Andri fær tvær tilraunir

Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason. Ljósmynd/Víkurfréttir

Verður Andri Rúnar Bjarnason frá Bolungarvík fyrsti knattspyrnumaðurinn í sögunni til að skora 20 mörk í efstu deild karla hér á landi? Hann á góða möguleika á að slá 39 ára gamalt markamet Péturs Péturssonar sem skoraði 19 mörk í 17 leikjum sem hann lék fyrir Skagamenn í deildinni árið 1978.

Pétur, sem var 19 ára, sló þá fimm ára gamalt met Hermanns Gunnarssonar sem gerði 17 mörk fyrir Val árið 1973, í aðeins 14 leikjum.

Andri er með 18 mörk í 20 leikjum Grindvíkinga, sem eiga eftir útileik við KA og heimaleik við Fjölni í tveimur síðustu umferðum Íslandsmótsins.

Met Péturs hefur þrisvar verið jafnað en 20 marka múrinn hefur reynst íslenskum sóknarmönnum ókleifur hingað til þótt litlu hafi munað, sérstaklega árið 1993.

Skoraði ekki í lokaumferðinni

Guðmundur Torfason jafnaði metið fyrstur árið 1986 þegar hann skoraði 19 mörk í 18 leikjum fyrir Íslandsmeistara Fram. Guðmundur skoraði þá 19. markið í 17. og næstsíðustu umferð þegar hann gerði tvö mörk í 4:1-sigri Framara á Víði úr Garði, það seinna á 62. mínútu leiksins.

Guðmundur náði ekki að skora í lokaumferðinni frekar en aðrir liðsfélagar hans en Fram tryggði sér þá meistaratitilinn með 0:0-jafntefli við KR.

Nánar er fjallað um markahróka efstu deildar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.