Leikur sem við hefðum getað unnið

Byrjunarliðið í leiknum gegn Albönum í haust.
Byrjunarliðið í leiknum gegn Albönum í haust. mbl.is/Golli

„Þetta var leikur sem við hefðum alveg getað unnið. N-Írarnir voru meira með boltann en við fengum hættulegri færi í leiknum,“ sagði Tómas Ingi Tómasson, aðstoðarþjálfari íslenska U-21 árs landsliðs karla í knattspyrnu, eftir markalaust jafntefli gegn N-Írum í undankeppni EM í kvöld.

„Við áttum nokkrar mjög góðar skyndisóknir og opin færi sem við náðum að skapa okkur og hefðum átt að nýta eitthvað af þeim. En svo heilt yfir þá held að ég verði að segja að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða úr þessum leik,“ sagði Tómas Ingi.

Ísland er áfram í fjórða sæti riðilsins á eftir Spánverjum, N-Írum og Slóvökum. Það stefnir allt í að Spánverjar vinni riðilinn og tryggi sér sæti í úrslitakeppninni sem fram fer á næsta ári en baráttan um annað sætið er mjög hörð. Stigahæstu liðin í öðru sæti komast einnig áfram.

Albert Guðmundsson fyrirliði U21 árs landsliðsins.
Albert Guðmundsson fyrirliði U21 árs landsliðsins. Ljósmynd/Golli

„Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að tapa ekki og þó svo maður sé alltaf svekktur að vinna ekki leiki, þar sem maður er orðinn mjög kröfuharður, þá getum við alveg sætt okkur við þessi úrslit. Við eigum fjóra leiki eftir í riðlinum sem allt eru heimaleikir og við stefnum á að taka tólf stig úr þeim og ég tel að við eigum alveg möguleika á því. Liðið okkar er alltaf að verða betra og betra. Það er samstilltara, varnarleikurinn er góður og skyndisóknirnar góðar. Það voru fjórir strákar fæddir 1999 sem spiluðu leikinn í kvöld og það var mjög jákvætt,“ sagði Tómas Ingi.

Albert Guðmundsson og Samúel Kári Friðjónsson spiluðu báðir allan leikinn í kvöld en þeir spiluðu sinn hvorn hálfleikinn með A-landsliðinu gegn Mexíkó í Bandaríkjunum um nýliðna helgi. Spurður hvort hann hafði merkt einhverja þreytu í þeim sagði Tómas;

„Nei alls ekki. Þeir allavega sýndu það ekki inni á vellinum. Þeir voru duglegir og stóðu sig báðir með prýði.“

Voru einhverjir sem stóðu upp úr í íslenska liðinu?

„Varnarleikurinn í heild var mjög góður hjá liðinu og miðverðirnir úr Fjölni þeir Torfi og Hans Viktor voru virkilega góðir. Torfi var að spila sinn fyrsta leik með U-21 ára liðinu og hann stóð sig frábærlega,“ sagði Tómas Ingi.

Leikirnir sem Ísland á eftir að spila eru:

6. september: Ísland - Eistland
11.september: Ísland - Slóvakía
11.október: Ísland - Norður-Írland
16.október: Ísland - Spánn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert