„Hvers vegna ætti ég að hætta í fótbolta?“

Gunnleifur Gunnleifsson
Gunnleifur Gunnleifsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er oft spurður hvort ég sé með einhverja leyniformúlu en svo er ekki. Ég verð vissulega 42 ára á föstudaginn en það er ekki nokkur ástæða til þess fyrir mig að hætta í fótbolta á næstunni,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks og fyrrverandi landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, við Morgunblaðið.

Gunnleifur náði tveimur stórum áföngum í leik ÍBV og Breiðabliks í Pepsi-deild karla á sunnudaginn, þegar liðin skildu jöfn, 1:1, á Hásteinsvelli.

Hann varð fyrsti leikmaðurinn í sex ár til að spila 100 leiki í röð í efstu deild karla í knattspyrnu hér á landi, án þess að missa úr leik, en síðastur til að ná þeim áfanga var landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson árið 2011.

Þá lék Gunnleifur sinn 250. leik í efstu deild á sunnudaginn og hann er aðeins áttundi leikmaðurinn í sögu íslenskrar knattspyrnu sem nær þeim leikjafjölda í deildinni.

Hann nálgast jafnframt sinn 400. deildaleik á ferlinum, getur fyrir lok tímabilsins náð þeim áfanga í leikjum innanlands og erlendis samanlagt, og snemma á næsta ári innanlands. Gunnleifur er nefnilega ákveðinn í því að halda áfram í a.m.k. eitt ár enn að þessu tímabili loknu.

„Ég tel að ég sé í betra standi núna en þegar ég varð Íslandsmeistari með FH árið 2012. Mér finnst ég vera betri markvörður núna og tel líka að ég gefi meira af mér til leikmannahópsins í klefanum en áður. Ég hugsa fyrst og fremst vel um mig án þess að það séu einhverjar öfgar. Ég borða mína grillsteik þrisvar í viku og tek lýsi, ásamt því að æfa vel.

Svo er lykillinn að þessu líka að eiga góða eiginkonu. „A happy wife is a happy life,“ eins og Englendingarnir segja. Ef ég horfi á líkamann og getuna, þá er ég algjörlega tilbúinn til að halda áfram. Ef Breiðablik vill halda mér að þessu tímabili loknu, þá er það flott, en ef þeir vilja það ekki þá spila ég bara einhvers staðar annars staðar. Hversvegna ætti ég að hætta í fótbolta? Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri,“ sagði markvörðurinn.

Sjá allt viðtalið við Gunnleif í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »