Þurfum eins mörg stig og við getum fengið

Óttar Magnús Karlsson
Óttar Magnús Karlsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búnir að æfa vel, spiluðum flottan leik á fimmtudaginn og liðið lítur vel út. Við erum fullir tilhlökkunar,“ sagði Óttar Magnús Karlsson, leikmaður U21 landsliðs Íslands, sem á morgun mætir Slóvakíu á KR-vellinum í undankeppni EM 2019.

Ísland er í harðri baráttu um annað sæti riðilsins sem gæti gefið sæti í umspili um að komast á Evrópumeistaramótið. Óttar telur að liðið þurfi að vinna þá þrjá leiki sem eftir eru. „Ég held að það sé nokkuð ljóst, við þurfum eins mörg stig og við mögulega getum fengið.“

Óttar leikur um þessar mundir með sænska úrvalsdeildarliðinu Trelleborg en hann er þar að láni frá norska úrvalsdeildarliðinu Molde. Lánssamningurinn gildir út yfirstandandi tímabil og líkar Óttari vel dvölin í Svíþjóð.

„Það gengur nokkuð vel, ég er ánægður og mér líður vel þar. Það er það sem skiptir máli í þessu.“

Hann veit þó ekki hvort hann verður áfram hjá Trelleborg eftir tímabilið. „Það á eftir að koma í ljós, ég er ekki að hugsa um það eins og er heldur bara um þetta verkefni hér, það skýrist svo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert