Allt annar leikur ef ég hefði jafnað

FH-ingurinn Jákup Thomsen hefur betur gegn Arnóri Sveini Aðalsteinssyni KR-ingi …
FH-ingurinn Jákup Thomsen hefur betur gegn Arnóri Sveini Aðalsteinssyni KR-ingi í Kaplakrika í dag. mbl.is/Eggert

Kennie Chopart, sóknarmaður KR, og Rúnar Kristinsson, þjálfari Vesturbæinga, voru sammála um að dauðafærið sem Chopart fékk í fyrri hálfleik hefði vegið afar þungt í viðureign liðsins gegn FH í Kaplakrika í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

FH vann 4:0 en Gunnar Nielsen varði frá Chopart úr umræddu dauðafæri á 29. mínútu leiksins, og í kjölfarið var bjargað naumlega eftir skot Björgvins Stefánssonar. Þar gátu KR-ingar jafnað í 1:1 en í staðinn hirti FH öll stigin í þessum mikilvæga leik liðanna sem berjast nú um Evrópusæti og eru jöfn að stigum.

„Það er alltaf áfall að tapa svona stórt en svona er fótboltinn. Maður tapar stundum illa, við  erum niðurbrotnir og sárir yfir þessu núna, en þurfum að taka það allt með okkur og vera klárir í að ná okkar markmiðum í þremur síðustu leikjunum í mótinu,“ sagði Chopart við mbl.is.

„Þeir nýttu færin sín vel en við sköpuðum okkur ekki nógu mikið af færum þó að við værum mikið með boltann. Ef ég hefði náð að jafna úr dauðafærinu sem ég fékk, og staðan hefði verið 1:1, hefði þetta verið allt annar leikur. Það var líklega vendipunktur leiksins.

Í leikhléinu hvöttum við hver annan og ætluðum okkur að vinna upp forskotið í seinni hálfleik. Við byrjuðum ágætlega en svo kom þriðja markið og það drap okkur. Við erum enn í fjórða sætinu þrátt fyrir allt og þetta er enn allt í okkar höndum fyrir síðustu umferðirnar. Við vorum búnir að spila vel undanfarnar vikur, fram að þessum leik. FH er gott lið,  getur unnið alla 4:0, en þetta er einfalt. Við þurfum þrjá sigra," sagði Kennie Chopart.

Leikurinn dó eftir þriðja markið

„Þetta var ekki 4:0 leikur, þannig séð, en við fengum á okkur fjögur mörk í leik þar sem við voru meira með boltann og leikaðferð FH-inga heppnaðist fullkomlega," sagði Rúnar við mbl.is.

„Sérstaklega þegar þeir skoruðu fyrsta markið, þá opnuðum við okkur meira, en við fengum fína möguleika til að jafna metin. Kennie komst einn í gegn og Björgvin fékk færi í kjölfarið. Við nýttum það ekki og fyrir vikið komust þeir í 2:0 rétt fyrir hálfleik. Í hálfleik  vorum við sannfærðir um að við gætum snúið þessu við og komið sterkari inn í seinni hálfleikinn, nýtt kantana betur og reynt að koma boltanum betur inn í teiginn. Fyrirgjafirnar voru búnar að  vera lélegar hjá okkur.

Þegar við vorum á fínum kafla snemma í seinni hálfleik skoruðu þeir þriðja markið og þar gerðu þeir út um þetta. Þá varð þetta leikur sem bara dó, það gerðist ekkert hjá hvorugu liði eftir það og það var  fúlt að fá þetta fjórða mark á sig þarna í restina.

Snýst vonandi ekki um markatölu í lokin

KR heldur fjórða sætinu, naumlega, á betri markatölu en FH þrátt fyrir stórt tap og Rúnar sagði að markmiðið væri áfram það sama.

„Já, við erum á fínum stað ennþá, en markatalan breyttist mikið í dag, þarna varð átta marka sveifla milli liðanna og það er töluvert mikið. Það hefði skipt miklu máli fyrir okkur ef mörkin hefðu verið einu færra. En vonandi snýst þetta ekki um markatölu í lokin, við ætlum að reyna að klára þetta með því að vinna leikina þrjá sem við eigum eftir. Það verður erfitt, það er enginn leikur gefins í þessari deild. Við erum hægt og rólega að vinna okkur í átt að bestu liðunum í deildinni, erum ekki alveg komnir þangað, en til þess þurfum við að halda áfram að bæta okkur. Við höfum verið á góðum skriði en fengum skell í dag," sagði Rúnar Kristinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert