Við ætlum okkur á HM

Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir. mbl.is/Rax

Það er mikið í húfi hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu í leiknum gegn Tékkum á Laugardalsvelli í dag en með sigri tryggir Ísland sér sæti í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi á næsta ári.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi á Laugardalsvellinum á laugardaginn og með þeim ósigri varð draumurinn um að enda í efsta sæti riðlakeppninnar að engu. En með sigri í dag kemst Ísland í umspil þar sem fjórar þjóðir munu berjast um eitt laust sæti á HM.

„Úrslitin á móti Þjóðverjunum voru mikil vonbrigði en við erum búnar að hrista þann leik af okkur og erum með alla einbeitingu á leikinn á móti Tékkunum. Við vissum að það yrði allt að ganga upp hjá okkur til að eiga möguleika á að vinna Þjóðverjana en því miður reyndust þeir sterkari í leiknum en við,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir í samtali við mbl.is en hún lék sinn 16. A-landsleik á laugardaginn.

Ingibjörg Sigurðardóttir og Sif Atladóttir í leiknum gegn Þjóðverjum á …
Ingibjörg Sigurðardóttir og Sif Atladóttir í leiknum gegn Þjóðverjum á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er ekkert sem heitir; við verðum að vinna Tékkana. Við erum búnar að fara vel yfir þeirra lið. Tékkarnir eru með hörkugott lið og við gerum okkur alveg grein fyrir að þetta verður mjög erfiður leikur en við ætlum okkur ekkert annað en sigur. Tékkarnir eru mjög beinskeyttir en við teljum okkur vita um veikleika í liði þeirra sem við ætlum okkur að nýta. Þótt við þurfum að fara erfiðu leiðina í átt að HM og í umspil þá tökum við þann slag. Við ætlum okkur á HM og vonandi sér fólk sér fært að mæta á leikinn og styðja hressilega við bakið á okkur,“ sagði Ingibjörg, sem leikur með sænska liðinu Djurgården.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert