Tveggja marka tap í Zagreb

Króatar eru einir á toppi I-riðils í undankeppni HM karla í knattspyrnu eftir 2:0 sigur á Íslendingum í uppgjöri tveggja efstu liðanna á Maksimir-vellinum í Zagreb í dag.

Króatía er með 10 stig, Ísland 7, Úkraína 5, Tyrkland 5, Finnland 1 og Kósóvó 1 stig. Úkraína og Finnland eiga eftir að mætast í kvöld og Ísland gæti því dottið niður í þriðja sætið að umferðinni lokinni.

Heimir Hallgrímsson stillti Gylfa Þór Sigurðssyni upp fyrir aftan Jón Daða Böðvarsson í sókn Íslands, en Birkir Bjarnason og Aron Einar Gunnarsson voru saman á miðjunni. Þá var Hörður Björgvin Magnússon í stöðu vinstri bakvarðar en Ari Freyr Skúlason hafði verið meiddur í aðdraganda leiksins.

Fyrri hálfleikur var fjörugur. Ísland byrjaði leikinn vel og átti tvær ágætar tilraunir áður en  hægri kantmaðurinn Marcelo Brozovic kom Króötum yfir. Brozovic skoraði með hnitmiðuðu skoti af vítateigsboganum eftir gott þríhyrningsspil, 1:0.

Íslendingar vildu fá vítaspyrnu eftir hálftíma leik þegar Mario Mandzukic virtist gefa Birki Bjarnasyni olnbogaskot í skallaeinvígi í vítateig Króata. Ekkert var dæmt, og ekki heldur þegar Kári Árnason handlék knöttinn í vítateig Íslands skömmu síðar.

Ivan Perisic fékk dauðafæri á 42. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri, en Hannes Þór Halldórsson varði skot hans af markteig vel. Það vantaði oft aðeins lokahnykkinn á góðar sóknir íslenska liðsins en staðan í hálfleik var 1:0, Króötum í vil.

Króatar skiptu Luka Modric inn á í upphafi seinni hálfleiks í von um að ná betri stjórn á leiknum. Ísland fékk hins vegar fyrsta almennilega færi seinni hálfleiks og það var dauðafæri. Aron átti snilldarsendingu á Jóhann Berg sem skildi bakvörð Króata eftir og kom boltanum inn í teig þar sem Gylfi renndi honum áfram á Jón Daða. Jón Daði renndi sér í boltann og setti hann rétt framhjá markinu, en Danijel Subasic hafði komið út og lokað vel á skotið.

Modric átti hættulegt skot skömmu síðar en Hannes varði vel, og aftur eftir stórhættulegan skalla Perisic. Íslendingum gekk illa að búa sér til færi og Heimir gerði tvöfalda skiptingu á 75. mínútu, þegar Arnór Ingvi Traustason og Viðar Örn Kjartansson komu inn á fyrir Elmar og Jón Daða. Það breytti hins vegar litlu og Subasic þurfti í raun aldrei að verja skot í leiknum.

Á 90. mínútu innsiglaði Marcelo Brozovic sigur Króata með öðru marki þegar hann lék í átt að vítateig Íslands og skaut föstu skoti í hægra hornið, 2:0.

Í uppbótartímanum fékk Ivan Perisic rauða spjaldið þegar hann renndi sér alltof seint í Birki Bjarnason á vallarhelmingi Íslands.

Króatía 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Marcelo Brozovic (Króatía) skorar 2:0 - Brozovic fékk boltann á miðjunni og var aleinn, gat hlaupið óáreittur að vítateig Íslands þar sem Kári rann til og Brozovic fékk því að skjóta án þess að varnarmaður væri nálægt honum, neðst í hægra hornið. Skiljanlegt að íslenska liðið hafi reynt að taka áhættu til að jafna metin í lokin en í staðinn bættu Króatar við marki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert