Valur getur orðið meistari og ÍA fallið

Valsmenn fagna marki.
Valsmenn fagna marki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Úrslitin á toppi og botni Pepsi-deildar karla í knattspyrnu geta ráðist í kvöld en 19. umferð deildarinnar fer fram í kvöld.

Valsmenn geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en til þess þurfa þeir að vinna KA fyrir norðan og treysta á að Stjarnan og FH vinni ekki sína leiki. Valsmenn gætu verið í þeirri stöðu að fagna titlinum á heimleiðinni frá Akureyri. Leikur þeirra við KA-menn hefst klukkan 17 en Stjarnan spilar sinn leik ekki fyrr en klukkan 19.15.

Valur er með 40 stig í efsta sæti, Stjarnan er með 31 og FH 28 en á leik til góða.

ÍA getur fallið úr deildinni í kvöld en tapi liðið fyrir Fjölni í Grafarvogi og Víkingur Ólafsvík leggur Stjörnuna að velli í Garðabænum er ljóst að Skagamenn eru fallnir. ÍA er í neðsta sætinu með 13 stig, ÍBV er með 19 og Víkingur Ólafsvík og Fjölnir hafa 20 stig.

Leikir kvöldsins:

17.00 KA - Valur
17.00 Víkingur - FH
17.00 Breiðablik - KR
17.00 Fjölnir - ÍA
17.00 ÍBV - Grindavík
19.15 Stjarnan - Víkingur Ólafsvík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert