan hátt gott

Ísland hefur ekki riðið feitum hesti frá fyrri viðureignum sínum við Króata. Fyrir ellefu árum tapaði Ísland 4:0 á Maksimir-vellinum, og árið 2013 2:0 í seinni umspilsleiknum um sæti á HM í Brasilíu. Telur Heimir að bilið á milli liðanna hafi lokast síðan þá?

„Ég man ekkert eftir leiknum fyrir 11 árum en ég man vel eftir leiknum fyrir þremur árum. Flestir leikmenn okkar voru hér þá. Það var vendipunktur þrátt fyrir slæm úrslit. Eftir það hefur þetta lið ekki litið til baka og því var þetta á vissan hátt góður leikur fyrir okkur. Við lærðum mikið og höfum bætt ýmislegt í sambandi við liðið, og líka utan þess. Vonandi getum við sýnt hvað við höfum bætt okkur á vellinum á morgun,“ sagði Heimir.

Ísland verður án Alfreðs Finnbogasonar, Kolbeins Sigþórssonar og Björns Bergmanns Sigurðarsonar á morgun. Heimir gaf ekkert upp um hver myndi leysa Alfreð af hólmi í fremstu víglínu, en mun Ísland sakna hans?

„Vonandi söknum við hans ekki neitt. Hann hefur verið mjög góður fyrir okkur og skorað í hverjum leik, og maður vill hafa svona leikmann, en vonandi kemur einhver í staðinn sem sér um að skora.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert