Stór áskorun fyrir toppliðið

Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals reynir að stöðva Arnþór Ara …
Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals reynir að stöðva Arnþór Ara Atlason úr Breiðabliki í leik liðanna í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm af sex leikjum sjöttu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í dag og kvöld. Topplið Breiðabliks fær sína stærstu áskorun til þessa á tímabilinu þegar það sækir heim Íslandsmeistara Vals. Viðureignin hefst klukkan 20.00 á Hlíðarenda.

Breiðablik er eina ósigraða liðið í deildinni og er fimm stigum á undan Valsmönnum sem sitja í 8. sætinu en þeim hefur ekki tekist að vinna í fjórum leikjum í röð.

Valsmenn unnu báða leiki liðanna í fyrra, fyrst 2:1 í Kópavogi þar sem Einar Karl Ingvarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson tryggðu Val sigur eftir að Hrvoje Tokic hafði komið Blikum yfir. Kristinn Ingi Halldórsson skoraði sigurmark Valsmanna, 1:0, í seinni leiknum á Hlíðarenda.

Það var fyrsti heimasigur Vals á Breiðabliki í sex ár en Breiðablik hafði þar á undan mjög gott tak á Val og vann átta af tíu leikjum liðanna frá 2012 til 2016.

Félögin mættust fyrst í efstu deild árið 1971 og mikið jafnræði hefur verið með þeim síðan. Í 62 viðureignum í deildinni hefur Valur unnið 25 sinnum en Breiðablik í 23 skipti.

Fyrsti leikur liðanna fór fram á Melavellinum árið 1971 og þá skoruðu Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson mörk Blika í 2:0 sigri.

Hólmar Örn Rúnarsson og Jonathan Glenn í leik Keflavíkur og …
Hólmar Örn Rúnarsson og Jonathan Glenn í leik Keflavíkur og ÍBV fyrir þremur árum. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Jafnræði með botnliðunum

Botnlið Keflavíkur og ÍBV mætast í fyrsta leik dagsins á Nettóvellinum í Keflavík klukkan 16.30 og þar er heldur betur jafnræði á milli tveggja félaga. Þau hafa mæst í 71 skipti í efstu deild frá 1968 og hafa unnið 29 leiki hvort.

Keflavík hefur unnið sex af síðustu átta heimaleikjum gegn ÍBV, síðast 3:1 árið 2015 þegar Hörður Sveinsson, Einar Orri Einarsson og Leonard Sigurðsson skoruðu fyrir Keflavík en Jonathan Glenn gerði mark ÍBV.

Fyrstu leikir liðanna voru árið 1968 þar sem ÍBV vann 2:0 í Eyjum og 1:0 í Keflavík. Sævar Tryggvason skoraði fyrir Eyjamenn í báðum leikjunum.

Bæði lið hafa byrjað tímabilið illa og eru einu liðin í deildinni sem hafa ekki unnið leik. Þau eru jöfn og neðst á botninum með 2 stig.

Varnarjaxlarnir Halldór Smári Sigurðsson og Hans Viktor Guðmundsson takast á …
Varnarjaxlarnir Halldór Smári Sigurðsson og Hans Viktor Guðmundsson takast á í leik Fjölnis og Víkings. mbl.is/Golli

Sjö heimasigrar í átta leikjum

Víkingur fær Fjölni í heimsókn í Fossvoginn klukkan 17 en þar mætast tvö lið sem eru bæði með 6 stig og hafa bæði gert þrjú jafntefli í fyrstu fimm umferðunum.

Heimavöllur skiptir miklu máli hjá þessum félögum en í sjö leikjum af átta þeirra á milli í efstu deild hefur heimaliðið sigrað. Fjölnir hefur unnið alla sína leiki gegn Víkingi í Grafarvogi en Víkingar þrjá af fjórum leikjum liðanna í Fossvogi.

Í fyrra vann Víkingur 2:1 í Fossvogi þar sem Ivica Jovanovic og Vladimir Tufegdzic skoruðu fyrir Víking en Þórir Guðjónsson fyrir Fjölni. Í seinni leiknum í Grafarvogi vann Fjölnir 3:1 og Þórir skoraði aftur, sem og þeir Birnir Snær Ingason og Ivica Dzolan fyrir Fjölni en Ívar Örn Jónsson gerði mark Víkings.

Kennie Chopart og Archange Nkumu í leik KR og KA …
Kennie Chopart og Archange Nkumu í leik KR og KA í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

KA hefur beðið í 37 ár eftir útisigri á KR

KR tekur á móti KA á Alvogen-vellinum í Vesturbænum klukkan 17.00. KR-ingar mæta til leiks með 6 stig í sjöunda sæti og KA með 5 stig í tíunda sæti. Liðin eiga það sameiginlegt að hafa aðeins unnið einn leik hvort í fyrstu fimm umferðunum og a.m.k. annað þeirra þarf að sætta sig við að bíða lengur eftir næsta sigri.

Leikur liðanna í Vesturbænum í fyrra endaði 0:0. Öllu meira fjör var í leik þeirra á Akureyri en þá vann KR 3:2 þar sem Tobias Thomsen, Kennie Chopart og Óskar Örn Hauksson skoruðu fyrir Vesturbæinga og Elfar Árni Aðalsteinsson bæði mörk KA.

Liðin eru 37 ár síðan KA vann sinn fyrsta og eina sigur á KR í efstu deild í Reykjavík. Það var árið 1981 þegar Hinrik Þórhallsson skoraði sigurmark norðanmanna á Melavellinum, 1:0. Í kjölfarið skoraði KA ekki mark í næstu níu heimsóknum í Vesturbæinn og hefur aðeins gert tvö mörk þar síðan, fimm alls í fjórtán útileikjum gegn KR.

KR hefur samtals unnið 14 af 28 leikjum gegn KA í efstu deild frá 1979 en KA hefur unnið átta sinnum, þar af sjö sinnum á Akureyri.

Guðjón Baldvinsson, Brynjar Ásgeir Guðmundsson og Gunnar Þorsteinsson í leik …
Guðjón Baldvinsson, Brynjar Ásgeir Guðmundsson og Gunnar Þorsteinsson í leik Stjörnunnar og Grindavíkur í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Ólík lið mætast í Garðabæ

Stjarnan og Grindavík mætast á Samsung-vellinum í Garðabæ klukkan 19.15 en Grindvíkingar eru eitt þriggja liða sem eiga möguleika á að vera á toppnum að sex umferðum loknum.

Grindavík er með 10 stig í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Breiðabliki. Stjarnan er í fimmta sætinu með 6 stig.

Þarna takast á ólík lið. Stjarnan hefur skorað flest mörk allra á tímabilinu, tólf, en líka fengið flest á sig, tíu. Langflest mörk eru skoruð í leikjum Garðabæjarliðsins, samtals 22.

Grindavík hefur aðeins skorað 6 mörk en ekki fengið á sig nema þrjú, minnst allra í deildinni ásamt Breiðabliki. Aðeins níu mörk hafa því verið skoruð í leikjum Grindavíkurliðsins og bara Víkingar eru með færri mörk í sínum leikjum, átta.

Í fyrra vann Stjarnan stórsigur, 5:0, í viðureign liðanna í Garðabæ þar sem Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu, Baldur Sigurðsson og Hilmar Árni Halldórsson sitt markið hvor. Fyrri leikurinn í Grindavík endaði hinsvegar 2:2 þar sem Baldur var líka á meðal markaskoraranna.

Liðin hafa mæst 16 sinnum í efstu deild frá 1996 og hefur Stjarnan unnið sex leikjanna en Grindavík fimm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert