„Þetta verður alger 50/50 leikur“

Þorsteinn Halldórsson býst við hörkuleik við Val í undanúrslitum bikarkeppni …
Þorsteinn Halldórsson býst við hörkuleik við Val í undanúrslitum bikarkeppni kvenna. Eggert Jóhannesson

Í hádeginu var dregið í undanúrslit í bikarkeppni kvenna í knattspyrnu en drátturinn fór fram í höfuðstöðvum KSÍ. Breiðablik og Valur mætast á Kópavogsvelli en Fylkir og Stjarnan mætast á Fylkisvelli. Báðir leikirnir fara fram laugardaginn 21. júlí.

Þorsteinn H. Halldórsson þjálfari Breiðabliks sagði í viðtali við mbl.is að leikurinn legðist vel í sig. „Þetta verður skemmtilegur og hörkuleikur. Þær eru með mjög gott lið en ég tel við séum ekkert síðri. Ég held að það sjái það allir að liðin eru svipuð af styrkleika og þetta verður alger 50/50 leikur.“

Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari Stjörnunnar sagðist vera spenntur fyrir því að mæta Fylki: „Það er fyrst og fremst ánægjulegt að vera í undanúrslitum. Það verður mjög verðugt verkefni að spila við Fylki. Þær spiluðu mjög vel á móti ÍBV og slógu þær út og eru búnar að standa sig vel í deildinni þannig þetta verður hörku skemmtilegt verkefni.“

Þrátt fyrir að Fylkir sé deild fyrir neðan Stjörnuna sagðist Ólafur ekki óttast vanmat hjá sínu liði: „Ég held að ef þig langar ekki mikið í úrslitaleikinn á Laugardalsvellinum þá áttu ekki að vera inn á vellinum. Þannig ég held að það verði ekkert vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert