Hungrið hefur ekkert minnkað

Jón Daði Böðvarsson sækir að vörn Belga í kvöld.
Jón Daði Böðvarsson sækir að vörn Belga í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við byrja mjög vel í fyrri hálfleik. Við vorum virkilega sterkir fannst mér og ógnuðum vel. Þeir voru framarlega með vörnina með mikið pláss á bak við sig. En við fengum á okkur klaufamörk sem var ólíkt okkur. Þetta var erfitt eftir að við lentum 2:0 undir,“ sagði framherjinn Jón Daði Böðvarsson eftir 3:0 tap gegn sterku liði Belga í Þjóðadeildinni í knattspyrnu.

„Við vorum að spila á móti einu sterkasta liði í heimi í dag. Þetta voru mikil hlaup. Þetta lið hefur frábæra einstaklinga en er einnig gott sem lið. Það er mjög góð blanda,“ sagði Jón Daði við mbl.is.

Spurður hvort liðið hafi svarað nægilega vel eftir 6:0 tapið á móti Sviss sagði Jón Daði:
„Já, ágætlega. Við hefðum kannski viljað spila aðeins betur. En eðlilega var þessi leikur á móti Sviss mikið sjokk fyrir leikmennina. Það var góð vakning og menn fóru í þennan leik vitandi það að við þurftum að gera miklu betur. Við hefðum alveg getað gert betur en þetta var langt því frá hræðileg frammistaða,“ sagði Jón Daði.

Hann segir að leikurinn gegn Sviss hafi verið mikið högg fyrir landsliðið en að það sé ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist í fótboltanum.

„Þetta gerist í fótboltanum, því miður, að maður fær svona þvílíka tusku í andlitið. Þetta getur komið fyrir. Ekki bara fyrir okkur, heldur fleiri lið eins og Brasilíu á HM. Þetta var hundleiðinlegur leikur og dagur fyrir okkur og eðlilega smásjokk og ólíkt okkar leikstíl síðustu ár,“ sagði Jón Daði.

Spurður hvort enn sé hungur til staðar hjá íslenska liðinu að ná enn meiri árangri sagði Jón Daði það ekkert vafamál.

„Algjörlega. Það er alltaf. Það hefur ekkert minnkað. Menn voru bara hundfúlir að tapa þessum leik. Við þolum það ekki. Það er enginn sáttur við þetta. En við verðum að snúa þessu við.

mbl.is